1 – 0 fyrir Kópavogi

633

Kópavogur er eftirsóknarverður bær að búa í og þannig á það að vera áfram.  Eitt af því sem gerir bæinn framúrskarandi er stuðningur við íbúa til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Íbúum fjölgar ört og er ein ástæða þess að að fjölskyldufólk velur sér búsetu eftir því hvar öflugt íþrótta- og tómstundastarf er, auk þess að horfa til þeirrar góðu íþróttaaðstöðu hér í bænum.

Hækkum frístundastyrkinn

Eitt af okkar 100 loforðum er hækkun á frístundastyrk barna og ungmenna í 70.000 krónur á kjörtímabilinu og þannig  hvetja öll börn og ungmenni til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Við ætlum einnig að útvíkka styrkinn enn frekar svo hann nýtist á breiðari grundvelli og uppfæra hann í samræmi við almenna verðlagsþróun.

Höldum áfram að byggja upp

Það blasir við að miðað við spár um fjölgun íbúa hér í Kópavogi á næstu árum og þar með fjölgun iðkenda í íþróttastarfi er nauðsynlegt að uppbygging á íþróttaaðstöðu haldi áfram í takt við þá þróun. Við Sjálfstæðisfólk í Kópavogi ætlum að halda áfram að bæta og byggja upp íþróttaaðstöðuna í bænum og þaðí góðu samstarfi við íþróttafélögin. Við ætlum að greina þarfir og móta stefnu til næstu ára er varðar uppbyggingu og viðhald innviða. Við ætlum  að ráðast í byggingu á nýjum keppnisvelli hjá HK í Kórnum og tryggja uppbyggingu á nýjum æfingavelli hjá Breiðablik við Fífuna ásamt því að uppfæra lýsingu á Kópavogsvelli í takt við alþjóðlega staðla. Við viljum bæta aðstöðu fyrir félagsmenn Gerplu og efla enn frekari samstarf við GKG‚ varðandi framtíðaruppbyggingu á því svæði.

Virkni og vellíðan eldri borgaranna okkar

Það er jákvæð þróun að íþróttaiðkun er sífellt að aukast hjá eldra fólki. Við viljum útvíkka verkefnið Virkni og vellíðan til muna og fjölga möguleikum fyrir þann hóp til íþróttaiðkunar undir leiðsögn faglærðra leiðbeinenda. Margt hefur áunnist á kjörtímabilinu en við getum alltaf gert betur. Við stöndum frammi fyrir áskorunum og við ætlum að tryggja að Kópavogur verði áfram besti bærinn til að búa í fyrir unga sem aldna.

Ég hvet alla Kópavogsbúa til að kynna sér okkar stefnu vel og fara yfir listann með 100 loforðum sem við ætlum að koma í verk á kjörtímabilinu. Við höfum skýra framtíðarsýn og ætlum við að fylgja henni vel eftir.