Eftirsóknarverður bær til útivistar

482

Kópavogur er eftirsóknarverður

Sveitarfélög eru rekstrareiningar sem veita íbúum sínum margskonar þjónustu. Eitt helsta markmið sveitarfélaga er að þjónusta íbúa sína í samræmi við þarfir þeirra og óskir.

Það eru margskonar kröfur sem íbúar sveitarfélaga kalla eftir og sækjast eftir í því samfélagi sem þeir búa í. Hluti af þeim kröfum varðar umferðaröryggismál, það að íbúar geti verið tiltölulega öruggir hvort sem þeir eru gangandi, hjólandi eða akandi í sveitarfélaginu. Einnig eru gerðar kröfur um útivistarsvæði, útivera og holl hreyfing eru mikilvæg heilsu manna. Góð aðstaða til útivistar er því nauðsynleg. Mörg útivistarsvæðanna í Kópavogi búa jafnframt yfir merkri sögu bæði náttúru og mannlífs.

Hér verður aðeins að tæpt á örfáum atriðum sem nýverið hafa verið framkvæmd og verða framkvæmd á næsta ári til bóta fyrir samfélagið Kópavog í umhverfis- og samgöngumálum.

Aukin vernd í nýju aðalskipulagi

Síðustu vikurnar hefur verið unnið hörðum höndum að undirbúningi tillögu að nýju aðalskipulagi fyrir Kópavog. Vonir standa til um að tillagan verði lögð fram jafnvel í næsta mánuði eða strax í byrjun næsta árs. Aðalskipulag er skipulagsáætlun þar sem fram kemur stefna um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar. Nýja aðalskipulagið mun ná til ársins 2024 og fjallar um allt land innan marka bæjarfélagsins.

Í aðalskipulagi er t.d. fjallað um náttúruvernd. Síðan um 1990 hafa 20 svæði verið sett undir hverfisvernd (bæjarvernd) en það eru svæði sem bæjaryfirvöld Kópavogs hafa ákveðið að vernda t.d. vegna sérkenna, fornminja, menningarsögulegra minja eða náttúruminja.

Í nýju aðalskipulagi eru 7 ný hverfisvernduð (bæjarvernduð) svæði kynnt til sögunnar, öll í efri byggðum bæjarins. Þau eru af ýmsum toga en þar má helst nefna Guðmundarlund.

Sjá má lista yfir öll friðlýst svæði, náttúruvætti, fólkvanga og hverfisvernduð (bæjarvernduð) svæði á vef Kópavogs „http://www.kopavogur.is“.

Úrbætur í umferðaröryggismálum á Digranesvegi

Á næsta ári er ráðgert að fækka lóðréttum hraðahindrunum á Digranesvegi en þær hraðahindranir henta frekar illa fyrir strætisvagna. Þess í stað verður komið fyrir svokölluðum koddum. Koddar ná ekki út í götukanta, þeir eru ódýrari í framkvæmd og stöðva ekki vatnsrásina. Þeir eru taldir þjóna sama tilgangi til hraðalækkunar og eru útfærðir þannig að þeir smjúga milli hjóla stærri bíla eins og strætisvagna en verða áfram sama hindrunin fyrir fólksbíla. Þessi aðgerð verður til þess að bæta umferðartæknileg atriði fyrir Strætó bs. eins og t.d. viðhald vagnanna og bæta aðgengi götunnar almennt. Þess má geta að leið 28 fer yfir 52 hraðahindranir á klukkustund!

Áfram verða tryggðar gönguleiðir yfir Digranesveginn en mikil umferð gangandi er við og yfir götuna.

Hjólastígur meðfram Hafnarfjarðarvegi – aukið öryggi gangandi og hjólandi

Nú er að ljúka framkvæmdum við lagfæringu á göngu- og hjólstíg meðfram Hafnafjarðarvegi frá Borgatholtsbraut að Kópavogslæk. Framkvæmdin fólst í að breikka stíginn í 4 metra og að laga hæðarlegu ásamt því að færa stíginn út fyrir aðkomuna að Sunnuhlíð. Einnig voru undirgöng undir Borgarholtsbraut opnuð betur til að auka sjónlínur og lýsing í þeim bætt. Við þessa framkvæmd eykst öryggi gangandi og hjólandi verulega þar sem stígurinn verður algjörlega aðskilinn frá annarri akandi umferð.

Þess má geta til gamans að fyrsta hringtorg á hjólastíg á Íslandi var sett niður við undirgöngin undir Hafnarfjarðarveg við Fífuhvamm en þar mætast tveir mjög fjölfarnir göngu-og hjólastígar og þar verður einnig gengið frá áningarstað næsta vor svo og við Meðalbraut.

