Fjölskylduvænn Kópavogur

571

Gæði sveitarfélags ræðst af gæðum grunnþjónustunnar, en þar vegur þjónusta við barnafjölskyldur þungt, en rúmlega helmingur allra útgjalda Kópavogsbæjar rann til fræðslu-, æskulýðs- eða  íþróttamála árið 2017, um 20 milljarðar króna.

Á kjörtímabilinu sem er að líða var margt gert fyrir barnafjölskyldur í Kópavogi. Frístundastyrkurinn var tæplega tvöfaldaður, íþróttamannvirki byggð og leikskólaplássi fjölgað. Á vormánuðum þessa árs var umgjörð dagforeldra í Kópavogi bætt; stofnstyrkur til dagforeldra var þrefaldaður og framlög bæjarins til dagforeldra hækkuð til að koma til móts við mismun á  leikskólagjöldum og dvalarkostnaði hjá dagforeldrum, svo fátt eitt sé nefnt. Þá tók Kópavogur forystu með spjaldtölvuvæðingu allra grunnskóla bæjarins og leiksvæði í kringum skólana voru bætt.

Í stefnu Sjálfstæðisflokksins til ársins 2022 eru markmiðin skýr þegar kemur að barnafjölskyldum. Með 500 milljóna króna viðbótarframlagi inn í leikskólana ætlum við að tryggja börnum leikskólapláss frá 14 mánaða aldri, bæta starfsumhverfi á leikskólunum, fjölga leikskólaplássi og stytta biðlista, en með það markmið að taka börn inn á leikskólana við 12 mánaða aldur.

55 þúsund króna mánaðarlegar heimgreiðslur
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að bjóða foreldrum barna utan leikskóla eða dagforeldrakerfis 55 þúsund króna mánaðarlegar heimgreiðslur og hækka frístundastyrkinn upp í 80 þúsund krónur fyrir ungmenni undir 18 ára aldri á næsta kjörtímabili. Framsækni í menntakerfinu verður haldið áfram með bekkjarsettum af spjaldtölvum fyrir alla bekki á yngsta stigi  grunnskólanna og kaupum á þrívíddarpreturum í alla grunnskóla bæjarins, en notkunarmöguleikum þrívíddarprentunar í skólastarfi eru engin takmörk sett. Þá ætlum við að innleiða sýndarveruleikatækni í grunnskóla bæjarins þar sem notkunarmöguleikarnir í skólastarfi eru sömuleiðis nær endalausir.

Það er snjallt að búa í Kópavogi.

Andri Steinn Hilmarson
Háskólanemi og blaðamaður

Skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi