Best að búa í Kópavogi

377

Matthew Elliot stofnandi Tax payers Alliance í Bretlandi kom og hélt framsögu um mikilvægi gagnsæis í ríkis og sveitastjórnarmálum í september síðastliðnum. Heimsókn hans var á vegum Samtaka skattgreiðenda en Efnahags og viðskiptanefnd Sjálfstæðisflokksins ásamt Fjárlaganefnd fékk Matthew til að halda framsögu um mikilvægi þess að skera niður ríkisútgjöld. Hann fór víða yfir sviðið og sagði frá ýmsum leiðum til þess að auka gagnsæi slíkra aðgerða sem og hvernig hinn almenni þegn getur átt þátt í að hafa áhrif á útgjaldaliði.

Þessi samtök hafa unnið til ýmissra afreka til að mynda í Bretlandi og vegna ,,lobbýsima“ þeirra er það svo að engin útboð yfir 500 GBP mega fara fram án þess að slíkt sé upplýst á netinu. Þau hafa meðal annars sett fram skemmtilega samanburði ýmissa útgjaldaliða í stjórnsýslunni við útgjöld hjá venjulegri breskri fjölskyldu.

En að okkur, hér í Kópavogi. Við höfum vissulega dregið úr útgjaldaliðum eftir ,,hrun“. Slíkt hefur verið gert í góðri samvinnu við bæjarbúa og starfsmenn Kópavogsbæjar hafa axlað sína ábyrgð í öllum málaflokkum með mikilli reisn. Núna þegar við sjáum loks fram á bjartari tíma er nauðsynlegt að fara ekki í of-fjárfestingar án þess að slík mál séu hugsuð að yfirvegun en vissulega er tilefni til þess að efla ýmsa þjónustuliði nú þegar. Gagnrýni undanfarið hefur á köflum miðast við að við séum ekki nógu fljót til og allt sé sett í nefndir. Ég tel að ef efnahagshrun landsins ætti að geta kennt okkur eitthvað þá er það einmitt að hlaupa ekki til án þess að gefa okkur tíma til samstarfs og leiða hugann að langtímamarkmiðum frekar en skammtíma-poppúlisma.

Með því að efla gagnsæi stjórnsýslunnar og upplýsingagjöf á netinu fæst þetta aðhald sem ég held að við viljum að bæjarsjóður þurfi. Það mætti til dæmis sjá fyrir sér að útgjaldaliðir skólanna okkar væru settir á skýran hátt fram til þess að foreldrasamfélagið gæti sett sig betur inn í þá fjárhagsliði sem þarf til þess að reka hér skóla. Skólarnir fengju einnig með þessu aukið fjárhagsleg sjálfstæði og skilning til þess að efla skólastarfið enn frekar. Slíkt hið sama mætti segja um menningarstofnanirnar og annan rekstur sem bærinn okkar Kópavogur stendur fyrir. Nauðsynlegt er fyrir okkur sem bæjarfélag að huga að langtímamarkmiðum sem miðast við að efla innviði bæjarins og létta á skuldastöðu hans.

Ég tel sá meirihluti sem hefur ráðið ríkjum í Kópavogi undanfarið hafi unnið gott starf og nauðsynlegt sé að halda áfram á sömu leið. Vissulega hefur menn greint á um einstök atriði en iðulega er niðurstaða allra átaka sú að heildarhagsmunir bæjarbúa eru hafðir að leiðarljósi. Það er leitt að utanaðkomandi fólki finnst við gera lítið annað en að deila um smáatriði og persónur, en ég get staðfest að í um 90% tilfella er svo ekki. Hins vegar er ekki að neita þessum fjölmiðlasirkus sem stundum verður ofan á í hita leiksins en verkin undanfarin ár einfaldlega ættu að yfirskyggja þann farsa.