Eina trygga leiðin gegn áframhaldandi vinstristjórn er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn

401

Nú er lokaspretturinn fyrir komandi Alþingiskosningar framundan, einungis um einn mánuður til stefnu. Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn í slaginn. Búið er að stilla upp öflugum listum um land allt og vel á annað þúsund manns tóku þátt í landsfundi sem mótaði stefnu flokksins fyrir komandi kosningar. Síðasta kjörtímabili, fyrsta heila kjörtímabili vinstri stjórnar, hefur verið illa varið og er víti til varnaðar. Kjósendur hafa fyrir þessar kosningar aðeins einn valkost ef þeir vilja ekki aftur vinstri stjórn, það er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Forystusveit Sjálfstæðisflokksins hefur sýnt það á þessu kjörtímabili að hún hefur tekið ábyrga afstöðu í erfiðum málum. Formaður flokksins, sem tók við flokknum við erfiðustu hugsanlegar aðstæður, hefur sýnt hvaða mann hann hefur að geyma. Hann hefur verið málefnalegur, yfirvegaður og stefnufastur en ekki fallið í þá gryfju að beygja af leið til að fullnægja þörfum klækjastjórnmálanna. Klækjastjórnmálin hafa hins vegar verið einkenni vinstri stjórnarinnar eins og við höfum séð kristallast í landsdóms-málinu, stjórnarskrármálinu, sjávarútvegsskattlagningunni, rammaáætluninni, sykur skattinum og svo mætti lengi telja.

Eina trygga leiðin gegn áframhaldandi vinstristjórn er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Ég vil hvetja kjósendur til þess að bera saman framboðslista flokkanna um leið og þeir gera upp hug sinn. Ef kjósendur vilja breidd á Alþingi þá er Sjálfstæðisflokkurinn skýr valkostur. Ef kjósendur vilja endurnýjun á þingi þá er Sjálfstæðisflokkurinn skýr valkostur. Ef kjósendur vilja aukin umsvif atvinnulífsins sem er undirstaða bættra lífskjara þá er valið jafnframt einfalt. Það er verkefni sjálfstæðismanna að tryggja nýja sókn landsins. Tækifærið til þess að koma Sjálfstæðisflokknum til valda á ný er í höndum sjálfstæðismanna sjálfra.