Fólkið í blokkinni

466

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Kópavogs var samþykkt tillaga um að kaupa nú þegar 30-40 félagslegar íbúðir. Nú, þegar fyrir liggur nýtt mat á lánshæfi bæjarins vegna þessarar tillögu, segja tillöguflytjendur að alls ekki standi til að kaupa íbúðirnar strax. Það verði gert á löngum tíma. Samt mátti alls ekki á fundinum á þriðjudag fresta afgreiðslu tillögunnar um einn fund og leita umsagna. Það ríkti neyðarástand. Kaupa þyrfti íbúðir nú þegar. Þversagnirnar eru miklar.

Í tillögunni var einnig kveðið á um byggingu tveggja fjölbýlishúsa. Í óbyggðum hverfum bæjarins, þar sem skipulag liggur fyrir, er meðaltalsstærð fjölbýlishúsa 30 íbúðir. Fram hefur komið að Gunnar Ingi Birgisson telur tillögu um þetta efni þá sömu og hann flutti í nóvember sl. Nú tala fulltrúar Samfylkingarinnar um að bærinn muni ekki byggja íbúðirnar heldur leigufélag. Það kom reyndar ekki fram í tillögunni og er í algerri andstöðu við málflutning Gunnars Inga Birgissonar. Hann hefur sagt að selja eigi lóðir fyrir 2-4 milljarða króna til fjármagna framlagðar tillögur. Samfylkingin segir aðra borga blokkirnar. Þversagnirnar eru miklar.

Kaup á 40 félagslegum íbúðum og bygging tveggja fjölbýlishúsa með samtals 60 íbúðum kalla á fjárfestingu í 100 íbúðum. Meðaltalsverð 3-5 herbergja íbúða er varlega áætlað 30 milljónir króna pr. íbúð eða samtals um þrír milljarðar króna. Tillöguflytjendur segja þetta ranga útreikninga enda tillagan óútfærð. Samt mátti ekki fresta afgreiðslu hennar og leita umsagna. Því var hafnað á þeirri forsendu að búið væri að skoða þessa tillögu og engin ástæða til að drepa málinu á dreif með því að fá umsagnir embættismanna. 011 gögn lægju fyrir til að hægt væri að taka afstöðu til málsins. Nú er sagt að tillagan sé óútfærð. Þversagnirnar eru miklar.

Eftir samþykkt tillögunnar var að sjálfsögðu leitað eftir uppfærðu mati á lánshæfi Kópavogsbæjar. í lánshæfismati frá því í október sagði: Útgjöld og fjárfestingar umfram áætlun hefðu einnig neikvæð áhrif á lánshæfi bæjarins. Í lánshæfismati sem birt var eftir ákvörðun bæjarstjórnar kemur fram að verði ráðist í framkvæmdirnar mun lánshæfi Kópavogs versna vegna aukinnar skuldsetningar í viðkvæmri stöðu, óstöðugleika og minni fyrirsjáanleika.

Tillöguflytjendur segja undirritaðan hafa talað niður lánshæfismatið. Ekkert er fjær sanni. Þvert á móti varaði ég við afleiðingum af ákvörðun bæjarstjórnar. Hér er því verið að skjóta sendiboðann en neitað að horfast í augu við staðreyndir. Samfylkingin sem er svo opin og gegnsæ að hún er nánast ósýnileg talar nú um dómgreindarbrest að hafa kallað eftir upplýsingum um fjárhagsleg áhrif af samþykkt  bæjarstjórnar. Er ekki nær að tala um dómgreindarbrest að samþykkja tillögu án þess að kynna sér fyrst fjárhagslegar afleiðingar?

Höfundur er bæjarstjóri í Kópavogi.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu á bls. 29 laugardaginn 18. janúar 2014