Fagleg vinnubrögð

401

Í síðustu útgáfu Kópavogspóstsins þá dregur Pétur Hrafn Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar, til stafs undir fyrirsögninni „Fellur á glansmyndina“.  Við Pétur Hrafn höfum átt gott samstarf á undanförnum árum og mun hann örugglega fagna því að ég svari honum aðeins.  Ég er ósammála ályktunum sem Pétur Hrafn dregur af skýrslu um ástand íþróttamannvirkja í Kópavogi sem lögð var fram á fundi Íþróttaráðs nú nýlega.  Í greininni gerir Pétur Hrafn tilraun til þess að snúa faglegum vinnubrögðum upp í andhverfu sína og setja þau í einhvern pólitískan búning.  Þannig er að samkvæmt síðasta ársreikningi liggja nærri 40% af eignum Kópavogsbæjar í íþróttamannvirkjum en bókfært virði þeirra er um 10 milljarðar.  Líklega er ekkert sveitarfélag á landinu með jafn hátt hlutfall af heildareignum sínum í íþróttamannvirkjum.  Það hljóta að vera fagleg vinnubrögð að íþróttaráð fjalli um og óski eftir skýrslu um ástand þeirra íþróttamannvirkja. Því er miður að Pétur Hrafn falli í gryfju pólitískra átaka í stað þess að fagna faglegum vinnubrögðum.  Skýrslunni er ætlað það hlutverk að vera innlegg í umræðu um forgangsröðun verkefna. Það er óþarfi að snúa slíkum faglegum vinnubrögðum í íþróttaráði uppí andhverfu sína og mátti Pétur Hrafn vita að þeirri tilraun yrði mótmælt.  Okkur í íþróttaráði hefur hingað til tekist að halda allri pólitík utan við starf nefndarinnar og vonast ég til að svo verði hægt áfram enda eru allir sammála um að við viljum gera vel í þessum málaflokk.

Nefnir Pétur Hrafn nokkur dæmi úr skýrslunni, svo sem að ekki væri komin á hitavatnstenging á gervigrasvöllinn í Kórnum og af þeirri ástæðu væri hann ónothæfur á veturna, áhorfendaaðstaða væri ekki klár fyrir handboltann í Kórnum  og að gervigrasvöllurinn í Fagralundi væri ónýtur. 

Allt eru þetta dæmi sem ég þurfti svo sem enga sérstaka skýrslu til að upplýsa mig um.  Það er samt faglegt að leggja fram heildstæða mynd af stöðu mála.  Bæjarráð hefur nú þegar samþykkt að ráðast í endurnýjun á gervigrasvellinum í Fagralundi og tók Pétur Hrafn þátt í þeirri atkvæðagreiðslu 26. apríl sl. og það áður en hann ritaði tilgreinda grein. Varðandi hitavatnstengingu á gervigrasvöllinn í Kórnum og áhorfendaaðstöðu fyrir handbolta í Kórnum þá eru það hvorutveggja mál sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett sem stefnumál um að klára á þessu og næsta ári.

Jón Finnbogason
Varabæjarfulltrúi
Skipar 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi