Endurreisn Hælisins og Bæjarins

382

Tökum höndum saman um endurreisn Hælisins og Bæjarins

Kópavogsfélagið verður stofnað í dag (21.03.2013)

Við erum mjög bjartsýn á það að fyrirtæki, félagasamtök og bæjarbúar bregðist vel við kalli okkar á þennan fund í dag og síðar þegar við leitum til þeirra vegna framlaga til verkefnisins. Við vitum að víða í byggðum á landsbyggðinni hafa gömul hús verið endurreist með hjálp sjóða og bæjarbúa, hvers vegna ætti næst stærsta sveitarfélag landsins þá ekki að geta endurreist tvö hús með sómasamlegum hætti? Við teljum að okkur beri skylda til að vinna að framgangi þessa máls og hefja svæðið og byggingarnar til vegs og virðingar á ný með samstilltu átaki.

Þetta segja þau Margrét Björnsdóttir, Garðar H. Guðjónsson, Kristinn Dagur Gissurarson og Una Björg Einarsdóttir en þau hafa fyrir hönd Kópavogsbæjar unnið að undirbúningi að stofnun Kópavogsfélagsins, félags áhugafólks um endurreisn Hressingarhælisins og Kópavogsbæjarins. Margrét, Garðar og Kristinn Dagur eru fulltrúar bæjarstjórnar í stjórn félagsins og Una Björg er varamaður.

Stofnfundurinn verður haldinn í bæjarstjórnarsalnum kl. 17 í dag, fimmtudaginn 21. mars, og eru áhugasamir hvattir til að mæta. Á fundinum verður stofnsamþykkt félagsins kynnt og kosnir verða þrír stjórnarmenn og einn til vara úr hópi fundarmanna. Allir sem mæta á fundinn hafa atkvæðisrétt og eru kjörgengir í stjórn.

Kópavogspósturinn spurði fjórmenningana fyrir hvað Kópavogsfélagið stæði og hver væri tilgangurinn með stofnun þess.

Kópavogsfélagið er félag áhugafólks um endurreisn Hressingarhælisins og Kópavogsbæjarins. Kópavogsbær stendur fyrir stofnun félagsins og býður fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum til samstarfs um þetta verkefni. Markmið félagsins er að afla fjár til framkvæmda gegn mótframlagi Kópavogsbæjar til að stuðla að endurreisn húsanna og að fullmóta tillögur um starfsemi í umræddum byggingum og á Kópavogstúni.

 Af hverju er það ykkur svona mikið kappsmál að endurbyggja Hælið og Bæinn?

Hressingarhælið og Kópavogsbærinn gamli voru byggð snemma á síðustu öld og eiga sér merka sögu sem samofin er sögu bæjarins. Bæði húsin hafa verið friðuð og þykja hafa mikið varðveislugildi, listrænt gildi og menningarsögulegt gildi. Við teljum að þau verði sannkölluð bæjarprýði þegar þau hafa verið gerð upp og að bæði byggingarnar sjálfar og starfsemin í þeim muni hafa mikið aðdráttarafl fyrir bæjarbúa og aðra.

 Hugmyndin er að afla fjár til framkvæmda við endurbyggingu húsanna – hver er áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar?

Endurreisnin kostar sitt en við eigum ekki að telja það eftir okkur að verja fjármunum til þess að sýna þessum byggingum fullan sóma. Talið er að kostnaður vegna lagfæringa á ytra byrði húsanna verði á bilinu 40-45 milljónir króna. Kostnaður við endurbætur innan húss skýrist ekki fyrr en ljóst verður hvaða starfsemi á að vera í húsunum.

 Í hvernig ástandi eru húsin?

Húsin hafa lengi verið í niðurníðslu og í raun legið undir skemmdum, sérstaklega Hressingarhælið. En nú hefur verið komið í veg fyrir frekari skemmdir og að mati sérfræðings eru húsin ekki í eins slæmu ástandi og margir óttuðust.

 Hvenær á framkvæmdum að ljúka?

Markmiðið er að framkvæmdum verði lokið og starfsemi hefjist í húsunum ekki síðar en á 60 ára afmæli Kópavogsbæjar þann 11. maí 2015.

 Hvert á síðan hlutverk þeirra að vera í framtíðinni, þegar framkvæmdum lýkur og hver mun sjá um rekstur þeirra?

Húsin eru í eigu bæjarins og reksturinn verður beint og óbeint á hans vegum. Þó verður leitað leiða til að reksturinn verði í jafnvægi. Það verður einmitt hlutverk Kópavogsfélagsins að fullmóta hugmyndir og gera tillögur til bæjarráðs um hvaða starfsemi eigi að verða í húsunum. En í samþykkt bæjarstjórnar frá í september kemur skýrt fram að í byggingunum skuli verða fjölbreytt starfsemi sem verði öllum aðgengileg og líkleg til að laða til sín og vekja áhuga alls almennings, innan bæjar sem utan, með áherslu á menningu, listir og sögu, útivist og afþreyingu fyrir unga sem aldna. Eftir því vinnum við, segja þau Margrét, Garðar, Kristinn Dagur og Una Björg.