Eflum enn frekar frístundastyrki

434

Frístundastyrkir vegna þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi eru mikilvægt innlegg á þeirri vegferð að sem flestum verði gert kleyft að taka þátt í slíku starfi án tillits til efnahags. Sjálfstæðisflokkurinn vill bæði hækka frístundastyrkinn sem og að skoða útfærslu hans til eldri borgara. En í aðdraganda kosninga þá kappkosta allir stjórnmálaflokkar að dásama nálgun frístundastyrkja. Allir vilja hækka frístundastyrki enn frekar. Það sem hins vegar minna ber á í umræðunni er virkni þeirra í raunveruleikanum.

Mér er því bæði ljúft og skylt að upplýsa að á liðnu kjörtímabili sem formaður íþróttaráðs þá beitti ég mér fyrir því að íþróttaráð setti skýrar reglur um hvernig væri hægt að nýta Frístundastyrkinn. Eitt er hver fjárhæð frístundastyrksins er hverju sinni en annað er hverjir geta nýtt hann og í hvaða verkefni. Á kjörtímabilinu þá útvíkkuðum við gildissvið á frístundastyrknum með breytingu á þeim reglum sem við settum sem leiddi til þess að frístundastyrkurinn náði einnig til ýmiskonar námskeiða sem ætlað er það hlutverk að styrkja viðkomandi þátttaka án þess um íþróttastarf væri að ræða. Má þar nefna sem dæmi námskeið á vegum Dale Carnegie þar sem þátttakendur fá þjálfun í að nýta hæfileika sína, bæta samskipti og hafa jákvæð áhrif á aðra, svo sem með því að öðlast meira sjálfstraust, efla tjáningu og verða öruggari í framkomu. Öll getum við verið sammála um að hér er um mikilvæga eiginleika að ræða og ekki síður en þjálfun í líkamlegri færni sem íþróttirnar veita. Nefna má annað dæmi um breytingar á reglum um frístundastyrkinn en það er að við opnuðum á að ungmenni á aldrinum 16 til 18 ára gætu keypt kort í líkamsræktarstöðvar en þó voru sett skilyrði um fræðslu til iðkenda og fagmennsku í sinni starfssemi. Við þekkjum að ungmenni á þessum aldri sækja mjög í líkamsræktarstöðvar og því þótti okkur viðeigandi að fara þessa leið.

En varðandi frístundastyrkina þá er einnig mikilvægt að halda til haga öðrum þætti sem er ekki síður mikilvægur en fjárhæð styrksins á hverjum tíma. Það er eftirlit með kostnaði hjá þeim sem óska eftir því að vera aðilar að því kerfi sem frístundastyrkjakerfið er. Íþróttaráð Kópavogs samþykkti því sérstakar vinnureglur um eftirlit með gjaldskrárbreytingum á þjónustu veitenda sem aðild eiga að íþrótta- og tómstundakerfi Kópavogsbæjar. Er þeim ætlað það hlutverk að ná til þeirra þjónustuveitenda sem eru þátttakendur í því fyrirkomulagi sem Kópavogsbær hefur sett upp til að hjálpa til við að kostnaður við íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga verði ekki að öllu leyti borinn af þeim eða fjölskyldum þeirra. Markmið reglnanna er að tryggja að verðlagning þeirrar þjónustu sem veitt er hverju sinni endurspegli eingöngu þann kostnað sem raunverulega fellur til við að veita þá þjónustu sem um ræðir hverju sinni. Óhætt er að segja að það aðhald sem reglurnar setja þeim sem taka þá í fyrirkomulagi frístundastyrkja Kópavogsbæjar hafi ekki verið síður mikilvægt heldur en fjárhæð styrksins á hverjum tíma.

Í hinni pólitísku umræðu sem nú fer fram þá fer lítið fyrir umræðu um breytingar á reglum sem auka möguleika Kópavogsbúa á að nýta frístundastyrkina. Sama á við um útfærslur á því hvernig komið er í veg fyrir að hækkun á frístundastyrknum renni beint í vasa þeirra sem veita þjónustuna. Tæknilegar útfærslur ná yfirleitt ekki í gegn í slíkum umræðum en mér þykir samt mikilvægt að gera tilraun til þess að halda þessum mikilvægu þáttum til haga.

Sjálfstæðisflokkurinn mun halda áfram á þeirri braut að styðja vel við mikilvægi fístundastyrkja, og viljum við efla þá enn frekar.

Jón Finnbogason
Varabæjarfulltrúi
Skipar 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi