fbpx

Áherslur okkar

Framsæknir skólar – leiðandi samfélag

Áhersla á framsækni og metnað í menntun barna skapar farsælt samfélag. Við setjum markið hátt í menntamálum til að tryggja bjarta framtíð fyrir börnin okkar. Við komum fram með nýjar og ferskar hugmyndir.

Fyrir íbúa í Kópavogi skiptir höfuðmáli að framtíðarsýn okkar sé skýr og við munum sækja fram með ferskar hugmyndir. Góð menntun gegnir mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar og með aukinni áherslu á gæði og þjónustu byggjum við upp betri framtíð. Við ætlum að fjárfesta í nemendum og starfsfólki í skólum Kópavogs. Leikskólar bæjarins eru kjarninn í samfélagi okkar og við viljum bjóða börnunum vistunarúrræði þegar fæðingarorlofi lýkur og þar til þau fá leikskólapláss. Foreldrar vilja eiga val og við ætlum að stuðla að fjölbreyttari valkostum í grunn- og leikskólum Kópavogs.

  • Aukum sjálfstæði grunn- og leikskóla enda sýna rannsóknir að aukið sjálfstæði skóla helst í hendur við betra nám fyrir nemendur og vaxandi ánægju starfsfólks.
  • Með auknu sjálfstæði verður sveigjanleikinn meiri. Við viljum leyfa skólum að skipuleggja starf sitt og áherslur án þess að það komi niður á menntun barna okkar. 
  • Kennarar í samráði við stjórnendur skóla vita best hvernig hentugast er að haga deginum eftir að kennsluskyldu lýkur. Við treystum stjórnendum og starfsmönnum til að finna skilvirkustu leiðina í þessum efnum og viljum afnema stimpilklukkuna í núverandi mynd.
  • Fjárfestum í framtíðinni og stígum næstu skref í stafrænni þróun fyrir alla skóla Kópavogs. Við sjáum tækifæri til að nýta tæknina betur á skapandi hátt og samþætta kennsluefni í þeim tilgangi að skapa heildstætt og persónumiðað nám fyrir nemendur. Með slíkri tækni aukum við gæði náms og bætum vinnuumhverfi kennara. 
  • Fjölgum valkostum í Kópavogi. Við viljum fjölga sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum sem færir fjölskyldum aukið val. 
  • Okkur er alvara með að afnema biðlista og brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til börn fá leikskólapláss. Við ætlum að auka hratt framboð á dagvistunarúrræðum með því að setja upp færanlegar stofur í þeim hverfum þar sem þörfin er mest. 
  • Við viljum að foreldrar hafi val og því ætlum við að taka upp heimagreiðslur til foreldra barna frá tólf mánaða aldri sem kjósa fremur að vera heima með barnið sitt þar til leikskólaplássi er úthlutað.
  • Við ætlum að samræma betur starfsumhverfi leik- og grunnskóla og horfa til skipulags skóladags. 
  • Tryggjum aukinn hvata til að vinna á leikskólum Kópavogs. Við viljum útvíkka og efla stuðning bæjarins til leikskólanáms og styrkja ófaglærða starfsmenn til að sækja námskeið sem auka hæfni þeirra.