Aldraðir eiga að njóta virðingar

449

Virðum sjálfsákvörðunarrétt eldra fólks
Lífskjör aldraðra og réttindi er eitt helsta forgangsverkefni næstu ára. Síversandi kjör eldri kynslóðanna er mál sem snertir okkur öll. Leiðrétting til ellilífeyrisþega vegna kjaragliðnunar undanfarinna ára er enn óbætt og bendir margt til þess að komið sé að þolmörkum hjá vaxandi fjölda þeirra. Nægir í þessu sambandi að benda á nýlegar kannanir sem sýna hvernig hátt hlutfall eldri borgara, sem sparar við sig í læknisþjónustu, sker sig úr í samanburði við aðra aldurshópa.

Grundvallarréttur einstaklingsins
Þá er ekki síður brýnt að sjálfsákvörðunarréttur aldraðra verði virtur í reynd. Eins og málum er háttað, getur þessi mikilvægi grunnréttur beinlínis orðið velferðarkerfinu að bráð, eins og skert sjálfræði og fjárræði þeirra sem dvelja á öldrunarstofnunum er til marks um. Þá er ekki síður brýnt að öldruðum verði gert kleift að búa á heimili sínu eins lengi og vilji hvers og eins og afl stendur til. Réttur til sjálfsákvörðunar er í senn grundvöllur mannréttinda og mannlegrar reisnar.

Siðferðisleg rök og þjóðhagsleg
Þegar litið er til þess að um hagkvæmari kost er að ræða, því lengur sem eldri borgarar fá notið sjálfstæðrar búsetu, standa ekki aðeins siðferðisleg rök heldur einnig þjóðhagsleg til þess að aldraðir hafi sjálfsákvörðunarrétt í eigin málefnum sem lengst. Heimaþjónusta gegnir mikilvægu hlutverki í því að efla sjálfræði aldraðra og í flestum sveitarfélögum landsins eiga eldri borgarar rétt á bæði heimilishjálp og heimahjúkrun. Vandinn sem við er að eiga er sá, að heimaþjónusta við aldraða skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga, sem ganga á stundum ekki alveg í takt, þar sem heimahjúkrun er á vegum ríkisins á meðan félagsleg heimaþjónusta er á hendi sveitafélaga.

Nærþjónusta sveitarfélaga
Heimahjúkrun er enn eitt dæmið um nærþjónustu sem á mun betur heima hjá sveitarfélögum en ríki og með því að sameina á eina hendi alla þætti heimaþjónustunnar má veita þessa mikilvægu þjónustu með betra og markvissara móti. Tilfærsla nærþjónustuverkefna frá ríkinu hafa á undanförnum kjörtímabilum gefið góða raun og ætti fátt að vera því til fyrirstöðu að sveitarfélögin taki nú við því mikilvæga samfélagslega verkefni, að gera öldruðum kleift að búa áhyggjulaust heima hjá sér.

Margrét Björnsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs
óskar eftir þínum stuðningi í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi sem fram fer þann 8. febrúar.