Áttaviti til árangurs

683

Málefnasáttmáli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í Kópavogi 2022-2026

Samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks byggir á því að gera öflugt samfélag enn betra. Leiðarstef okkar er að Kópavogur verði áfram farsælt bæjarfélag í fremstu röð.

Við ætlum að byggja upp kröftugt samfélag með auknu samráði, bættu upplýsingaflæði og hlusta á sjónarmið bæjarbúa. Það er hlutverk sveitarfélaga að þjónusta íbúa en ekki öfugt. Við ætlum að tryggja að Kópavogur verði leiðandi í stafrænni vegferð og þjónustu. Við komum fram með nýjar og ferskar hugmyndir og munum láta verkin tala.

Undir okkar stjórn verður áfram staðið vörð um traustan rekstur enda forsenda þess að unnt sé að veita sveigjanlega og framúrskarandi þjónustu sem mætir þörfum íbúa. Mikilvægt er að fjárfesting innviða haldist í hendur við þróun hverfa og íbúafjölda. Frekari skuldsetningu bæjarins verður stillt í hóf og lán eingöngu tekin til fjármögnunar brýnna og arðbærra verkefna. Leitað verður leiða til að fylgja fjármagni bæjarins betur eftir þannig að rými skapist til að lækka álögur og tryggja áframhaldandi uppbyggingu innviða.

Það er mikilvægt að vanda vel til verka þegar kemur að skipulags-, samgöngu- og umhverfismálum við uppbyggingu næstu ára og áratuga. Þétting byggðar, vistvænir ferðamátar, greið og skilvirk umferð og virðing gagnvart umhverfinu leika þar lykilhlutverk. Við ætlum að vanda sérstaklega kynningu, samtal og samráð við íbúa á fyrstu stigum skipulagsgerðar á þéttingarreitum og nýjum hverfum.

Góð menntun gegnir lykilhlutverki í samfélagi okkar. Við setjum markið hátt í menntamálum til að tryggja bjarta framtíð fyrir börnin okkar. Við ætlum að leggja ríka áherslu á að skólar í Kópavogi verði áfram í fremstu röð með áframhaldandi framþróun á sviði tækni og nýsköpunar. Við ætlum að svara ákalli foreldra um að brúa bilið frá því fæðingarorlofi lýkur og þar til börn fá leikskólavist og bjóða foreldrum raunverulegt val um heimgreiðslu, dagvistun og leikskóla.

Kópavogur er leiðandi í íþrótta- og æskulýðsmálum og verður áfram undir okkar stjórn. Við ætlum að tryggja framúrskarandi samfélag þegar horft er til aðstöðu til hreyfingar í nærumhverfi bæjarbúa og tryggja viðhald og uppbyggingu innviða samfara fjölgun bæjabúa.

Velferðarmál tryggja grundvallarmannréttindi og skipta sköpum fyrir lífsgæði fólks, fjölskyldur þeirra og samfélagið allt. Bætt velferð allra íbúa Kópavogs er forgangsmál. Eldri bæjarbúar er ört vaxandi og fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir og við leggjum ríka áherslu á að veita góða þjónustu í samræmi við þarfir þeirra. Eldri bæjarbúar eiga skilið að fá að eldast með reisn í bænum okkar.

Listir, menning og blómlegt mannlíf gera góðan bæ enn betri og spilar lykilhlutverk í því að búa til fallegan bæjarbrag sem eykur ímynd og hróður Kópavogs, og gerir hann eftirsóknarverðan stað til að búa á. Við leggjum áherslu á aukið aðgengi allra bæjarbúa að viðburðum og ætlum að stuðla að fjölbreyttu menningarstarfi í bænum.

Lýðræðislegt samfélag byggir á þeim grunni að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til aldurs, kynferðis, kynhneigðar, kynþáttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, efnahags, ætternis, fötlunar, sjúkdóma eða annarrar stöðu. Við ætlum að standa vörð um möguleika bæjarbúa af erlendum uppruna til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og koma til móts við þarfir þeirra.

Áttavita til árangurs er að finna í þessum sáttmála þar sem settar eru fram átta megin áherslur og þau verkefni sem við ætlum að setja í forgang á kjörtímabilinu. Verkefnin er lögð fram af skynsemi og ábyrgð og við lofum því að bæjarbúar geta fylgst með framgangi þeirra á kjörtímabilinu.

Malefnasamningur_26mai22


Ásdís Kristjánsdóttir,
oddviti Sjálfstæðisflokksins


Orri Vignir Hlöðversson
oddviti Framsóknarflokksins