Ábyrg forysta, þekking og reynsla

455

Ágætu sjálfstæðismenn.

Um mitt yfirstandandi kjörtímabil lögðum við af stað í stranga vegferð með myndun núverandi meirihluta undir forystu Ármanns Kr. Ólafssonar. Það var tekið til hendinni, enda ekki seinna vænna, þar sem aðkallandi voru mörg brýn verkefni sem þurfti að leysa við mjög erfiðar aðstæður í samfélaginu.

Bæjarstjórn á hverjum tíma hefur eitt meginmarkmið – það að bæta hag íbúa sveitarfélagsins, veita þeim kost á að lifa lífi sínu í samræmi við hæfileika sína og að njóta ávaxtanna af erfiði sínu. Þetta má aldrei gerast, með skuldasöfnun sem komandi kynslóðir þurfa síðan að bera, eða riðla skipulaginu til þess eins að breyta, án þess að tilgangur sé með breytingunum. Þess vegna verða íbúar bæjarins að búa við festu og stöðugleika og geta litið af bjartsýni fram á veginn og hugsað um þær væntingar og tækifæri sem framtíðin ber með sér. Það er því mikil ábyrgð sem bæjarstjórn á hverjum tíma ber.

Af þessu má ljóst vera að fjármál sveitarfélagsins eru stærsta og mikilvægasta hagsmunamál Kópavogsbúa. Þau eru fjöreggið sem okkur er trúað fyrir og lykillinn að hagsæld íbúanna sem hafa veitt okkur umboð sitt til að höndla þetta fjöregg.

Við getum litið með stolti yfir þann hluta kjörtímabilsins þar sem við sjálfstæðimenn höfum haft forystu. Með samstilltu átaki hefur tekist að rífa lánshæfismat bæjarfélagsins upp úr ruslflokki og upp í stöðugan plúsflokk. Áætlanir um lóðasölu hafa gengið eftir, sem hefur jafnframt verið forsenda þess að okkur hefur tekist að greiða niður skuldir bæjarins hraðar en gert var ráð fyrir. Miðað við stöðuna og horfurnar í dag bendir margt til þess að lögbundnu skuldaviðmiði sveitarfélaga verði náð þegar á árinu 2016. Þetta má þakka traustri og ábyrgri forystu sjálfstæðisflokksins. Við upphaf núverandi meirihlutasamstarfs, hefðu flestir talið þetta óhugsandi í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem við stóðum frammi fyrir.

Rétt er að minna á, að skuldir Kópavogsbæjar eru „góðkynja“ í þeim skilningi að þær spruttu fram af fjárfestingum við uppbyggingu bæjarfélagsins, eins og lóðum, samgöngukerfi, leik- og grunnskólum, íþróttamannvirkjum og öðrum innviðum. Af því leiðir að fjárhagur bæjarfélagsins er traustur svo framarlega sem tekjur af lóðasölu renna beint og milliliðalaust til niðurgreiðslu skulda. Þetta krefst að sjálfsögðu ákveðins aga, ekki hvað síst á tímum sem eru markaðir af endalausum sparnaði og hagræðingu. Þennan aga höfum við sjálfstæðismenn öðrum fremur, eins og dæmin sanna.

Með samstilltu átaki tókst að leiða farsællega til lykta vandmeðfarin verkefni á grunnskólastiginu, m.a. með sameiningu Hjalla- og Digranesskóla í einn skóla, Álfhólsskóla. Með innleiðingu áhugaverðra nýjunga í skólastarfinu í Kópavogi hefur verið lagður grunnur að einum öflugasta grunnskóla landsins. Ljóst er að tækifærin til að gera grunnskólastarfið í Kópavogi enn öflugra og markvissara eru fjölmörg og hægt að sækja fram á mörgum vígstöðum á næstu árum.

Ágætu samherjar. Hér hefur verið tæpt á þeim mikla árangri sem við sjálfstæðismenn höfum náð við stjórn Kópavogsbæjar. Vegferðin hefur að sönnu verið ströng en erfiðisins virði, í ljósi þess hve hratt okkur miðar fram. Nú ríður því á að við sjálfstæðismenn snúum bökum saman og tryggjum áfram stöðugleika í stjórn bæjarins.

Ég sækist eftir endurkjöri og býð mig fram í annað sæti framboðslistans og óska eftir stuðningi þínum til áframhaldandi forystustarfa í þágu Sjálfstæðisflokksins. Stuðningur þinn skiptir máli fyrir bæinn okkar, en sjaldan eða aldrei hefur verið brýnna að tryggja stöðugleika í bæjarstjórn, svo leggja megi varanlegan grunn að vexti og velferð Kópavogs.

Stillum upp styrkum lista í Kópavogi með „Ábyrgri forystu, þekkingu og reynslu“ í komandi prófkjöri.

Margrét Björnsdóttir
forseti bæjarstjórnar Kópavogs og
formaður umhverfis- og samgöngunefndar

Grein birt í Vogum sem komu út 3. febrúar 2014.