Fyrir hvern er fæðingarorlofið?

421

Fyrirhuguð lenging ríkisstjórnarinnar á fæðingarorlofinu hefur leitt af sér áhugaverða umræðu. Fyrir hvern er fæðingarorlofið, barnið eða foreldra?

Í stuttu máli fela breytingarnar í sér lengingu fæðingarorlofsins um einn mánuð á næsta ári og í tólf mánuði árið 2021. Um lengingu orlofsins er ekki deilt, en skiptar skoðanir eru um útfærsluna.

Forgangsraðað í þágu hugmyndafræði, ekki barnsins
Ávinningur samfélagsins af fæðingarorlofi er mikill. Margar rannsóknir styðja mikilvægi góðrar umönnunar foreldra við barn og heilbrigðar tengslamyndunar milli barns og foreldra fyrstu tvö árin. Sá tími getur verið afgerandi um framtíð barnsins og ráðið úrslitum um hvort úr grasi vaxi heilbrigður og farsæll einstaklingur.
En þeim sjónarmiðum, að tryggja barni samvistir við foreldra sína á fyrsta ári lífsins, er ekki gert hátt
undir höfði í umsögnum verkalýðshreyfingarinnar við frumvarp félagsmálaráðherra. Segir ASÍ í umsögn sinni við frumvarpið t.a.m. að „kerfi sem eyrnamerkir ekki réttinn til hvors foreldris geti leitt til verulegs bakslags í jafnréttisbaráttu.“ BSRB, BHM, Jafnréttisstofa og Kvennréttindafélag Íslands skiluðu inn umsögnum á sömu leið, að réttindum á vinnumarkaði ætti ekki að deila með öðrum og að girða þurfi fyrir möguleika foreldra á að ráðstafa fæðingarorlofinu sín á milli.Í frumvarpinu er gert ráð fyrir fimm mánaða fæðingarorlofi til hvors foreldris auk tveggja mánaða sameiginlega til skiptana (5+5+2).

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa kallað eftir því að sameiginlegu mánuðunum verði fjölgað þannig að hvort foreldri um sig fái fjóra mánuði en fjórir verði sameiginlega til skiptana. Hefur það verið rökstutt með þeim sjónarmiðum að fjölskylduaðstæður eru mismunandi og það sé líklegra að börn njóti ekki 12 mánaða samvista með foreldrum undir kerfi þar sem sveigjanleikinn er enginn, en í kerfi þar sem foreldrum er
gefið svigrúm til að ráðstafa sameiginlegum mánuðum til að tryggja samvistir með barni.

Börn eiga ekki að gjalda þess að feður nýti sér ekki fullt fæðingarorlof
Barnaheill – Save the Children á Íslandi og Geðverndarfélag Íslands skrifa umsagnir um frumvarpið á þá leið að rýmka þurfi rétt foreldra til framsals sín á milli. „Rétturinn á að vera barnins og mikilvægt að hagsmunir þess séu fyrst og fremst hafðir að leiðarljósi,“ segir í umsögn frá Barnaheill. „Ef annað
foreldrið getur ekki einhverra hluta vegna nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs, skuli vera hægt að fram
selja þann rétt til hins foreldrisins. Samtökin telja þó afar mikilvægt að þessi réttur sé aðeins veittur í undantekningartilfellum og að meginreglan sé sú sem lögð er til í frumvarpinu.“ Í umsögn Geðverndarfélags
Íslands segir: „Sú breyting sem er lögð til með þessu frumvarpi felst í því að tryggja foreldrum, ekki barninu, rétt til samvista, þrátt fyrir að markmiðgrein laganna, sem áður var vitnað til, orði það skýrt að markmiðið sé að tryggja barninu rétt til samvista. Sú regla að tryggja foreldrum sjálfstæðan rétt, 5 mánuði hvoru, og að hann sé ekki framseljanlegur, brýtur gegn bæði barninu og markmiðsgrein laganna, sbr. 1. mgr. 2. gr. Þetta
er augljóst í tilfelli einstæðra foreldra, þar sem annað þeirra getur af einhverjum ástæðum ekki verið samvistum við barnið (ekki er vitað hver faðirinn er, foreldri er alvarlega veikt, er óhæft eða vill ekki umgangast barnið). Börn sem þannig stendur á um fá þá eftir þessa breytingu 5 + 2 mánuði, 7 mánuði samtals, meðan önnur börn fá 12 mánuði. Barn einstæðs foreldris í dæminu hér á undan ætti ekki að fá minni tíma með foreldri sínu. Okkur er ljóst að meginhugmyndlaganna, þrátt fyrir 1. mgr. 2. gr, með sjálfstæðum, óframseljanlegum rétti til foreldraorlofs er að stuðla að þátttöku feðra í umönnun barna sinna fyrstu mánuðina. Við teljum hins vegar að börnin eigi ekki gjalda þess að feður nýti sér ekki þennan rétt heldur eigi orlofstíminn að vera merktur börnunum. Það er síðan annað verkefni að auka jafnréttisvitund í
samfélaginu og stuðla að því að feður langi til að vera 5 mánuði heima með nýju barni, telji það eftirsóknarvert og hluta af sjálfsmynd sinni,“ segir í umsögninni en í svari félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að árið 2018 hafi 56% feðra fullnýtt réttindi sín til fæðingarorlofs sem hlutfall af mæðrum sem fullnýttu sín réttindi.

