Framkvæmdir við Arnarnesveg hefjist strax á næsta ári.

424

Grein eftir Jón Gunnarsson, ritara Sjálfstæðisflokksins og þingmann suðvesturkjördæmis.

„Það verður að segjast eins og er, að þingið hefur ekki gengið allt of vel í haust,“ segir Jón Gunnarsson, ritari Sjálfstæðisflokksins og þingmaður Suðvesturkjördæmis. „Mikið af stóru málunum er óunnin, að undanskildum verkefnum fjármálaráðherra sem hafa skilað sér vel í þingið sem sást m.a. af því að fjárlög voru kláruð í fyrsta sinn í lýðveldissögunni í nóvember. Yfirleitt hafa fjárlög verið að klárast rétt fyrir jól en við erum löngu búin að afgreiða fjárlögin og öll málin sem tengjast fjárlagafrumvarpinu,“ segir Jón. Mikill árangur hefur náðst á sviði efnahagsmála frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tók við í ríkisstjórn 2013 og hefur
setið samfellt síðan, nú í þriðju ríkisstjórninni frá þeim tíma. Til að mynda jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna um 26,6 prósent frá árslokum 2013 til ársbyrjunar 2019 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. „Eiginfjárstaða heimila hefur stórbatnað, við búum við lægsta vaxtastig sem hefur sést á Íslandi í háa herrans tíð og lending náðist í erfiðum kjarasamningum. Grunnurinn að þessum góða árangri er auðvitað agi og ráðdeild í ríkisfjármálunum enda er skuldahlutfall íslenska ríkisins það lægsta meðal allra ríkja innan OECD. Gjaldeyrisforði Seðlabankans stendur um þessar mundir í 840 milljörðum króna sem er grunnur í því að viðhalda þessum stöðugleika,“ segir Jón og rifjar upp að tekjur þjóðarbúsins byggi í dag á raunverulegri verðmætasköpun ólíkt því sem var í aðdraganda fjármálahrunsins 2008. „Við getum verið þakklát fyrir að ferðaþjónustan hafi skotið rótum í íslensku atvinnulífi sem ein af meginstoðunum ásamt orkusæknum iðnaði, sjávarútvegi, landbúnaði og tengdum greinum. Laxeldið er einnig atvinnugrein sem skiptir okkur miklu máli, ekki bara fyrir smærri byggðir landsins heldur fyrir þjóðarbúið allt. Það er ekki langt í að laxeldið verði jafn mikilvæg útflutningsgrein og þorskveiðar,“ segir Jón en bætir við að Íslendingar þurfi að horfa til framtíðar í atvinnumálum og felast að hans sögn mikil tækifæri víða. „Það er nærtækast að horfa til orkusækins iðnaðar og á það að vera stefna okkar að vísa slíkri starfsemi til landsbyggðarinnar. Mikil tækifæri felast í matvælaframleiðslu og iðnaði eins gagnaverum.“

Framkvæmdum við Arnarnesveg verði lokið 2021
Að sögn Jóns bíða stór mál afgreiðslu á vorþinginu. „Samgönguáætlun er meðal þeirra stóru mála. Það tók lungað af haustinu 2018 að fara í gegnum samgönguáætlun sem við afgreiddum í febrúar á þessu ári. Núna eru stórar breytingar í farvatninu eins og Höfuðborgarpakkinn og flýtigjöld til að hraða framkvæmdum,“ segir Jón. „Það er mikil vinna sem bíður umhverfis- og samgöngunefndar í þessu og er augljós ágreiningur um ýmsa þætti samgönguáætlunar. Það er þó samstaða milli allra flokka um að ráðast í risa átak í samgöngumálum. Það er alveg skýrt að útfærsla á gjaldtöku þarf alltaf að vera með þeim hætti að ávinningurinn fyrir þá sem aka oft um vegina verði meiri en viðbótarkostnaður sem hlýst af því að flýta framkvæmdum,“ segir Jón og nefnir í því samhengi tímasparnað fólks og eldsneytiskostnað af því að sitja fastur í umferð. Þá segir Jón að vonir standi til þess að hægt verði að færa framkvæmdir við Arnarnesveg
fram um eitt ár í samgönguáætlun þannig að framkvæmdir geti hafist á næsta ári og verði lokið 2021. „Arnarnesvegur er gríðarlega mikilvægt samgöngumál, auðvitað fyrir íbúa efri byggðar Kópavogs en ekki síður höfuðborgarsvæðið allt. Arnarnesvegur kemur til með að draga úr umferðarteppum í efri byggðum Kópavogs en er þar að auki mikið öryggismál uppá viðbragðstíma slökkviliðs, sjúkraflutninga og lögreglu.“

Róttækar hugmyndir umhverfisráðherra
„Við erum að glíma við róttækar hugmyndir þegar kemur að málum umhverfisráðherrans,“ segir Jón og nefnir t.a.m. áform um stofnun miðhálendisþjóðgarðs. „Þar eigum við eftir að leggjast í mikla vinnu við að stilla saman strengi um rammaáætlun, virkjanakosti og orkustefnu sem við eigum fljótlega von á frá iðnaðarráðherra. Það þarf að vera gott jafnvægi á milli orkuþarfar á Íslandi og friðun okkar helstu náttúruperlna,“ segir Jón og bendir á að þessi mál hangi auðvitað í samhengi við það hvernig uppbygging í íslensku atvinnulífi eigi að þróast á næstu árum og áratugum. „Stefna Sjálfstæðisflokksins er skýr um að auka fjölbreytni í atvinnulífinu. Með fleiri og fjölbreyttari atvinnugreinum verða stoðir atvinnulífsins fleiri og sterkari. Það eykur atvinnumöguleika og tækifæri ungs fólks á Íslandi til framtíðar,“ segir Jón.