Gerum betur!

525

Ég hef fullan skilning á því að margir kjósendur horfi fyrst og fremst til þess hvernig stjórnmálaflokkar hyggjast koma til móts við skuldavanda heimilanna þegar þeir ganga að kjörborði. Loforð um úrbætur á kjörum öryrkja og aldraðra mun einnig hafa áhrif á niðurstöður komandi kosninga. En mig langar að hvetja kjósendur til þess að líta til áhrifa íslensks atvinnulífs á samfélagið og velta fyrir sér mikilvægi þess að þar blási vindar í öll segl. Með takmörkunum á atvinnulífi takmörkum við möguleika okkar í allri grunn- og velferðarþjónustu.

Aukum atvinnumöguleika – minnkum atvinnuleysi
Í þeirri kosningarumræðu sem átt hefur sér stað hefur lítið verið rætt um áhrif atvinnuleysis á þjóðfélagið. Við höfum verið blessunarlega laus við langvarandi atvinnuleysi líkt og þekkist í sumum löndum þar sem tvær og þrjár kynslóðir innan sömu fjölskyldu hafa lifað á bótum alla sína ævi. Við þurfum að kappkosta að koma í veg fyrir slíka þróun hér á landi. Fjölga þarf störfum þannig að atvinna sé í boði fyrir alla og hvatinn til að vinna þarf að vera til staðar í launaumslaginu svo að um muni.

Sérstakt tryggingargjald var lagt á íslensk fyrirtæki þannig að fyrir hvern launþega greiða fyrirtæki skatt. Þessi skattur er svo hár að nefnt hefur verið að væri hann felldur niður gætu mörg fyrirtæki ráðið inn einn nýjan starfsmann á móti hverjum tíu sem þegar eru í vinnu. Í mínum huga fer betur á því að fyrirtæki noti fjármuni sína til að ráða einstakling til starfa frekar en greiða honum atvinnuleysisbætur í gegnum skattheimtu.
Nefnt hefur verið að hér sé dulið atvinnuleysi, meðal annars vegna þess að nokkur fjöldi þeirra sem misstu vinnu fóru í frekara nám. Það er líklegt að þessi hópur sé bráðlega væntanlegur aftur á atvinnumarkaðinn, betur menntaður og hæfari til starfa en áður. Það er svo mikilvægt að íslenskt atvinnulíf geti tekið fagnandi á móti þessum hópi og fært honum tækifæri til að skapa aukin verðmæti hér á landi. Það er ekki síður mikilvægt fyrir þennan hóp sem nú er með námslán á bakinu að komast í gott starf.
Oft tala stjórnmálamenn um mikilvægi þess að fjárfesta í menntun. En það er jafn mikilvægt að fyrirtæki þessa lands hafi ráð á því að bjóða menntafólki atvinnu. Það getur ekki verið stefna okkar að fjárfesta í skólakerfinu til þess eins að útskrifaðir námsmenn geti flutt og starfað erlendis. Ávöxtun fjárframlags ríkisins til menntamála verður þeim mun meiri sem atvinnuþáttaka einstaklinga eykst að námi loknu.

Nýsköpun í stað stöðnunar
Stjórnmálamönnum hefur á liðnum árum verið tíðrætt um mikilvægi nýsköpunar í atvinnulífinu og uppbyggingu sprotafyrirtækja. Ætla má að um þetta hafi flestir stjórnmálaflokkar verið sammála enda ýtir nýsköpun, þar sem hún á sér stað, undir hagvöxt vegna framleiðsluaukningar eða hagræðingar sem leiðir af sér meiri framleiðni.
Það veldur því vonbrigðum að þrátt fyrir fjálglegt tal um mikilvægi nýsköpunar þá hefur núverandi ríkisstjórn tekist að draga úr möguleikum fyrirtækja á þessu sviði með flóknum og þvælnum skattalögum og stóraukinni skattheimtu. Fréttir berast af vænlegum sprotafyrirtækjum sem hyggjast flytja af landi brott vegna fjármögnunarerfiðleika sem meðal annars má rekja til þess að hér skortir betri skattalöggjöf um áhættufjármögnun. Nýsköpun hefur helst blómstrað á sviði skattheimtu síðast liðin fjögur ár.
Þrátt fyrir fiska og ferðamenn þá höfum við ekki borið gæfu til að ná ásættanlegum hagvexti. Ástæðan er sú að rekstur fjölmargra fyrirtækja og opinberra stofnana er í járnum. Ekki er til fjármagn til að endurnýja tækjakost og hugbúnað, ráða og mennta starfsfólk, huga að markaðssetningu eða sinna nauðsynlegri vöruþróun og nýsköpun. Rekstraráætlanir margra fyrirtækja og stofnanna hafa verið skornar niður ár eftir ár og þrátt fyrir hækkandi álögur ríkisstjórnarinnar sem lögfest hefur á núverandi kjörtímabili yfir 100 nýja skatta, þá stenst innheimtan ekki væntingar. Ríkissjóður var rekinn með 60 milljarða halla árið 2012 sem er þrefalt meira en fjárlög sömu ríkisstjórnar kváðu á um. Þrátt fyrir bága stöðu margra einstaklinga hér á landi þá trúi ég varla að mörg heimili hafi verið jafn illa rekið og þjóðarbúið okkar á síðasta ári.

Mikilvægi stöðugleika og sterkar stjórnar
Næsta ríkisstjórn verður að hafa betri þekkingu og skilning á þörfum atvinnulífsins og áhrifum skattheimtu á rekstur og framtíð fyrirtækja. Næsta ríkisstjórn þarf að skilja að nýsköpun er ekki krydd í ræður stjórnmálamanna heldur mikilvægur þáttur í allri starfsemi í landinu. Við höfum staðið meðal fremstu þjóða í sjávarútvegi og orkuiðnaði vegna hugvits okkar og nýsköpunar. Það forskot megum við ekki missa vegna misráðinna aðgerða ríkisvaldsins heldur huga þess í stað að því að sækja fram á við með sama hætti í öllum öðrum atvinnugreinum hér á landi.

Mörkum okkur stefnu um mikilvægi nýsköpunar í allri atvinnustarfsemi og opinberri þjónustu sem hér er í boði. Gerum kröfu um að unnt sé að nota bestu tækni hverju sinni í öllum störfum hér á landi. Gerum kröfu um öflugt atvinnulíf með fjölbreyttum störfum. Gerum kröfu um lægri skatta, jafnt á einstaklinga sem fyrirtæki en gerum jafnframt kröfu um betri skattheimtu vegna öflugri atvinnustarfsemi. Byggjum traust samfélag með framúrskarandi þjónustu við alla þjóðfélagsþegna. Gerum nýsköpun að einkunnarorðum þessarar þjóðar. Gerum þær kröfur til okkar að leita stöðugt nýrra leiða til að gera betur.

Ég treysti stefnu og forystu Sjálfstæðisflokksins í málefnum atvinnulífsins.

Bryndís Loftsdóttir
Bóksali
8. sæti SV