Áskoranir í skólastarfi

505

Starfsfólk og stjórnendur skóla horfast nú í augu við meiri áskoranir í skólastarfi en nokkru sinni fyrr með tilkomu heimsfaraldurs. Mikið starf fer fram innan skólanna og hjá menntasviði Kópavogsbæjar frá degi til dags við að tryggja sem mestan stöðugleika, öryggi og virkni barna okkar. Það er gaman að sjá þá samheldni og jákvæðni sem ríkir hjá öllum við að leysa þetta verkefni sem allra best og skilning foreldra á breyttum aðstæðum og oft á tíðum skertri þjónustu.

Yfirlýsing mennta- og menningarmálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur um að loka skyldi framhaldsskólum og háskólum en halda áfram kennslu í leik- og grunnskólum eins og kostur væri kallaði á algjöra uppstokkun í skólunum. Starfsemi skólanna var skilyrðum háð og ljóst að skólahald myndi raskast. Gert var ráð fyrir að einstakir hópar í grunnskólum miðuðust við 20 nemendur að hámarki og að fyrirbyggja skyldi blöndun hópa innan skóladags. Reyna átti að lágmarka snertingu milli einstaklinga og hafa eins rúmt og hægt væri um hvern nemanda í skólastofunni. Ekki var þó talað um 2ja metra regluna í umfjöllun um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.

Í Kópavogi var lögð áhersla á viðveru yngstu barnanna í skóla og aukin áhersla á fjar- og heimanám nemenda á miðstigi og unglingastigi, þó þannig að tryggð voru regluleg tengsl eldri nemenda við skólann. Segja má að nemendur í Kópavogi á mið- og unglingastigi búi betur en nemendur víða á landinu í ljósi þess að þau hafa á að skipa spjaldtölvu í námi sínu og geta því nýtt upplýsingatæknina til náms og samskipta við kennara og félaga sína. Með þessu móti var hægt að búa til það rými innan skólanna sem nauðsynlegt var til að uppfylla þær kröfur sem gerðar voru um hópastærðir og til að forðast blöndun. Einstakar útfærslur voru í höndum hvers skóla fyrir sig og því er örlítill munur á milli skóla eftir aðstæðum á hverjum stað.

Í Kópavogi eins og öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur glímum við jafnframt við þann vanda að skólaliðar sem þrífa fjóra af níu grunnskólum bæjarins eru í verkfalli Eflingar og sveitarfélaganna. Um er að ræða Kársnesskóla, Kópavogsskóla, Álfhólsskóla og Salaskóla. Ekki sér fyrir endan á verkfallinu en samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga fer með samningsumboðið fyrir hönd allra sveitarfélaganna. Skólarnir eru því lokaðir og hefst kennsla ekki fyrr en að loknu verkfalli og eftir að skólarnir hafa verið þrifnir.

Skólastarf er ein af grunnstoðum samfélagsins og það er vilji allra að halda skólunum opnum á meðan stætt er. Hins vegar gæti það gerst með aukinni útbreiðslu veirunnar að einstakir hópar nemenda, kennara eða jafnvel heill árgangar lendi í sóttkví og við því verður að bregðast hverju sinni.

Allt samfélagið tekst nú á við miklar áskoranir vegna heimsfaraldurs og við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum á hverjum degi. Starfsfólk skólanna hefur unnið þrekvirki við að styðja við nemendur á þessum óvissutímum. Engin veit hversu lengi þessi óvissa ríkir en ef við erum skynsöm og lausnarmiðuð munum við sjá til lands í þessu máli og munum að vorið er á næsta leiti.

Margrét Friðriksdóttir
formaður menntaráðs Kópavogs