Að byrja á réttum stað

489

Það er nauðsynlegt að byrja á réttum enda. Ég hef verið mikil áhugamanneskja að ræða þær áskoranir sem fylgja aukinni aðsókn ferðamanna til Íslands.

Öllum er orðið það ljóst að fjöldi ferðamanna er að sliga þá innviði sem 330.000 manna samfélag byggir í strjálbýlu landi. Áætlanir segja okkur að heimsóknirnar verði tæplega 2,5 milljónir ferðamanna á árinu 2017. Áhrifanna mun gæta víða og helstir eru nefndir þættir eins og álag á vegakerfið, ásókn og umgengni við náttúruna og skortur á aukinni lög- og öryggisgæslu. Aðrar afleiddar afleiðingar eru td.húsnæði eða réttara sagt skortur á því. Skipulag og uppbygging á húsnæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur hefur dregist (þó ekki í Kópavogi) og ekki haldið í við náttúrulega fjölgun landsmanna. Ofan í það kemur þessi mikla aðsókn erlendra gesta sem myndar mikinn þrýsting á húsnæðis og leigumarkaðinn.

Hvað er því til ráða? Eins og staðan er í dag, eru sveitafélög sveitt við að reyna að koma til móts við þessar aðstæður og velta upp ýmsum spurningum um hvernig hægt sé að bregðast við. Sú umræða á fyllilega rétt á sér en hún mun aldrei ná utan um það sem er raunverulega að.

Staðan er einfaldlega sú að flugfélögin virðast ráða því hversu margir ferðamenn koma hingað og enginn annar stemmir í raun stigu við það. Aðsóknin stjórnar framboðinu og þar sem að íslensk yfirvöld hafa ekki markað sér neinar áætlanir eða stefnu um hvernig skuli bregðast við þessu aukna álagi er ástandið orðið stjórnlaust. Það er alveg með ólíkindum að okkur hafi ekki tekist hraðar og betur upp með að ræða einfalda hluti eins og komugjöld eða náttúrupassa. Sú umræða er strax skotin niður m.a af flugfélögum, hagsmunaðilum og kverúlöntum sem vilja ekki greiða þetta sjálfir.
Við verður að horfast í augu við það, að ef það er stefna okkar að viðhalda þessum straumi ferðamanna og þeim gjalddeyri sem við viljum að flæði inn þá þarf að taka þessar ákvarðanir og það helst í gær. Vissulega erum við að taka inn háar fjárhæðir í gegnum virðisaukaskattskerfið en það er einfaldlega ekki nægjanlegt til þess að byggja upp og reka samfélaglega innviði sem eru dýrir í rekstri, borga opinberar skuldir og taka á móti 2,5 milljónum ferðamanna!

Ég vil því hvetja nýjan ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar að sýna stefnuna í verki. Setja hér á hið fyrsta komugjöld eða dusta rykið af góðum hugmyndum fyrrum ráðherra í sama málaflokki um Náttúrupassa. Hættum að ræða þetta og eyða jafnóðum umræðunni og tökumst á hendur verkið sem þessu fylgir.