Framsóknarmenn eru fyndnir á kostnað þjóðarinnar

398

Framsóknarmenn eru fyndnir á kostnað þjóðarinnar

Eitt sinn var ungur maður spurður; hver er besti tveggja orða brandari sem þú þekkir?

Svarið var svohljóðandi: „ Við framsóknarmenn“, að vísu úr barka Halldórs Ásgrímssonar. Gamansemi framsóknarmanna hefur löngum orðið íslenskri þjóð dýrkeypt. Fyrir kosningar árið 2003 bauð Framsóknarflokkurinn upp á 90% lán til húsnæðiskaupa. 90% lán til kaupa á lítilli íbúð er í sjálfu sér ekki hættulegt. Þetta toppuðu íslenskir bankar með 100% lánum, að vísu að litlu leyti á kostnað bankanna. Höfðingskapurinn var á kostnað Íbúðalánasjóðs sem fjármagnaði bankanna til þessara aðgerða. Að Kaupþingi undanskyldu. Lánveitingar hófust í eignabólu, þegar fasteignaverð hafði hækkað um 70% umfram almennt verðlag. Afleiðingarnar urðu viðbótarhækkun um60% ofan á fyrri hækkun. Þetta leiddi til risavaxinnar eignabólu sem sprakk árið 2007. Þetta var gert í boði framsóknarmanna, félagsmálaráðherrans Árna Magnússonar og forstjóra Íbúðalánasjóðs, Guðmundar Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra. Allt var þetta gert utan laga og reglugerðaheimilda. Og þjóðin situr eftir með reikninginn, 80 milljarða tap Íbúðalánasjóðs.

Hér getur að líta texta úr bréfi Íbúðalánasjóðs til FME frá 2005, líklega ritað af Árna P Árnasyni, hdl., lögfræðilegum ráðunaut forstjóra sjóðsins, en þá var ráðunauturinn í Framsóknarflokknum:

„Útgáfa fjármögnunarbréfa sjóðsins hefur um árabil verið ráðandi um langtímavaxtastig í landinu og ríkið stendur ábyrgt fyrir öllum skuldbindingum hans. Við slíkar aðstæður var algerlega fráleitt fyrir Íbúðalánasjóð að hætta útgáfu íbúðabréfa. Slíkt hefði leitt til hruns vaxtamyndunar á markaði og gert sjóðinn ósamkeppnishæfan um ný útlán. Lánshæfismat sjóðsins hefði hrunið í kjölfarið og hagsmunum ríkissjóðs verið teflt í voða. Þetta hefði verið skýrt brot á lagaskyldum stjórnar og framkvæmda­stjóra og óhugsandi út frá því hlutverki sem sjóðnum er að lögum falið.“

Hér eru stórar játningar. Stjórnendur sjóðsins játa á sig að hafa möndlað með vexti á markaði, en slíkt er brot á 117. grein laga um verðbréfaviðskipti frá 2007.

Nú sitja kaupendur eftir með sínar íbúðir, sem hafa lækkað í verði eftir að eignabólan sprakk og há lán. Allt í boði framsóknarmanna, sem telja eðlilegastan hlut í heimi og algerlega fyrirhafnarlausan, að lækka útlán án þess að það komi niður á öðrum, jú, með almennri skattahækkun um nokkur prósent í nokkur ár.

Í hvert skipti sem framsóknarmenn tala um efnahagsmál, hvort heldur fjármál heimilanna eða þjóðarhag, er vá fyrir dyrum. Með tillögum um almenna lækkun fasteignalána þá er lýðskrumið algert og einhver verður að borga. Fyrstu fórnarlömb framsóknarmanna verða  lífeyrisþegar. Og svo verða það skattborgarar. er ekki nóg að vera skattborgari til 17. júni? Vilja menn framlengja tilvist skattborgarans til verslunarmannahelgar?