Fyrir hvað stend ég í stjórnmálum.

442

Í fyrsta lagi er ég lýðræðissinni, en megin stoðir lýðræðisins er jafnréttishugsjónin. Enginn á að hafa sérréttindi og leitast á við að jafna lífsmöguleika fólks. Til þess að grundvallaratriði lýðræðisins geti notið sín verða einstaklingarnir að hafa athafnafrelsi og skoðanafrelsi. Þegar hlúð er að persónuleika og sjálfstæði einstaklinganna er grundvöllurinn fyrir lýðræði mestur og bestur. Þjóðin verður að eiga þroskaða og sjálfstæða einstaklinga. Í lýðræðisskipulagi eins og hér á Íslandi þýðir það að við erum búin að koma okkur saman um að meirihlutinn ræður. En það verður líka að vera einurð á bak við það af þeirra hálfu sem ekki fylgja meirihlutanum, að virða niðurstöðuna. En þrátt fyrir að meirihlutinn ráði þá verður hann að kunna fótum sínum forráð og ekki fara fram með ofbeldi og ofstopa. Sáttin er ekki síður mikilvæg forsenda farsæls þjóðfélags og þjóðskipulags

Bætt umgengni með almannafé

Í öðru lagi vil ég minni ríkisafskipti og bætta umgengni með almannafé

Nú er svo komið samkvæmt útreikningum Sambands ungra Sjálfstæðismanna að hinn venjulegi maður þarf að vinna til 9. Júlí ár hvert fyrir ríkið. Fram að þeim tíma fer hver einasta króna sem hann vinnur sér till í ríkissjóð í formi skatta af einni eða annari tegund. Þá fyrst getur einstaklingurinn farið að vinna fyrir sig sjálfan. Hér hefur öllu verið snúið á hvolf og fleiri og fleiri venjast þeirri hugsun að einstaklingarnir séu til fyrir ríkið. Það sjá allir að álögur á einstaklinga og fyrirtæki í þessu landi eru orðnar alltof miklar sem dregur úr vinnuþreki og framfarahug landsmanna. Ekki er nóg með að alltof mikill tími fólks fer í að halda ríkinu gangandi, þá eru alltaf að koma upp ný og ný dæmi um hversu illa er farið með almannafé. Það virðist enginn telja það sitt mál að passa upp á það gríðarlega fé sem landsmenn láta af hendi rakna í hinn sameiginlega sjóð. Þar fer fé án hirðis. Þessu vil ég breyta. Ég vil líta til þjóða eins og Kanada í þessum efnum þar sem allt önnur og heilbrigðari menning ríkir varðandi umgengni um almannafé.

Fullveldið er ómetanlegt

Í þriðja lagi er ég á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Ég tel að framtíð Íslands sé best borgið með því að þjóðin ráði sínum málum sjálf. Í fyrsta lagi eru undirstöður atvinnulífs okkar Íslendinga svo fáar, að nánst má segja að við séum með öll eggin í sömu körfunni. Eins og staðan er í dag er sjávarútvegurinn sú atvinnugrein sem skapar mest verðmæti fyrir þjóðarbúi. Því kemur það ekki til greina af minni hálfu að ákvarðanir um stjórn fiskveiða til Íslands verði teknar af öðrum en Íslenskum ráðamönnum, eins og best verður á kosið fyrir íslenska þjóð. Þetta fullveldi getum við aldrei framselt eða gefið neinskonar afslátt af. Ég hugsa þetta mál líka oft á sögulegum forsendum og rifja upp hina erfiðu sjálfstæðisbaráttu sem við háðum á 19. öld og enn eru ekki eru 100 liðin frá því að við fengum hið langþráða fullveldi árið 1918. Árið 1262, í kjölfar borgarstríðs hér á landi eða svokallaðrar Sturlungaaldar, misstum við Íslendingar fullveldið í hendur erlendrar þjóðar og það tók okkur tæp 700 ár að endurheimta það að nýju. Nýlendutíminn í sögu þjóðarinnar er tími mikillar niðurlægingar og fátæktar og í upphafi síðustu aldar var Íslands fátækasta land Evrópu. Fullveldið er mér því meira virði en nokkuð annað, það er í raun ómetanlegt

Í næstu grein mun ég m.a. fjalla um viðhorf mín í skattamálum, atvinnumálum, skuldamálum fyrirtækja og einstaklinga, gjaldeyrishöft og fleira.