Forréttindi

609

Ég er hvítur karlmaður og bý á einu Norðurlandanna, þess vegna tilheyri ég mesta forréttinda hóp í heimi. Ég bý við lýðræði og í samfélagi þar sem hver einstaklingur skiptir máli, hef aðgang að frábæru heilbrigðiskerfi og get búist við að verða 85 ára gamall.

Ég get menntað mig til hvers er hugurinn leitar og og möguleikar mínir til að fá starf að loknu námi eru miklir, launað starf sem tryggir afkomu fjölskyldunnar.

En svona hefur þetta ekki alltaf verið , fyrir ekki svo löngu síðan snerist lífið hér á Íslandi um að lifa veturinn af og það er svo ótrúlega stutt síðan. Ég átti fósturföður sem aðeins 12 ára gamall þurfti að sjá fyrir heimilinu ásamt bróður sínum sem var tveimur árum eldri, þau voru 6 systkini og þeir voru elstir þegar faðir þeirra féll frá,þeirra lífsgæði snerust um að allir fengju eitthvað smá að borða en það var ekki alltaf.

Það er eingöngu fyrir dugnað og eljusemi fyrri kynslóða sem ég tilheyri mesta forréttinda hóp í heimi,við skulum aldrei gleyma því og við skulum sýna eldra fólkinu virðingu því vegna þeirra erum við forréttinda hópur.

En talandi um virðingu. Ég á bæði syni og dætur,synir mínir tilheyra sama hóp og ég en dæturnar ekki, því miður.

Ég er mikið búinn að velta fyrir mér hvað sé til ráða. Við Íslendingar höfum verið í fararbroddi á flestum sviðum er varðar réttindi kvenna og það er vel en það er ekki alveg það sem ég á við, heldur þetta virðingarleysi sem mér finst ungum konum og stelpum sýnt.
Getur verið að skilaboðin sem börnin okkar eru að fá orsaki þetta meinta virðingarleisi sem ég vísa hér í?

Ég á 10 ára gamla dóttur sem hefur eins og krakkar á hennar aldri orðið áhuga á tónlist, þegar hún horfir á tónlistar myndband þá sér hún fullklæddan karlsöngvara syngja og í kringum hann hóp fáklæddra kvenna sem virðast eiga sér þann draum heitastan að hann líti í átt til þeirra.
Ef það aftur á móti er kvenmaður sem syngur þá er hún oftar en ekki fá- eða ó- klædd. Þessi boðskapur er ekki í lagi hvorki fyrir dætur okkar né syni. Því miður tek ég eftir að sumir þessara takta eru apaðir upp og notaðir í okkar litla samfélagi. Eina leiðin til að laga þetta mein er að ala börnin okkar upp við það að sýna öðrum virðingu og láta engan koma fram við sig af virðingarleysi.

Alveg eins og fyrri kynslóð kom mér í stöðu mesta forréttinda hóps í heimi þá vill ég að við hjálpumst að við að eyða þessari skömm og verðum sú kynslóð sem raunverulega jafnaði rétt kynjanna og neitum að horfa upp á dætur okkar og systur niðurlægðar á þennan hátt, dætur okkar eiga sama rétt og synir á að tilheyra þessum hópi forréttinda sem fylgir því að búa á Íslandi.