Eldra fólk, skattar og skerðingar

468

Eignaskattur, sem kallaður hefur verið auðlegðarskattur svo auðveldar sé að réttlæta hann, er bein árás á eldra fólk sem býr í skuldlausum eða skuldlitlum eignum. Og margir eiga ekki annan kost en að stofna til skulda eða selja eignir til að standa skil á skattinum. Þessi tvísköttun er siðferðislega ranglát og ný ríkisstjórn getur ekki vikið sér undan því að afnema þenna skatt.

Þegar illa árar þarf að forgangsraða en þú þarft ekki að vera sammála þeirri forgangsröðun svo mikið er víst. Ég er þeirrar skoðunar að kjaraskerðingar eldra fólks og öryrkja sem settar voru á tímabundnar 2009 hafi verið vanhugsaðar en þær hafa ekki enn verið afturkallaðar en brýnt er að svo verði hið fyrsta. Sömuleiðis tel ég að leiðrétta verði ellilífeyri almanna-trygginga til samræmis við þær hækkanir sem orðið hafa á lægstu launum frá  ársbyrjun 2009.

Í náinni framtíð  er nauðsynlegt að endurskoða greiðslur almannatrygginga í heild sinni út frá þeirri grunnforsendu, að um leið og öllum séu tryggðar lágmarkstekjur til lífsviðurværis verði að gæta þess, að ekki sé dregið úr hvata til sjálfsbjargar og möguleikum eldra fólks til að bæta kjör sín. Eldra fólk á að geta aflað sér atvinnutekna, ef geta og  hæfni er fyrir hendi, án þess að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins skerðist. Það er samfélaginu dýrmætt að geta notið þekkingar og reynslu eldra fólks og það eykur lífsgæði allra.

Það getur ekki verið sanngjarnt að skattleggja margsinnis afrakstur eldra fólks eins og tíðkast nú með fjármagnstekjuskattinum margfræga og að verðbótaþáttur vaxta valdi skerðingum hjá Tryggingastofnun ríkisins.  Við hljótum að geta sammælst um að eignir eldra fólks eigi að nýtast því sem best á þeirra ævikvöldi en ekki verða tekjustofn stjórnvalda.

Einföldun skattkerfis kemur eldra fólki sem öðrum til góða, hátt á annað hundrað breytingar á skattkerfinu undanfarin fjögur ár hafa gert það ógagnsærra og ranglátara, ofan af þeirri vegferð verður að vinda til hagsbóta fyrir fólkið í landinu, unga fólkið jafnt sem eldra fólkið.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir.