Endurreisn skattkerfisins

419

Mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar að loknum kosningum verður endurreisn skattkerfisins úr rústum liðlega fjögurra ára vinstri stjórnar. Hátt á annað hundrað breytingar hafa eyðilagt skattkerfið, gert það ógagnsærra og ranglátara. Sá sem tekur við lyklavöldunum í fjármálaráðuneytinu verður að vinda ofan af skattahækkunum síðustu ára samhliða því að einfalda kerfið. Hvernig til tekst mun ráða mestu um það hvort Íslendingum tekst að vinna sig út úr efnahagslegum þrengingum.

Við Íslendingar vitum af eigin reynslu að með því að skattleggja minna er hægt að fá meira. Við vitum að með því að hætta að refsa fyrir velgengni með ofursköttum, eykst velmegun almennings og hagsæld verður meiri. Ráðstöfunartekjur hækka og fyrirtækin styrkjast og dafna.

Lægri skattar og auknar tekjur
Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir umfangsmiklum breytingum á skattkerfinu eftir flokkurinn settist í ríkisstjórn árið 1991. Tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja var lækkaður, aðrir skattar ýmist lækkaðir eða felldir niður.
Þrátt fyrir umfangsmiklar skattalækkanir jukust skatttekjur ríkissjóðs verulega. Frá 1991 til 2007 tvöfölduðust tekjurnar að raunvirði. Með meiri hófsemd í skattheimtu styrktust tekjustofnar ríkisins og gáfu meira af sér. Þetta sést vel á því að tekjuskattur fyrirtækja var 50% árið 1985 en var kominn niður í 18% árið 2003. En skatttekjur ríkisins af fyrirtækjum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hækkuðu engu að síður úr 0,9% í 1,5%.
Því miður hafa vinstri menn aldrei skilið einfalt lögmál: Því meira sem eitthvað er skattlagt því minna færðu af því. Að sama skapi: Því meira sem velgengni er skattlögð því minni verður velgengnin.

Vítamínsprauta
Íslenskt efnahagslíf þarf vítamínsprautu. Með markvissum og skynsamlegum skrefum við lækkun skatta, afnámi gjaldeyrishafta og einfaldara regluverki er hægt á skömmum tíma að hefja sókn í atvinnumálum.
Uppstokkun skattkerfisins – endurreisn skattstofna ríkisins – á komandi kjörtímabili verður að taka mið af því að sníða viðskipta- og efnahagslífi þjóðarinnar umgjörð sem eflir en dregur ekki úr, eykur en kæfir ekki þrótt einstaklinga og fyrirtækja. Það verður að hverfa frá stefnu vinstri manna sem ekki mega sjá neitt hreyfast án þess að vilja skattleggja það.

Skattur á vinnu
Samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs mun tryggingagjald – sem er í raun lítið annað en skattur á laun og störf – skila ríkissjóði um 70,6 milljörðum króna. Þetta eru liðlega 22 milljörðum króna hærri tekjur en árið 2008. Þrátt fyrir vilyrði hefur tryggingagjaldið ekki verið lækkað.

Ofurskattur á laun og störf hefur dregið úr möguleikum fyrirtækja til að fjölga starfsmönnum og/eða hækka laun þeirra sem þegar eru í vinnu. Launamenn greiða þennan skatt með óbeinum hætti í formi færri starfa og lægri launa. Fyrirtækin bera skattinn og eru í spennitreyju. Afleiðingin er sú að afkoma fyrirtækjanna er verri sem hefur aftur áhrif á tekjur ríkisins. Og ríkissjóður verður af tekjum þar sem störfum fjölgar ekki. Atvinnuleysi er meira en ella og þar með útgjöld ríkisins hærri. Hringavitleysan er í fullum gangi.
Öll skynsamleg rök hníga að því að fyrsta skref nýrrar ríkisstjórnar við endurreisn skattstofna sé að lækka tryggingagjaldið verulega. Að því loknu á að endurskoða tekjuskattskerfið frá grunni, einfalda það, draga úr eða fella niður tekjutengingar og taka upp eina einfalda skattprósentu á komandi árum. Flókið tekjuskattskerfi með háum jarðarsköttum dregur ekki aðeins úr hvatanum til að afla sér tekna, heldur kemur ekki síst niður á þeim sem síst skyldi – launamönnum sem eru með lágar tekjur og takmarkaða möguleika til vinnu.

Verkefnin við að endurheimta skattstofna eru fleiri. Nauðsynlegt er að gjörbreyta og grisja frumskóg tolla og vörugjalda. Markmiðið er ekki síst að færa verslunina aftur heim til Íslands og skjóta þannig styrkari stoðum undir mikilvæga atvinnugrein. Ríkissjóður mun þegar upp er staðið njóta góðs af.

Ranglæti sem verður að leiðrétta
Ekki verður því haldið fram að réttlæti og sanngirni hafi verið með í för þegar ríkisstjórnin rústaði skattkerfinu. Innleiðing eignaupptökuskatts – sem vinstri menn kalla auðlegðarskatt – er bein árás á eldra fólk og sjálfstæða atvinnurekandann. Margir eiga ekki annan kost en að stofna til skulda eða selja eignir til að standa skil á skattinum. Sjálfstæðir atvinnurekendur hafa þurft að ganga á eigið fé til að greiða eignaupptökuskattinn og eftir stendur veikara fyrirtæki.

Eignaupptökuskatturinn er siðferðilega ranglátur og því getur ný ríkisstjórn ekki vikið sér undan því að afnema skattinn.

Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur dæmi um þau mörgu verkefni sem bíða nýrrar ríkisstjórnar. Hvort hafist verður handa við að endurreisa skattstofna ríkisins ræðst af því hvort stefna Sjálfstæðisflokksins í skattamálum fær að ráða för eða hvort hugmyndafræði vinstri manna verður fylgt áfram næstu fjögur árin. Reynslan síðustu ár gefur ágæta vísbendingu um hvernig staðan verður eftir fjögur ár nái vinstri menn að halda leik sínum áfram.