Anný Berglind Thorstensen

707

Anný Berglind starfar sem sérfræðingur á þróunar- og markaðssviði Arion banka.

Anný Berglind er með meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands og B.Sc.-gráðu í hjúkrunarfræði frá sama skóla. Anný útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1991.

Auk þess að sinna móðurhlutverki og hinum ýmsu störfum hefur Anný verið prófdómari í meistaranámi hjá Háskóla Íslands, gjaldkeri foreldrafélags Hörðuvallaskóla, var í stjórn MAESTRO félags meistaranema í viðskipta- og hagfræðideild og síðastliðið ár hefur Anný verið í stjórn Eddunnar.

Anný Berglind er gift Halldóri Ásgrími Elvarssyni og eiga þau fjóra syni.

„Ég hef búið í Kópavogi nánast alla mína tíð, hér gekk ég í grunnskóla, byggði mitt hús, hér hef ég alið upp börnin mín og hér hafa þau einnig gengið í skóla. Reynsla mín af þjónustu Kópavogsbæjar við íbúa sína er því orðin töluverð. Kópavogur er öflugt samfélag með sterka innviði en það er trú mín að við getum gert enn betur í að gera góðan bæ betri og skapa einstaklingum, fjölskyldum og fyrirtækjum þannig umhverfi að þau velji að vera hér fremur en annars staðar. Það er trú mín að ef við ætlum að ná markmiðinu um enn betra samfélag þurfi áfram styrka stjórn sjálfstæðismanna í Kópavogi. Það þarf að marka skýra stefnu um framtíðina og velja til starfa einstaklinga sem hafa þekkingu og reynslu af bæjarstjórnarmálum ásamt einstaklingum með reynslu annars staðar úr þjóðfélaginu. Ég hef víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og vil leggja mitt af mörkum fyrir betri Kópavogsbæ. Í öllum mínum störfum hef ég starfað af heilindum og fagmennsku, það eru gildi sem ég vil halda í heiðri.“