Biðlistar eftir leikskólaplássum hafa bein áhrif á tækifæri tæplega 1.200 foreldra til atvinnuþátttöku
greinargerð frumvarpsins er lögð áhersla á mikilvægi þess að viðræður verði hafnar milli ríkis og sveitarfélaga um möguleika barna á að hefja leikskóladvöl við tólf mánaða aldur, en það er í anda þeirra hugmynda sem Samtök atvinnulífsins kynntu í nóvemberbyrjun í skýrslunni Menntun og færni við hæfi en þar er að finna 30 tillögur sem miða að því að bæta öll skólastig, framhaldsfræðslu og umgjörð menntamála.
Í skýrslu SA kemur m.a. fram að mæður barna, sem innrituð séu í leikskóla við 12 mánaða aldur, séu að jafnaði níu og hálfan mánuð frá vinnumarkaði en karlar tvo og hálfan. Því þurfi að styðja betur við atvinnuþátttöku foreldra ungra barna. Benda samtökin á að 1. nóvember 2018 hafi tæplega 1.200 börn á aldrinum 12-24 mánaða verið á biðlistum eftir leikskólaplássum hjá sveitarfélögum landsins. Áætla samtökin að biðlistar eftir leikskólaplássum hafi bein áhrif á tækifæri tæplega 1.200 foreldra til atvinnuþátttöku. Áætlaður rekstrarkostnaður við að bjóða upp á leikskólavist fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri er allt að 5,8 milljarðar króna á ársgrundvelli að því er fram kemur í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga við frumvarp félags- og barnamálaráðherra um fæðingarorlof. Í skýrslu Samtaka atvinnulífsins kemur fram að til þess að brúa bilið fyrir foreldra á atvinnumarkað þurfi að eiga sér stað skynsamleg forgangsröðun fjármuna. Þá benda samtökin á að árið 2004 hafi tekjur leikskóla af leikskólagjöldum sem hlutfall af rekstrarkostnaði verið 29% en hafi verið komnar niður í 15% árið 2017. „Lækkun á leikskólagjöldum getur dregið verulega úr getu sveitarfélaga til að brúa umönnunarbilið, enda hafa leikskólarnir þar með minni fjármuni úr að spila en ella. Þrátt fyrir að hugmyndir um gjaldfrjálsa leikskóla, sem jafnan eru ræddar, sé á
margan hátt eftirsóknarverð er það vilji SA að það verði sett í forgang að loka umönnunarbilinu áður en
farið er í aðrar beytingar. Það er hagur allra,“ segir í skýrslunni.

Grein birt í jólablaði Voga 12. desember 2019