Að loknum landsfundi

394

“Vísasta leiðin til að gera betur er að gera stöðugleika- og vaxtarsáttmála milli aðila vinnumarkaðarins og vinna saman að bættum lífskjörum.”

Fjölmennur landsfundur Sjálfstæðisflokksins síðustu helgi heppnaðist afar vel og gaf tóninn fyrir kosningabaráttuna sem fram undan er. Sjálfstæðisflokkurinn gengur til kosninga með skýra og raunhæfa stefnu í öllum málaflokkum frá landsfundinum. Stefnu sem tekur á vanda heimilanna í landinu og blæs krafti í atvinnulífið á ný. Ég vil þakka þeim 1.700 landsfundarfulltrúum, sem tóku þátt í að móta og skerpa á stefnu Sjálfstæðisflokksins, þeirra óeigingjarna starf þessa fjóra daga sem landsfundurinn stóð.

Í þágu heimilanna

Á þessu kjörtímabili hefur verið herjað á heimilin í landinu. Mikill samhljómur var um það á landsfundinum að allar aðgerðir sem ráðist yrði í á næsta kjörtímabili yrðu í þágu heimilanna. Þær snúa helst að eftirfarandi:

• Að ráðast að rót vanda íslenskra heimila með skulda- og skattalækkunum.

• Að breyta umhverfi lánamála þannig að húsnæðis- og neytendalán séu almennt ekki verðtryggð.

• Að auka verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi.

• Að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og afnema gjaldeyrishöft.

• Að sýna ábyrgð og bæta opinberan rekstur, lækka skatta og endurskoða bótakerfi.

• Að tryggja grunnþjónustu fyrir alla landsmenn og standa vörð um velferðina

Með sérstökum skattaafslætti vegna afborgana af húsnæðislánum skal létt undir með fjölskyldum sem orðið hafa fyrir verðbólguskotum og eignaverðslækkunum.

Fólk á jafnframt að fá val um að ráðstafa þeim fjármunum sem ella færu í séreignarsparnað beint inn á húsnæðislán með fullum skattaafslætti. Það mun lækka afborganir af skuldum og hraða eignamyndun.

Fráfarandi ríkisstjórn hefur fyrst og fremst valið leið skatta- og gjaldahækkana í þeirri viðleitni að loka fjárlagagatinu. Þrátt fyrir að hafa gengið lengra en nokkurn gat órað fyrir í þessum efnum hefur fjárlagagatinu þó enn ekki verið lokað. Ástæðan er sú að þessi stefna hefur virkað hamlandi á hagvöxt sem hefur verið langt undir því sem nauðsynlegt er.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins kvað skýrt á um að hverfa frá þessari skattastefnu. Við ætlum að taka tekjuskattskerfið til endurskoðunar, lækka skatta og einfalda skattkerfið með afnámi þriggja þrepa kerfis. Með þessu mun krónunum fjölga í launaumslaginu. Aðrir skattar og gjöld, t.d. eldsneytisgjöld, verða lækkuð.

Fyrir fyrirtækin er rétt að byrja á tryggingagjaldinu og lækka það. Með tryggingagjaldinu eru fyrirtæki skattlögð fyrir að ráða fólk til vinnu, þegar fátt er mikilvægara en að fjölga störfum. Nú er staðan sú að með um það bil hverjum tíu starfsmönnum sem fyrirtæki hefur í vinnu greiðir það jafngildi launa eins starfsmanns í tryggingagjald. Það sér hver maður að slíkt fyrirkomulag dregur úr hvötum fyrir fyrirtæki til að ráða fólk til starfa og er ekki til þess fallið að vinna bug á atvinnuleysinu. Vinda þarf ofan af alls kyns skattaflækjum fráfarandi stjórnar sem virka hamlandi á framtakssemi í atvinnulífinu. Oft er langt seilst eftir litlu með miklum kostnaði.

Engar viðræður við ESB án lýðræðislegs umboðs

Sjálfstæðisflokkurinn vill halda sig utan ESB. Við teljum mikilvægustu viðskiptahagsmunum Íslands í samskiptum við ESB vel borgið með aðildinni að EES.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur verið stefna flokksins frá því að þetta mál kom fyrst til kasta þingsins, að rangt væri að eiga í aðildarviðræðum án þess að skýrt umboð hefði verið fengið hjá þjóðinni.

Undanfarin ár hefur komið æ betur í ljós hversu mikilvægt það er að skýr vilji þings og þjóðar liggi að baki aðildarviðræðum.

Það blasir við að ríkisstjórnin er ekki trúverðugur viðsemjandi. Viðræðurnar eru miklu nær því að vera sýndarviðræður en aðildarviðræður.

Sumir virðast halda að forysta í utanríkismálum okkar Íslendinga felist fyrst og fremst í því að berjast fyrir inngöngu í sífellt fleiri milliríkjasamtök. Ég tel forystuna miklu fremur ráðast af staðfastri afstöðu, sem stenst dóm tímans, og baráttu fyrir því að Ísland skipi sér þar sess á meðal þjóða sem skapar landsmönnum mesta farsæld.

Að vaxa út úr vandanum

Við Íslendingar þurfum að hefja nýtt skeið stöðugleika og vaxtar. Það gerist ekki nema heimilunum verði komið til aðstoðar, kraftur settur í atvinnulífið og verðmætasköpun aukin. Þannig vöxum við út úr vandanum og treystum um leið mikilvægar stoðir velferðarkerfisins.

Vísasta leiðin til að gera betur er að gera stöðugleika- og vaxtarsáttmála milli aðila vinnumarkaðarins og vinna saman að bættum lífskjörum.

Í þágu heimilanna mun Sjálfstæðisflokkurinn forgangsraða rétt. Það er kominn tími til að nýta tækifærin, kominn tími til aðgerða, tími til sóknar – í þágu okkar allra.

Höfundur er formaður Sjálfstæðisflokksins.