Af þorski og olíu

434

Það er til siðs að spyrja á hverju gjaldmiðill byggist. Því er auðsvarað um íslensku krónuna. Hún byggist auðvitað á þorski. Seðlabanki Íslands viðurkennir það með því að hafa þorsk andspænis landvættunum á krónumynt sem er gjaldmiðill í dag.

Þetta var ekki alveg út í bláinn hjá bankastjórum Seðlabankans þegar útlit myntar var ákveðið við myntbreytingu árið 1981. Það var reynsla bankastjóranna að verðgildi íslensks gjaldmiðils í erlendri mynt réðist af verði og magni þess þorsks sem fluttur var út. Það sama á við hjá öðrum þjóðum; þegar verð hækkar á afurðum sem þjóð framleiðir þá styrkist hagur og verðgildi myntar.

Hvers vegna bann?

Nú þegar deilur eru um makríl og viðskiptabann Rússa á íslenskar sjávarafurðir er vert að huga að því hvort það kunni að vera að „stórveldið“ Rússland hafi annað í huga en stjórnmálalegar ástæður þegar lagt er á innflutningsbann á íslenskar sjávarafurðir og matvæli frá Vesturlöndum. Stjórnmálaástæður kunna að vera af tvennum toga:

  • Vopnasölubann á Rússland, svo og að selja ekki hátæknibúnað til vopnaframleiðslu og orkuframleiðslu.
  • Skerðing á ferðafrelsi tiltekinna rússneskra aðila til landa sem taka þátt í þvingunaraðgerðum.
  • Frysting eigna þessara aðila, svo og bann á viðskipti við nokkra banka og olíufyrirtæki.
  • Bann á þjónustuviðskiptum við hin innlimuðu svæði á Krímskaga og í Sevastopol, og einnig fjárfestingum á þessum svæðum.

Þvingunaraðgerðunum er ætlað að tryggja að Rússar virði að fullu vopnahléssamkomulag sem kennt er við Minsk. Þeim er ekki beint gegn rússneskum almenningi heldur gegn stjórnvöldum og valdamönnum.

b. Önnur ástæða kann að vera sú, að eftir að deilur blossuðu upp um Úkraínu og Krímskaga ætli rússneskir ráðamenn að landið verði sjálfbært í matvælaframleiðslu með því að vernda innlendan matvælaiðnað og geri það undir yfirskyni matvælaöryggis. Sú hugmyndafræði kann að falla Íslendingum, sem styðja við innflutningshömlur á landbúnaðarafurðir einkar vel í geð. Samkvæmt skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) fyrr í þessum mánuði kemur fram að samdrætti í landsframleiðslu Rússlands muni ljúka á þessu ári og er spáð um 0,2% hagvexti á árinu 2016.

Í spánni segir að helsta viðfangsefni stjórnvalda sé að auka fjárfestingar. Jafnframt kemur fram að rússnesk stjórnvöld vinni að því að finna staðgönguvörur í stað innfluttra (e. import substitution programme), sem miði að því að draga úr innflutningi og auka verðmætasköpun í landinu.
Þriðja ástæða fyrir innflutningsbanni á íslenskar sjávarafurðir til Rússlands kann að vera erfiðleikar á sölu á makríl til Nígeríu en hann hefur verið seldur þangað. Stjórnvöld í Nígeríu viðurkenna skort á gjaldeyri þegar leitað er skýringa á því hvers vegna ekki er fluttur inn makríll í miklu mæli. Stórveldi viðurkennir ekki gjaldeyrisskort.

Kannski er enginn peningur til

Þegar rýnt er í rússneskar hagtölur verður fyrst fyrir að gengi gjaldmiðils landsins, rúblu, hefur fallið gagnvart Bandaríkjadal, USD, um 50%, sem veldur 100% verðhækkun innanlands á vörum sem keyptar eru í USD. Dalurinn sem kostaði um 30 rúblur fyrir tveimur árum kostar nú um 60 rúblur. Á sama tíma hefur verð á olíu fallið um 50%. Fylgni milli þessara stærða er sem næst fullkomin, þegar olíuverð lækkar, þá hækkar verð á USD í rúblum. Fylgnistuðullinn (e. correlation) reiknast sem r = -0,97.
Samkvæmt þessari tölfræði er gengi rúblu gagnvart USD nánast alveg háð verði á hráolíu, miðað við gögn síðustu þrjú og hálft ár. Þegar olíuverð hækkar styrkist rúblan og öfugt. Rússland er nær einvörðungu hrávöruframleiðandi. Nær engar hátæknivörur eru framleiddar í landinu. Stór flugfélög í Rússlandi nota farþegaþotur frá vestrænum framleiðendum en ekki rússneskar flugvélar.

Efnahagslegar skýringar

Á árinu 2014 dróst landsframleiðsla Rússlands saman um 3,4%. Um 60% af tekjum ríkisins koma af sölu á olíu. Um 70% alls útflutnings er tengdur orku, aðallega olíu. Sem fyrr segir hefur olíuverð lækkað um nær helming frá árinu 2012 og því ljóst að tekjutap rússneska ríkisins af verðfalli olíu var mjög mikið.

Svo virðist sem ávinningur af háu olíuverði hafi ekki verið notaður til að byggja upp innviði og framleiðslugetu í Rússlandi. Þess sér stað í gengi rúblu gagnvart USD.

Viðskiptabann Rússa á matvæli kann því miklu fremur að eiga sér efnahagslegar skýringar en stjórnmálalegar ástæður. Það mun ekki ganga að selja rússneskum almenningi innflutt matvæli á sama verði í dollurum og áður, en það þýðir tvöfalt verð í rúblum. Samdráttur í kaupmætti almennings leyfir honum ekki slíkan munað.

mynd_1

mynd2