Að ári liðnu

481

Fjárhagsleg staða Kópavogs hefur styrkst og með nýjum meirihluta er áhersla lögð á skattalækkanir, aukna uppbyggingu og framsækni sveitarfélagsins

Ár er nú liðið frá því nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Y-Lista Kópavogsbúa tók við í Kópavogi eftir að þáverandi meirihluti lét af völdum. Á þessum stutta tíma hefur okkur í hinum nýja meirihluta tekist að hrinda í framkvæmd mörgum af okkar helstu áherslum í málefnasamningi þessara þriggja flokka. Það sem stendur efst í mínum huga er fyrsta skrefið í því að hverfa af braut skattahækkana í bænum. Fasteignagjöld á íbúðir og fyrirtæki voru lækkuð í upphafi árs, sem og vatnsskattur og sorphirðugjald. Með  þessu vildum við gefa nýjan tón og víkja frá því viðhorfi að ávallt væri hægt að seilast dýpra í vasa skattborgaranna í stað þess að taka á rekstrinum.

Fjárhagsleg staða Kópavogs hefur styrkst og með nýjum meirihluta var auk fyrrgreindra skattalækkana lögð áhersla á aukna uppbyggingu og framsækni sveitarfélagsins. Það þarf ekki að dvelja lengi í bænum til að sjá þá trú sem atvinnulífið hefur á Kópavogi. Víða er verið að reisa ný hús í öllum stærðum og gerðum, úthlutun lóða hefur aukist til muna síðasta ári og þetta ár fer vel af stað. Það spilar líka stórt hlutverk að Kópavogur er einstaklega vel staðsettur á miðju höfuðborgarsvæðisins og innviðir okkar eru traustir. Hér eru góðir skólar, leikskólar, félagsmiðstöðvar, aðstaða fyrir eldri borgara og íþróttamannvirki svo eitthvað sé nefnt.

Til að hvetja fólk til að flytjast í bæinn beitti nýr meirihluti sér fyrir því að liðka fyrir lóðkaupum með því að lækka gjöld og þar með byggingarkostnað. Lán bæjarins vegna lóðasölu bera til dæmis ekki vexti í sex mánuði eftir lóðakaup til að gefa kaupendum svigrúm til að ganga frá teikningum og öðrum undirbúningi áður en vextir byrja að telja.

Þetta hefur án efa gefið Kópavogi forskot. Bærinn heldur því áfram að vaxa og dafna og er ein birtingarmynd þess sú að síðasta haust tók ég fyrstu skóflustunguna að nýjum leikskóla í nýju hverfum Kópavogs með rými fyrir ríflega 120 leikskólabörn. Skólinn verður tekinn í notkun í byrjun næsta árs.

Við höldum áfram að horfa fram á veginn þar sem samstarfsnefnd Kópavogs og Reykjavíkur mun skila tillögum sínum um hjóla og göngutengingu yfir Fossvoginn. Nefndin mun einnig horfa til almenningssamganga í þessu sambandi. Ég tel að þarna geti komið fram byltingarkenndar hugmyndir sem muni gerbreyta ferðamynstri byggðar sunnan Fossvogs. Þ.e.a.s. íbúa Kópavogs, Garðabæjar og Hafnafjarðar. Þá bjóða þessar hugmyndir upp á nýjar áherslur í byggð fyrir ungt fólk á Kársnesi þar sem það verður hluti af heimasvæði Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Einnig skapast ný og meiri nánd við Landspítalann, stjórnsýslu ríkisins og miðbæinn í Reykjavík og öfugt að sjálfsögðu.

Fyrsta ár meirihlutans hefur svo sannarlega verið viðburðaríkt og við  höfum látið hendur standa fram úr ermum. Við höfum tekið af skarið með hverfaskiptingu íþróttafélaganna, sem hefur minnkað „skutl“ foreldranna, uppbyggingu á Kjóavöllum í samráði við hestamenn og Garðbæinga og í samræmi við málefnaskrá okkar höfum við stofnað hverfaráð þar sem íbúar fá aukin tækifæri til að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi. Stjórnsýsluúttekt var gerð hjá bænum og með hana að leiðarljósi er unnið að því að efla stjórnsýsluna enn frekar og gera hana skilvirkari. Við í bæjarstjórn höfum líka litið í eigin barm og með breyttum reglum og nýjum fundarsköpum, höfum við freistað þess að efla málefnalegar umræður bæjarfulltrúa og gera starf okkar markvissara.

Að lokum langar mig til að nefna stofnun nýs samstarfsvettvangs Kópavogsbæjar og atvinnulífsins sem ætlað er, með sameiginlegri markaðsstofu, að efla atvinnulífið í bænum. Um hundrað manns mættu á undirbúningsfund þessa átaks fyrir jól og sýnir það svo ekki verður um villst að þörfin er mikil. Við viljum virkja þennan kraft og áhuga og taka þátt í því með atvinnulífinu og bæjarbúum að gera Kópavog að enn betri bæ. Verk okkar fyrsta árið sýna að meirihlutanum í bænum er full alvara með öfluga uppbyggingu og við erum óhrædd við að láta reyna á nýjar hugmyndir og nýja nálgun í bæjarmálunum. Við munum því halda áfram að vinna að þeim verkefnum sem ennþá standa útaf í meirihlutasamning flokkanna þriggja.