10. febrúar 2014 – 31. maí 2014

431

Í dag ganga allir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi að kjörkössunum í prófkjöri flokksins. Ég er mjög ánægður með þann fjölda hæfileikaríkraeinstaklinga sem bjóða fram störf sín í þágu Kópavogs. Hvernig sem úrslitin fara mun Sjálfstæðisflokkurinn bjóða fram samhentan og traustan framboðslista fyrir bæjar- og sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí nk.

Það er mikið fagnaðarefni að sjá þann metnað sem frambjóðendur prófkjörsins bera fyrir hönd bæjarins og alveg öruggt að þær áherslur sem við höfum séð frá þeirra hendi munu gagnast bænum okkar um ókomna framtíð.

Í þau tæp fjögur ár sem ég hef verið oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi hefur flokkurinn dafnað og vaxið, ekki einungis samkvæmt skoðanakönnunumheldur einnig með þátttöku margra nýrra og öflugra einstaklinga í starfinu. Þær áherslur sem við höfum sett fram í hinu ágæta meirihlutasamstarfi við Kópavogslistann og Framsóknarflokkinn hefur skilað Kópavogi sem framsæknasta sveitarfélagi landsins. Við höfum lagt áherslu á að með agaðri fjármálastjórn, niðurgreiðslu skulda og ráðdeild höfum við náð að lækka álögur á heimilum í bænum og þar með lagt okkar lóð á vogarskálarnar til þess að vernda þau gegn efnahagskreppunni. En betur má ef duga skal. Við munum halda áfram skipulagningu nýrra byggingarsvæða fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði og þar með auka tekjur bæjarins til að bæta þjónustuna sem og hag bæjarsjóðs.

Kópavogur er sveitarfélag þar sem þarfir allra, ungra sem aldna, eru í forgangi. Við viljum standa vörð um fjölskylduna með því að sinna eftirspurn eftir leikskólaplássum, góðum grunnskólum, og öll erum við stolt af hinum stóra og stæðilega Menntaskóla Kópavogs. Með auknu samstarfi hagsmunasamtaka eldri borgara og sveitarfélagsins munu hagsmunir þeirra vera tryggðir í hvívetna.

Við munum boða nýja stefnu í húsnæðismálum þar sem bærinn mun kalla eftir samstarfi við byggingaraðila og fagfjárfesta um lækkun byggingakostnaðar og þannigkoma til móts við þarfir ungra barnafjölskyldna sem og þeirra sem eru að fjárfesta aftur í fasteign eftir efnahagshrunið. Þar mun Kópavogur taka forystuna.

Við munum áfram setja umhverfismálin í öndvegi og viðhalda forystu bæjarins í opnum svæðum fyrir almenning og áfram styrkja og bæta þá frábæru íþróttaaðstöðu sem þegar er til staðar í samvinnu við okkar öflugu íþróttafélög.

Kæru Kópavogsbúar, þetta er verkefnið frá 10. febrúar til 31. maí nk. Það er, að fylkja liði um stefnu Sjálfstæðisflokksins. Stefnu bjartsýni, áræðni og samkenndar.

Í Kópavogi er framtíðin björt. Kópavogur er bær fjölskyldunnar.

Ármann Kr. Ólafsson
Bæjarstjóri