Geð- og lýðheilsustöð

629

 Það eru ýmis teikn á lofti í samfélaginu okkar um að mörgum líði ekki nægilega vel. Ég mun ekki nota þennan greinastúf til þess að greina að fullu hvers vegna það er. Það er ljóst að við þurfum sem heild að bregðast við auknu þunglyndi, kvíða, ótta og jafnvel í sömu andrá aukinni notkun vímuefna ásamt því sífellt fleiri taka sitt eigið líf með óbætanlegum afleiðingum fyrir þá sem sitja eftir. Aukin lyfjanotkun er staðreynd og það er hávært kall um betur þurfi að hugsa um þá sem eiga við geðrænan vanda að stríða. Við greinum þennan vanda og sem sveitafélag finnum við hann helst innan menntakerfisins og velferðarsviðsins.

Hvernig getum við sem sveitafélag brugðist við þessari válegu aukningu í vanlíðan í samfélaginu? Ýmislegt myndu sumir segja og þá helst horfa til forvarna, fræðslu og meðferðarúrræða sem við getum beint augum okkar að. Auka þarf sálfræðistuðning innan skólanna ásamt því að það þarf að efla snemmtæka íhlutun innan leikskólanna er vanda verður vart. Athyglivert væri jafnvel að innleiða hugleiðslukennslu um núvitund innan skólanna í upphafi dags. Það er mikið álag á ungu fólki í dag og stafrænn heimur verður til þess að viðbragðstími okkar við öllu áreiti styttist sífellt með tilheyrandi hraða.  Einnig erum við að sjá að stytting menntaskólans í 3 ár er mögulega að hafa neikvæð áhrif á kvíða og jafnvel brottfall nemenda. 

Það er hins vegar sífellt ljósara að heilbrigðiskerfið nær ekki að taka utan um alla þá sem þjást og því hefur þörfin sífellt vaxið fyrir frjáls félagasamtök til stuðnings þeim sem eiga um sárt að binda. Hér sem dæmi eru nefnd örfá s.s. Hugarafl, Hugarfrelsi, Pieta, Geðhjálp, Klúbburinn Geysir og Stígamót.

Slík samtök hafa átt undir högg að sækja með húsnæði og hafa mörg þeirra fengið utanaðkomandi mikilvægan  styrk frá fyrirtækjum eða hinu opinbera til þess að starfa áfram að málefnum um bætta líðan og stuðning til almennings. Starfs og styrkjaumhverfi er hins vegar flökktandi og því getur verið vandasamt að finna gott húsnæði til langs tíma.

Hressingarhælið á Kópavogstúni var vígt og byggt 1926 fyrir tilstuðlan Hringskvenna sem vildu láta gott af sér leiða fyrir sitt samfélag. Húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni og hafa staðið yfir undanfarin ár framkvæmdir við endurnýjun á þessu merka húsi sem var friðað í október 2012. Við í Sjálfstæðisflokknum sjáum fyrir okkur að innan veggja Hressingarhælisins mætti opna nýja Geð og lýðheilsumiðstöð. Þannig væri td mikill sómi sýndur sögu þess og upphaflegs tilgangs. Slík Geð og lýðheilsumiðstöð myndi veita félagasamtökum skjól um leið og þau myndu geta aðstoðað okkur, ásamt því að stunda sinn rekstur, innan mennta- og velferðarkerfisins við að halda betur utan um fræðslu, forvarnir og almennan stuðning við þá sem til okkar leita og þurfa aukna leiðsögn. Samstarfsverkefni  þar sem sveitafélag útvegar öruggt húsnæði um leið og það veitir frjálsum félagasamtök tækifæri á því að geta haldið áfram að efla og bæta geðheilbrigði og lýðheilsu  væri öllu samfélaginu í hag og afar áhugavert í framkvæmd.

Karen Elísabet Halldórsdóttir
Bæjarfulltrúi

Skipar 3. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi