Brúum bilið til framtíðar

446
Ljósmyndari : Aldís Pálsdóttir

Í fjölbreyttu samfélagi eiga að vera fjölbreyttar lausnir. Við foreldrar eigum það sameiginlegt að setja velferð barna okkar  í fyrsta sætið. Foreldrar eiga að hafa val fyrir börnin sín að fæðingarorlofi loknu. Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi vill veita foreldrum það val og býður fram fjölbreyttar lausnir.

Okkur er alvara með að afnema biðlista og brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til börn fá leikskólapláss. Það krefst nýrra hugsunar og lausna. Bæði til skamms tíma og lengri.

Færanlegar stofur hafa reynst mjög vel á síðustu árum til að mynda við Kársnesskóla og Kópavogsskóla. Við ætlum að auka hratt framboð á dagvistunarúrræðum með því að setja upp færanlegar stofur í þeim hverfum þar sem þörfin er mest. Þessi leið væri til viðbótar við hefðbundinn leikskóla og myndi létta álag á leikskólum bæjarins sem margir eru með langa biðlista. Þannig er hægt að bregðast skjótt við fjölgun barna í ákveðnum hverfum og koma í veg fyrir langa biðlista.

Fjölbreytt rekstrarform leikskóla er í mínum huga algjörlega nauðsynlegt. Samkeppni er alltaf af hinu góða. Við Kópavogsbúar eigum líka einstaklega góð dæmi um bæði sjálfstætt starfsandi leikskóla og leikskóla sem reknir eru eftir þjónustusamningi við bæinn og hafa skarað fram úr og hlotið verðskulduð verðlaun fyrir. Hér nefni ég sem dæmi leikskólann Aðalþing. Við munum greiða fyrir og hvetja til fjölbreyttra rekstrarforma í leikskólum bæjarins.

Við viljum veita þeim foreldrum sem kjósa að vera lengur heima með börnum sínum eftir að fæðingarorlofi lýkur frelsi til þess. Við munum veita foreldrum heimagreiðslur þar til leikskólaplássi er úthlutað. Hérna er um að ræða nýtt úrræði sem bærinn hefur ekki boðið áður en við viljum þróa það í samráði við foreldra á næstu árum.

Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi leggur ekki fram óframkvæmanleg eða óraunhæf loforð í þessum mikilvæga málaflokki. Um er að ræða raunverulegar lausnir til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla þar sem velferð barnanna okkar verður ávallt leiðarljósið.Við ætlum að þjónustu barnafólk áfram vel. Vera í fararbroddi með nýjar lausnir og stöðugt að vera leita leiða til að gera enn betur. Þannig tryggjum við góða þjónustu og eflum enn frekar faglegt starf.

Börnin okkar eru framtíðin og framtíðin er í Kópavogi.