fbpx

Hjördís Ýr Johnson

Hjördís er kynningarstjóri Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, og hefur starfað sem þjálfari hjá Dale Carnegie á Íslandi frá árinu 2006.

Í starfi sínu hjá Dale Carnegie hefur hún hjálpað fólki á öllum aldri að öðlast betri færni í mannlegum samskiptum og auka leiðtogahæfileika. Hjördís hlaut alþjóðlega viðurkenningu fyrir að vera í hópi þriggja bestu DaleCarnegie-þjálfara í Evrópu árið 2013.

Hjördís er með BA-gráðu í fjölmiðlun og sjónvarpsþáttagerð frá Emerson College í Boston og hefur stundað meistaranám í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands.

Hjördís sat í mannréttinda- og jafnréttisnefnd Kópavogsbæjar frá 2010-2012 og hefur verið varamaður í sömu nefnd frá 2012. Hjördís hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hún starfaði sem útsendingastjóri frétta á Stöð 2 ásamt dagskrárframleiðslu hjá Stöð 2 og Skjáeinum. Auk þess hefur hún m.a. starfað sem verkefnastjóri hjá Nordic Photos og viðburðarfyrirtækinu Practical.

Áherslumál Hjördísar eru fjölskyldu- og menntamál ásamt íþrótta- og tómstundamálum.

„Kópavogur er öflugt bæjarfélag sem hefur alla burði til að gera enn betur. Möguleikarnir eru fjölbreyttir bæði í skólamálum sem og atvinnulífinu og Sjálfstæðisflokkurinn þarf að halda áfram að vera áhugaverður valkostur fyrir fólk sem deilir okkar hugsjónum. Fagleg vinnubrögð og sterk samvinna eru atriði sem ég vil leggja áherslu á. Góð samskipti eru forsenda árangurs og að mikilvæg mál fái framgang. Það er enginn vafi í mínum huga að við sjálfstæðismenn eigum að vera leiðandi afl í Kópavogi. Ég býð fram krafta mína með þetta að leiðarljósi.“

Hjördís Ýr er í sambúð með Árna Friðleifssyni, varðstjóra hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, og saman eiga þau 5 börn á aldrinum 11-17 ára.