Bæjarbragur

420

Við sem höfum verið lengur í Kópavogi heldur en tvævetur, höfum margoft verið spurð um hvar miðbær Kópavogs sé eiginlega .  Hvar er hjarta verslunar og þjónustu og hvar eru bæjarsamkomurnar sem þið haldið?

Spurningarnar eru alveg gildar en vísa í að í Kópavogi vanti einhvern miðbæ eins og er að finna í Reykjavík. Sumum finnst vanta þessa rölt-menningu á milli kaffi- og veitingahúsa. Þessi umræða er frekar ósanngjörn vegna þess að við einfaldlega þurfum ekki alltaf að vera eins og aðrir og öðruvísi er ekki endilega slæmt. Kópavogur er margskipt og fjölbreytilegt bæjarfélag. Bæjarfélag sem hefur einbeitt sér að hýsa og þjóna þörfum fjölskyldna.  Líklega er ein af ástæðum þess að þennan kjarna vanti sú að fá bæjarfélög hafa vaxið jafnhratt á eins skömmum tíma og Kópavogur. Það er styrkleiki Kópavogs að hingað hefur fólk flutt í miklum mæli til þess að ala fjölskyldur og eldast.

Við höfum hins vegar yfir að ráða fjölbreyttum miðbæjum og verslunarkjörnum, í fleirtölu! Smáralindin, Smárinn og Lindirnar, Hvörfin, Smiðjuvegur eru öflug atvinnu og þjónustusvæði. Núna síðast er Nýbýlavegurinn að taka hamskiptum. Hamraborgin okkar, gamli miðbærinn eins og hann er stundum kallaður,  er ekki eins líflegur og áður og því miður fækkar alltaf fyrirtækjum þar. Hins vegar með opnun á hóteli á því svæði tel ég að annarskonar andrúmsloft muni mögulega taka sér bólstað þar með tilheyrandi tækifærum.

Undanfarin jól hefur verið kveikt á jólatrénu okkar á Hálsatorgi. Jólaskemmtunin er í alla staði frábær og núna síðast voru vel heppnaðir hönnunardagar haldnir samhliða. Hins vegar verður ekki við það ráðið að veðráttan á þessu torgi er sjaldan góð. Hugmyndir hafa verið um að byggja yfir torgið til þess að draga úr veðuráhrifunum. Mér hafa hins vegar vitrari og eldri einstaklingar sagt það verði aldrei logn á Hálsatorgi. Því hef ég viljað skoða fleiri hugmyndir.

Á Menningartorfunni  okkar, milli Gerðarsafns, Bókasafnins og Salarins er bílastæði sem þónokkur ágreiningur hefur verið um. Með minniháttar breytingum má vel sjá fyrir sér nýtt og glæsilegt útisvæði í skjóli þessara bygginga ásamt fegurð holtins við Kópavogskirkju. Við undirritun samnings sem Lista og menningarráð Kópavogs gerði við Listaháskólann benti skólastjórinn mér á að þetta væri einnig kjörinn staður fyrir högg og myndlistagarð. Tækifærin í kringum þær stofnanir sem við eigum á þessu holti voru að hennar mati ótakmörkuð og sá hún fyrir sér að útskriftarnemendur skólans myndu vilja hanna slíkar hugmyndir í samráði við Kópavogsbæ. Með því að færa bæjartorgið  inn í menningarþyrpinguna á holtinu opnast ýmsir möguleikar. Rekstrargrundvöllur kaffistofu í Gerðarsafni yrði ekki lengur fjárhagslega slæmur og nýta mætti holtið betur undir ýmsar bæjarhátíðir og uppákomur.  Með þessari hugmynd mætti skerpa enn frekar  bæjarbragnum sem við Kópavogsbúar viljum  gjarnan efla.

Sókn í samgöngum

Samkvæmt sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið er áætlað að íbúum höfuðborgarsvæðisins muni fjölga um 70.000 á næstu 20 árum. Má telja af þessari þróun verði samgöngumál eitt helsta umræðuefni sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Mikilvægi þess að geta sótt þjónustu og vinnu nálægt heimili mun aukast ásamt því að þétting byggðar er óhjákvæmileg. Á Íslandi er einkabílaeign almenn og ég meðtalin hef ekki getað talið mig geta verið vera án bílsins. Sem betur fer er sífellt verið að leita leiða til að gera bílinn umhverfisvænni en það breytir ekki þeirri staðreynd að við eyðum því miður alltaf lengri tíma í inn í bílnum að bíða eftir því að komast á milli A og B.

Ef miðað er við þessa þróun á næstu 20 árum er ljóst að við þurfum á einhvern hátt að bregðast við. Allir kannast við að vera fastir í umferð á vissum tíma dags og margir reyna að forðast álagstíma sem og taka á sig krókaleiðir inn í hverfi til að sleppa við einhverja þekkta hnúta. Kópavogur er hjarta höfuðborgarsvæðisins að mínu mati. Hér er stigvaxandi áhugi fyrirtækja að rekja þjónustu sem og hingað vill fólk flytja. Til þess að mæta auknum umferðarþunga þarf að huga að ýmsum lausnum. Ég hef áður lýst yfir áhuga á að flytja Sorpu af Dalvegi, en ég vil líka skoða möguleika þess efnis að opna veg meðfram Reykjanesbraut sem leiddur er inn á hringtorgið við Smáratorg.  Þetta getur létt álagið á Dalvegi sem og flæðið inn til fyrirtækjanna sem þar eru verður betra. Einnig er bráðnauðsynlegt fyrir okkur að þrýsta á opnun Arnarnesvegar til þess að hringtorgið fyrir ofan Hlíðarsmára fari nú að verða opið í alla enda. Skipulagning Glaðheimasvæðisins gerir þetta enn brýnna og verður spennandi að sjá það glæsilega hverfi rísa.

Almenningssamgöngur á Íslandi eru Strætó. Við höfum ekki yfir að ráða öðrum kerfum líkt og við þekkjum erlendis frá. Því verðum við sem sveitafélag að halda áfram að bregðast við íbúafjölgun með tilheyrandi samgöngubótum. Skipting hverfa á milli íþróttafélaga er einn liður í þessu, en einnig verða að vera hér almenningssamgöngur sem verða að geta verið raunverulegt val umfram einkabílinn.