Getur Alþingi unnið traust landsmanna?

396

Sjálfsagt hafa margir andað léttar aðfaranótt skírdags þegar loks var ákveðið að rjúfa Alþingi. Margir þingmenn hafa örugglega verið því fegnir að komast út úr þinghúsinu eftir langa fundi síðustu vikur, þó gleði sumra sé tregablandin enda eiga þeir ekki afturkvæmt að loknum kosningum. En fögnuður þingmanna skiptir minnstu. Kjósendur geta glaðst yfir að döpru þingi er lokið og stutt er í kosningar og nýja ríkisstjórn.

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir, fráfarandi forsætisráðherra, tók við lyklavöldunum í Stjórnarráðinu í febrúar 2009 í minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, með stuðningi og að frumkvæði Framsóknarflokksins, var traust almennings á Alþingi í sögulegu lágmarki. Aðeins 13% sögðust bera traust til Alþingis samkvæmt mælingum Capacent. Ári áður báru 42% landsmanna traust til löggjafarsamkomunnar. Fall íslensku viðskiptabankanna í október 2008 og þær efnahagsþrengingar sem fylgdu í kjölfarið urðu til þess að rýra traust almennings á Alþingi.
Þessu ætlaði vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að breyta. „Lykilverkefnið er að endurreisa traust í íslensku samfélagi,“ sagði meðal annars í samstarfsyfirlýsingu flokkanna eftir kosningarnar 2009. Fjórum áður síðar hefur lítið breyst. Samkvæmt mælingu Capacent í febrúar síðastliðnum bera aðeins 15% landsmanna traust til þingsins. Munurinn er innan skekkjumarka.
Kemur ekki á óvart
Það kemur ekki á óvart að ekki hafi tekist að auka traust til Alþingis. Þegar stjórnmálamenn standa ekki við gefin fyrirheit er ekki að undra að í huga kjósenda séu þeir dæmdir léttvægir. Síendurtekin loforð vinstri stjórnarinnar um þúsundir nýrra starfa og fögur fyrirheit um að skjaldborg yrði slegin um heimilin og hlutur þeirra réttur við, reyndust innantóm. Þúsundir landsmanna sem berjast í bökkum, glíma við þunga skuldabyrði, lágar tekjur eða atvinnuleysi, treysta ekki lengur á það sem sagt er.
Sjálfstæðir atvinnurekendur sem heyja ójafna baráttu og vonuðust eftir að njóta sanngirni, hafa þvert á móti orðið að glíma við hærri skatta og enn ósanngjarni samkeppni í skjóli vinstri stjórnar. Á sama tíma hefur eldra fólk sætt upptöku eigna. Í hugum þessa fólks hefur virðing Alþingis ekki aukist.
Ríkisstjórn og löggjafarsamkoma sem ítrekað gera tilraunir til að koma skuldum einkaaðila á herðar skattgreiðenda og hunsa ítrekað yfirgnæfandi vilja meirihluta þjóðarinnar, vinnur sér ekki inn annað en vantraust. Þegar böðlast er áfram í pólitísku tómarúmi þvert á vilja meirihluta landsmanna og komið er í veg fyrir að kjósendur fái að segja sitt álit á umsókn um aðild að Evrópusambandinu, geta þingmenn og ráðherrar ekki verið undrandi yfir því að traustið sé ekki meira en raun ber vitni.
Hrossakaup og leiksýningar
„Hönnuð“ leiksýning þegar einn ráðherra var dreginn fyrir landsdóm varð þingmönnum og Alþingi ekki til framdráttar. Þar komu þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna, Hreyfingarinnar og Framsóknarflokksins fram.
Pólitísk hrossakaup stjórnarflokkanna við afgreiðslu rammaáætlunar um nýtingu orkuauðlinda, þar sem vinna sérfræðinga í liðlega áratug var sett til hliðar, var ekki hugsuð til að auka traust á Alþingi, heldur miklu fremur til að halda sundurlausri ríkisstjórn saman og til heimabrúks í herbúðum Vinstri grænna.
Atlaga vinstri stjórnarinnar að sjávarútvegi hefur reynst íslensku efnahagslífi dýrkeypt. Kjósendur hafa áttað sig á því að tilraunin til að kollvarpa skipulaginu hefur rýrt lífskjör allra. Atlagan, sem einn ráðherrann líkti við bílslys, hefur ekki gefið tilefni til þess að tiltrú á Alþingi aukist.
Úr tengslum við raunveruleikann
Mitt í kreppunni, þar sem skattar fara stöðugt hækkandi, fjárfesting í sögulegu lágmarki (og við farin að ganga á útsæði fyrir hagvöxt framtíðarinnar), þúsundir sjá ekki enn fyrir endann á glímunni við miklar skuldir, lýsir forystumaður ríkisstjórnarinnar því yfir að landið sé tekið „að rísa“.
Almenningur veit betur, hristir hausinn og kemst að þeirri niðurstöðu að á löggjafarsamkomunni séu menn ekki í tengslum við raunveruleikann.
Kjósendur skynja að ríkisstjórnin hefur verið á flótta undan raunveruleikanum og í stað þess að kljást við þau mál sem skipta heimilin og fyrirtækin í landinu mestu, var orkunni eytt í tilraun til að bylta stjórnarskránni.
Átök eru eðlileg og nauðsynleg
Átök milli þingmanna og stjórnmálaflokka eru eðlileg og nauðsynleg. Hugmyndafræðileg átök og hörð skoðanaskipti eru órjúfanlegur hluti af lýðræðinu. Samkeppni hugmynda og skoðanaskipti – jafnvel óvægin – eru ekki skýringin á litlu trausti almennings á Alþingi.
Loforð sem ekki er staðið við, pólitísk hrossakaup, vilji meirihluta kjósenda í engu virtur og illdeilur um mál sem skipta almenning litlu, skýra af hverju Alþingi hefur ekki tekist að endurvinna traustið.
Ætli nýtt þing og ríkisstjórn að vinna traust landsmanna, verður að innleiða önnur vinnubrögð en vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms J. hefur stundað í rúm fjögur ár. Krafa kjósenda er að staðið verði við gefin fyrirheit og fögur loforð.