Byggja, byggja, byggja!

477

Það er ekki mjög mjúkt mál en til að styrkja stöðu Kópavogs þarf að selja lóðir og byggja hús. Þá verður hægt að lækka skattheimtu hægt en örugglega á næstu kjörtímabilum í stað þess að seilast dýpra í vasa bæjarbúa!

Afla fyrst
Hver nýr íbúi í Kópavogi, greiðir ca. 650.000 til samfélagsins miðað við núverandi skattheimtu? Nýir Kópavogsbúar auka kostnað hlutfallslega lítið vegna þess að fjárfestingar bæjarins í skóla-, íþrótta- og samgöngumannvirkjum, stjórnsýslu og veitum eru ekki fullnýttar. Að auki getum við svo selt lóðir og því greitt niður skuldir. Þá vænkast hagur bæjarsjóðs enn frekar við lækkun fjármagnskostnaðar. Með áræðni og krafti eru möguleikarnir miklir.

Eyða svo
Sá fjárhagslegi ávinningur sem næst á að hluta til að fara í að lækka skatta. En líka í betri þjónustu við bæjarbúa. Þar á að byrja á málum þar sem neyð ríkir eins og t.d. nú í húsnæðismálum og koma á móts við þá sem minna mega sín. Það eitt af grundavllaráherslum í Sjálfstæðisstefnunni, „…mannsæmandi lífskjör“. Svo koma eldri borgar, foreldrar okkar – afar og ömmur barnanna okkar. Fólkið sem átti stærstan þátt í að byggja upp hér eitt öflugasta velferðarríki í veröldinni en lítinn þátt í síðasta efnahagsáfalli. Það mundi ekki skaða neinn að sýna þessari kynslóð smá þakklæti og virðingu umfram það sem gert er í dag. „Frítt í sund“ er ódýr og táknræn leið til að byrja á og örugglega hagkvæm fyrir samfélagið líka. Þá er stór hópur barnafjölskyldna sem enn berst í bökkum eftir hrun. Bæjaryfirvöld geta notað hluta svigrúms sem hægt er að mynda á næstu árum til að létta undir með þessum hóp. Loks má nefna unga fólkið okkar sem á í dag erfitt með að eignast húsnæði.

Ekkert af þessum málum þarf mikla samræðupólitík eða hvíld í nefndum, bara ákvörðun. Hvað vilt þú gera?

Jóhann Ísberg
Varabæjarfulltrúi
www.facebook.com/joiisberg