Að lifa lengur og betur

537

Grein eftir Karen Elísabet Halldórsdóttur, formann öldungaráðs og bæjarfulltrúa.

Á Íslandi er meðalævilengd karla 81 ár og kvenna 84,1 ár. Frá árinu 1988 hafa karlar bætt við sig sex árum og konur rúmlega fjórum árum í meðalævilengd. Í Kópavogi er hlutfall aldraðra 12.8 % af heildarfjölda íbúa, en það var 7.7% árið 1991. Fjölgunin er því mikil og því eðlilegt að huga betur að þessum sístækkandi
hópi íbúa og þeim áskorunum sem fjölguninni fylgir. Með stofnun Öldungaráðs var brugðist við þessari þörf. Þar mætast reglulega pólitískir fulltrúar bæjarins og fulltrúar eldri borgara. Þessir fundir hafa fært okkur nær því að meta hvaða þjónustu talið er að þurfi að bæta eða ræða. Mér varð strax ljóst sem formanni Öldungaráðsins að fulltrúar eldri borgara koma auðmjúkir fram með sínar kröfur um bætt lífsgæði, enda einstaklingar af kynslóð sem hefur alltaf séð um sig og sína, unnið mikið og lagt grunnin af þeirri velmegun sem við Íslendingar njótum nú. Það hefur líka komið skemmtilega á óvart að kynnast hversu virkt félagsstarf aldraðra er í Kópavogi. Þvílík gleði og fjölbreytni sem einkennir þennan félagsskap. Þeim er einnig annt um að ná til stærri hóps og þá sérstaklega þeirra sem eru mögulega félagslega einangraðir. Markmiðið er að sem flestir gleðjist og njóti lífisins og þeirrar aðstöðu sem Kópavogur og félög í bænum geta boðið upp á.

Það sem einkennir umræðu um öldrunarmál, er oftar en ekki um nauðsyn fjölgunar hjúkrunarrýma og dagdvala. Hún er mikilvæg en er ekki lýsandi fyrir þennan fjölbreytta hóp. Með bættri heilsu og velferð eru aldraðir margir hverjir afar sprækir og hraustir, fullir af krafti og dug langt fram eftir aldri. Það er sameiginlegt markmið alls samfélagsins að viðhalda góðri heilsu allra aldurshópa. Slíkt dregur úr álagi á heilbrigðisog
velferðarkerfinu og um leið gerir lífið betra og skemmtilegra. Samkvæmt lögum um aldraða ber okkur að haga aðstæðum þannig að sem flestir geti búið á sínu heimili sem lengst. Til þess að auka líkurnar á því þurfum við að mæta misjöfnun þörfum með góðri heimaþjónustu og aðgengi að hreyfingu.

Regluleg hreyfing hægir á áhrifum og einkennum öldrunar, veitir andlegan og líkamlegan styrk til að takast á við dagleg verkefni og viðheldur getu til að vera sjálfbjarga í daglegu lífi. Það er mín reynsla að mjög margir aldraðir eru duglegir að huga að heilsu sinni með reglulegri hreyfingu. Reglulega fer af stað umræða um íþróttastyrki í formi fjármagns líkt og gert er fyrir börnin okkar. Slíkt er ekki á dagskrá núverandi fjárhagsáætlunar en við ætlum að styrkja verkefni sem íþróttafélögin þrjú; Gerpla, HK og Breiðablik munu stýra. Verkefnið er námskeið sem fela í sér reglulega hreyfingu og fræðslu undir handleiðslu menntaðra einstaklinga í íþróttahúsum bæjarins. Með því er kannski sérstaklega hugað að þeim sem hingað til hafa ekki fundið hreyfingu við sitt hæfi, þurfa jafnvel aukin stuðning eða hafa einfaldlega ekki treyst sér af stað í átt
að markvissri hreyfingu. Það verður spennandi fylgjast með þessu verkefn en þetta er bara hluti af því sem við í bæjarstjórn Kópavogs viljum gera vel fyrir þennan mikilvæga aldurshóp sem vil öll stöndum í svo mikilli þakkarskuld fyrir störf sín í þágu uppbyggingar lands og þjóðar.