Ábyrg stefna fyrir ungt fólk

404

Þrátt fyrir einstakt met í fjölda framboða þetta árið þá hefur pólitísk umræða í fjölmiðlum einblínt mjög á eitt mál, skuldavanda heimilanna. Stærð og alvarleiki þess vanda er engum vafa undirorpinn en fyrirferð málaflokksins í fjölmiðlum endurspeglar ef til vill aldur og stöðu fjölmiðlafólks sem stýrir umræðunni hér á landi.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég er í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og það hefur verið alveg frábær lífsreynsla. Við frambjóðendurnir höfum heimsótt skóla, fyrirtæki og stofnanir í nafni flokksins ásamt því að baka pönnukökur í verslunarmiðstöðvum og hringja í kjósendur. Einhvern veginn hafði ég gefið mér að það yrði erfiðara að nálgast fólk og að orðræðan gæti orðið leiðinleg. En reynslan hefur hins vegar verið ótrúlega ánægjuleg, kjósendur eru almennt tilbúnir að deila reynslusögum sínum til að benda á það sem betur mætti fara í samfélaginu og kjósendur Sjálfstæðisflokksins jafnt sem annara flokka hafa tekið okkur opnum örmum.

Ég hef reyndar á tilfinningunni að með fjölgun framboða og nýjum kynslóðum hafi orðræðan breyst til hins betra og að kjósendur hafi almennt meiri skilning á mismunandi afstöðu fólks. Þessu til stuðnings vil ég nefna að ungt fólk hefur verið mjög opinskátt um skoðanir sínar og hvað það hefur kosið á meðan algengt er að eldri borgarar bregði upp skotheldum pókersvip og segist aldrei hafa gefið nokkrum manni nokkuð upp um skoðanir sínar.

Menntun
Til að sporna gegn brottfalli á framhaldsskólastigi viljum við leita leiða til að stytta meðalnámstíma til stúdentsprófs. Kynna þarf nemendum í grunnskólum ólíka starfs- og námskosti mun fyrr en almennt er gert og gæta að því að ekki halli á iðn-, verk,- og starfsnám. Styrkja þarf stoðir grunnskólans til þess að allir nemendur komi vel undirbúnir til frekara náms. Við teljum einnig mikilvægt að gefa nemendum tækifæri til að útskrifast úr framhaldsskólanámi með fjölbreyttari hætti en nú er gert, til dæmis með aukinni stigskiptingu náms þar sem ákveðnum áfanga er náð í lok hvers stigs. Við teljum að það geti haft hvetjandi áhrif og geri einnig þeim sem horfið hafa frá námi auðveldara um vik að snúa aftur.

Endurskoða þarf lánakerfi og úthlutunarreglur LÍN. Hvetja þarf til þess að nemendur ljúki námi á tilskyldum tíma. Líta þarf til þess hvort viðmiðunarmörk tekjutengingar séu of lág, ekki síst vegna hækkandi skólagjalda og breyttrar stöðu í þjóðfélaginu, meðal annars hjá þeim sem lent hafa í greiðsluerfiðleikum eða gjaldþroti. Við teljum einnig mikilvægt að þeir sem eru að endurgreiða námslán sitji við sama borð hvað endurgreiðslur varðar en mikill munur er á greiðslubyrði eftir því hvenær lánin voru tekin.

Húsnæði
Sjálfstæðisflokkurinn vill auðvelda ungu fólki fyrstu húsnæðiskaupin með því að veita þeim sem eru að spara fyrir íbúð allt að 40.000 kr. skattaafslátt á mánuði af því sem lagt er fyrir. Þetta fyrirkomulag mun hjálpa kaupendum til að eignast stærri hlut í sinni fyrstu íbúð og þannig draga úr þörf fyrir há lán.

Nýtum tækifærin
Hér er aðeins tæpt á örfáum málum og því má ekki gleyma að þjóðarsátt um stöðugleika til að auka lífsgæði, tryggja öryggi og atvinnu er grundvöllur nýs framfaraskeiðs. Nýta þarf hvert tækifæri og hafa kjark til nauðsynlegra aðgerða. Ég treysti stefnu og forystu Sjálfstæðisflokksins undir stjórn Bjarna Benediktssonar til að sækja fram með ábyrgum hætti og með umhyggju fyrir íslensku þjóðinni að leiðarljósi.