Áfram verður haldið með stíginn í norður á næsta ári þ.e. niður Ásbraut sem verðu öll endurnýjuð, meðfram Kársnesbraut og Hafnarfjarðarvegi og að Fossvogslæk þar sem ný tenging verður gerð yfir lækinn. Við þessa framkvæmd verða göngu- og hjólstígar fyrir og yfir Kársnes svo og upp báða dalina orðnir mjög góðir en allt eru þetta stofnstígar skv. nýsamþykktri „Hjólreiðaáætlun fyrir Kópavog“.

 Nýr hjóla- og göngustígur meðfram Reykjanesbraut

Á fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir að bjóða út gerð göngu- og hjólastígs meðfram Reykjanesbraut milli Lindahverfis og Mjóddar. Mjög hefur skort á tengingu þarna á milli fyrir fótgangandi og hjólandi og kemur sá stígur til með að bæta þar úr mikilli þörf.

Rétt er að benda á að stígur eftir Selhrygg var malbikaður nú í haust en hann kemur til með að tengjast þessum stíg og er þá komin glimrandi tenging á bæjarmörkum Kópavogs og Reykjavíkur við Salahverfi alla leið upp í Sali og Kóra sem síðan tengist stígakerfinu þar og áfram upp í Guðmundarlund og Heiðmörk.

Að brúka bekki

Tuttugu bekkjum hefur verið komið fyrir með reglulegu millibili á sérmerktum gönguleiðum við félagsmiðstöðvar eldri borgara í Kópavogi. Með þessu er verið að hvetja aldraða til að hreyfa sig og fara í stuttar gönguferðir án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að geta ekki sest niður til hvíldar á leiðinni.

Gönguleiðirnar við félagsmiðstöðvarnar þrjár, Gjábakka, Boðann og Gullsmára eru um eins til eins og hálfs km. langar og er miðað við að bekkirnir séu á 150 til 200 metra millibili. Bærinn fjármagnar bekkina en auk þess keyptu þrír aðilar fjóra bekki og eru bekkirnir merktir þeim aðilum með plötu sem skrúfuð er á bekkina.

Stefnt er að því að áfram verði unnið að verkefninu og tengja göguleiðirnar með bekkjum við nærliggjandi verslanir og útivistarsvæði.

Náttúrustofur – útivistarsvæði

Heildaráætlun náttúrustofa (útisvæði)fyrir alla leik- og grunnskóla í Kópavogi hefur verið í smíðum síðustu ár og er þeirri vinnu nú lokið. Mikil eftirspurn hefur verið eftir útisvæðum hjá skólunum í bænum en Kópavogsbær hefur á undanförnum árum byggt útistofur og námssvæði í göngufæri við skóla bæjarins. Markmiðið er að fjölga slíkum svæðum á komandi árum og að öll skólabörn í Kópavogi, hvort sem um er að ræða börn í leikskóla eða grunnskóla hafi aðgang að útistofu í göngufæri frá skólanum sínum.

Í útinámi felst að nám er flutt að einhverju leyti út fyrir veggi skólans til að tengja það náttúrunni sem þar er. Hægt er að sinna útikennslu í flestum greinum og hún getur farið fram allan ársins hring í nánast hvaða veðri sem er. Þegar unnið er úti er nauðsynlegt að hafa samastað þar sem hægt er að komast í skjól, vinna úr upplýsingum, syngja saman og borða nestið sitt.

Fyrsta útisvæðið árið 2008, er við Laufáslund í Kópavogsdal en Hjallaskóli óskaði eftir svæði þar sem hægt væri að kenna börnunum að tálga í við. Í janúar 2010 var útisvæði útbúið fyrir Kársnesskóla og leikskólann Urðarhól. Það er staðsett í skógarrjóðri rétt við gamla Kópavogsbæinn og fékk nafnið „Ævintýraskógur. Sumarið 2010 voru þrjú svæði útbúin, við Snælandsskóla í Fossvogsdal í Rjúpnahæð og í Magnúsarlundi. Sumarið 2012 var útbúið útisvæði í Lindahverfi fyrir skólana í hverfinu. Á þessum stöðum hafa verið settir upp trjábekkir og einfalt eldstæði sem nýtur skjóls frá trjágróðri.

 

Hér hefur aðeins verið tæpt á nokkrum atriðum sem flokkast undir umhverfis- og samgöngumál í Kópavogi. Þessi grein mín hér er engan veginn tæmandi yfir þá miklu grósku sem felst í málaflokknum. Má þar nefna göngu- og hjólreiðakerfið í heild sinni, sorpmálin, útivistarsvæðin og önnur umhverfis- og samgöngumál sem unnið er markvisst að í bæjarfélaginu.