Grundvallarstefnumál

Grundvallarstefnumál og hugsjónir Sjálfstæðisflokksins koma fram í sjálfstæðisstefnunni sem flokkurinn hefur fylgt frá upphafi. Sjálfstæðisstefnan er hvorki langorð né flókin heldur veitir hún leiðbeiningar um nokkur mikilvæg atriði sem er nauðsynlegt að taka mið af, vilji menn tryggja frelsi og framþróun í þjóðfélaginu. Hún gefur sig ekki út fyrir að vera nákvæm forskrift að fullkomnu ríki enda lifa slík fyrirmyndarríki sjaldnast sjálfstæðu lífi utan kennisetninga og fræðikerfa.

Þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust árið 1929 undir merkjum nýs flokks, Sjálfstæðisflokksins, var kveðið á um tvö meginatriði sem flokkurinn skyldi hafa að leiðarljósi.

Annars vegar var því lýst yfir að undanbragðalaust yrði að vinna að því að landið yrði sjálfstætt þegar skilyrði væru til þess samkvæmt sambandslögunum.
Hins vegar sagði að flokkurinn ætlaði: „Að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“

Þessi kjarnyrta stefnuyfirlýsing hefur fylgt flokknum allar götur síðan og verið hans leiðarljós. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins er stefna flokksins í einstökum málaflokkum mótuð, eins og sjá má á öðrum stað á síðunni auk þess sem samþykkt er sérstök stjórnmálaályktun á hverjum landsfundi. Landsfundi flokksins sitja landsfundarfulltrúar, sem valdir eru af aðildarfélögum flokksins um land allt og hafa allir fulltrúar atkvæðisrétt á landsfundi varðandi stefnumótun og kjör í embætti flokksins.

Undanfarin 18 ár hafa orðið miklar breytingar í íslensku samfélagi, sem er nú orðið opnara og frjálsara en áður. Kjör almennings í landinu hafa batnað mikið á þessu tímabili, kaupmáttur aukist verulega og atvinnuleysi verið með því minnsta sem þekkist í heiminum. Þrátt fyrir að miklir erfiðleikar hafi fylgt falli bankakerfisins á Íslandi í október 2008, er sá árangur sem náðst hefur ekki til einskis.Á næstu misserum verður atvinnulífið byggt upp á nýjan leik og íslenska þjóðin mun koma sterkari út eftir á. Þrátt fyrir að ríkisvaldið hafi tímabundið þurft að stíga inn í rekstur veigamikilla fyrirtækja er skýrt að mati Sjálfstæðisflokksins að slíkt sé ekki heillavænlegt til langframa og verður losað um eignarhald ríkisins aftur um leið og færi gefst.