Ekkert gerist nema við kjósum

448

Við Sjálfstæðismenn í Kópavogi viljum hvetja alla kosningabæra Kópavogsbúa til að mæta á kjörstað og nýta rétt sinn til að hafa áhrif á stjórnun bæjarins næsta kjörtímabil. Með því að mæta á kjörstað tekur þú afstöðu og hefur áhrif á mótun bæjarfélagsins. Ef þú vilt að afstaða þín skipti máli, þá verður þú að taka þátt.

Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi leggur áherslu á fólkið í bænum eins og lesa má í stefnuskrá flokksins. Skólamálin eru okkur afar hugleikin, við viljum að leik- og grunnskólar í Kópavogi verði í fremstu röð með að nýta upplýsingatækni í daglegu starfi nemenda og kennara. Við viljum fjölga leikskólaplássum og bjóða upp á sveigjanleg skil leik- og grunnskóla. Við leggjum áherslu á velferðarmál og að frítt verði í sund fyrir eldri borgara og börn að tíu ára aldri. Frístundastyrkurinn verði hækkaður í kr. 50.000 á kjörtímabilinu og að reglur um hann verði endurskoðaðar þannig að setja megi allan styrkinn á einn stað þar með talið í tónlistarnám. Þá leggjum við til að byggingu íþróttahúss við Vatnsendaskóla verði flýtt og að Gerpla fái aðstöðu þar. Við viljum að skólahljómsveitin okkar fái nýtt húsnæði eftir nærri 50 ára starf. Þá eru í stefnuskránni hugmyndir okkar um að skipulag í bænum hvetji til byggingar minni og ódýrari íbúða sem auðveldi íbúum kaup á eigin húsnæði. Af ofangreindum dæmum má sjá að það er mikilvægt fyrir unga sem aldna að kynna sér málin vel áður en gengið er til kosninga.
Af daglegum störfum mínum með ungu fólki verð ég þess áskynja að áhugi þeirra fyrir pólitík og kosningum er takmarkaður þó vissulega séu undantekningar þar frá. Ég heyri setningar eins og mitt atkvæði hefur engin áhrif á úrslitin, þessir flokkar eru allir eins, ég treysti ekki stjórnmálamönnum o.fl. Það er vissulega val hvers og eins að kjósa eða sitja hjá en í lýðræðissamfélagi taka einstaklingar afstöðu og virkan þátt í mótun jafnt nærumhverfis sem landsins alls. Ég vil því hvetja alla til að kjósa og nýta sinn borgaralega rétt og átta sig á að persónulegt framlag hvers og eins skiptir máli.

Kjósandi góður, við sjálfstæðismenn í Kópavogi höfum stýrt bænum af skynsemi undanfarin tvö ár og stefnumál okkar gefa fyrirheit um metnaðarfulla framtíðarsýn, áframhaldandi góðan rekstur og gott mannlíf í bænum. Við leitum til þín eftir stuðningi til að koma stefnumálum okkar í framkvæmd á næsta kjörtímabili.

Áfram Kópavogur.

Margrét Friðriksdóttir
skólameistari MK
2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi