Seldi bróður sínum hugmynd sem kostaði hann fermingarpeningana

1492

Hannes Steindórsson er í fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, hann vill gera gagn og kljást við spennandi áskoranir og ákvað því að skella sér í framboð. Hannes segist hafa verið ólátabelgur í skóla og gefist upp á námi í menntaskóla. Hann fór þá út á vinnumarkaðinn og uppgötvaði að honum fannst miklu skemmtilegra að vinna en að læra. Hann fann sig í starfi fasteignasala og gafst ekki upp í hruninu heldur vann frá morgni til miðnættis til að hafa í sig og á. Hann, ásamt öðrum, stofnaði Lind fasteignasölu og er í dag framkvæmdastjóri hennar og aðaleigandi. Blaðamaður hitti Hannes á heimili hans í Kópavogi, hann var nýkomin heim úr Heiðmörk þar sem hann hjólar alltaf þegar hann á lausa stund, enda finnst honum fátt meira endurnærandi en að hjóla úti í náttúrunni.

“Ég er fæddur og uppalin á Dalvík til 12 ára aldurs, það voru frábær ár. Það fylgdi því svo mikið frelsi að búa í svona litlum bæ. Maður var alltaf úti að leika, veiða marhnúta, fara á hestbak og ég man að einu sinni sluppu minkar út og við máttum reyna að ná þeim sem var mikið fjör en auðvitað tókst það ekki,“ segir Hannes hlæjandi. ,,Ég æfði fótbolta en ég gat ekkert, ég æfði líka skíði,

eins og nánast allir krakkarnir á Dalvík, og þar fann ég mig. Ein besta æskuminningin er þegar ég vann Andrésar Andar leikana árið 1989 og varð stórstjarna eitt kvöld. Ég titraði og skalf þegar ég gekk inn á gólfið í íþróttahöllinni á Akureyri til að taka á móti verðlaunum en ég var líka að springa úr stolti,“ segir hann brosandi.

Fékk draumastarfið 17 ára gamall
Hannes flutti frá Dalvík árið 1990, foreldrar hans fengu þá vinnu í Kópavogi og fjölskyldan flutti í Engihjallann. „Það var rosaleg breyting, það búa örugglega jafn margir í Engihjalla og á Dalvík. Mér fannst allt svo risastórt og ég þekkti engan, að flytja frá Dalvík er ekki það auðveldasta sem ég hef gert um ævina, ég viðurkenni það. En svo byrjaði ég í Hjallaskóla og kynntist fullt af strákum í hverfinu. Ég átti ekki auðvelt með nám og var algjör ólátabelgur en ég var alltaf með frábæra kennara og gleymi því aldrei hvað þeir voru góðir við mig því ég var sko ekki þægasti strákurinn í skólanum. Ég var samt vinmargur og það var fjör í skólanum. Ég kláraði tíunda bekk en fékk engin verðlaun fyrir góðan námsárangur,“ segir hann einlægur og brosir. „Þaðan fór ég í MK, það var skemmtilegur tími, ég bauð mig fram í kosningum í skólanum og vildi verða gæslustjóri, því gæslustjórinn fékk frítt á öll skólaböll. Það tókst og ég var kosinn gæslustjóri. Eftir þrjár annir hætti ég í skólanum og fór að vinna sem pizzabakari á Dominos sem mér fannst svalasta starf í heimi á þeim tíma, bara svo það sé tekið fram,“ segir hann og hlær innilega. Hannes var komin í draumastarfið 17 ára og var fljótlega orðinn vaktstjóri. Yfirmaður minn Þórarinn Ævarsson er einn duglegasti maður sem ég hef kynnst um ævina. Hann kenndi mér að vinna og er einmitt líka í framboði núna, hann er í 4. sæti á lista hjá Vinum Kópavogs.

Úr fjölmiðlabransanum í fasteignabransann
Hannes ákvað að fara aftur í skóla, skráði sig í FG en hætti eftir tvö ár og fór að vinna á söludeild SkjáEins. „Þar fann ég hvað ég vildi gera, mér fannst mikið skemmtilegra að vinna en að vera í skóla, það hentaði mér bara betur. Ég var á SkjáEinum til 2004 og var orðinn auglýsingastjóri 23 ára gamall. Þetta voru frábær ár, mikið af ungu fólki, allir svo jákvæðir og það var mikil stemning í loftinu. Mikill og góður lærdómur, þaðan fór ég svo yfir til 365 og var sölustjóri þar í eitt ár.“

Eftir árin í fjölmiðlabransanum tók fasteignabransinn við en hvernig kom það til?

„Einn besti vinur minn, þá og nú, Gunnar Sverrir Harðarson fékk mig í það og kom mér af stað í þeim heimi. Við tveir vorum teymi, hann þjálfaði mig upp og kenndi mér og verð ég honum ævinlega þakklátur fyrir það. Það gekk vel í fasteignasölunni fyrstu árin en svo kom hrunið! Þá breyttist landslagið í bransanum heldur betur, margir fasteignasalar hættu og fasteignasölum fækkaði mikið. Ég hélt áfram en það var ekkert að gera, seldist varla fasteign. Ég neitaði að gefast upp og var í heilt ár fasteignasali frá níu til fimm og sölustjóri hjá Tali frá fimm til ellefu á kvöldin. Það var ekkert annað í boði ef ég ætlaði að hafa í mig og á,“ útskýrir Hannes hreinskilinn. Við Gunnar unnum saman í einhver sex eða sjö ár þar til árið 2013 þegar við ákváðum að breyta til og stofnuðum, ásamt Þórunni Gísladóttur, Stefáni Jarli Martin og Kristjáni Þóri Hauksyni, Lind fasteignasölu. Okkur hefur vegnað vel síðustu ár. Ég hef verið einstaklega lánsamur með fólkið í kringum mig og starfsfólk fasteignasölunnar er framúrskarandi á sínu sviði. Ég fór í háskóla árið 2015 og fékk löggildingu sem fasteignasali og er í dag framkvæmdastjóri Lind fasteignasölu og aðaleigandi.”

Trúði ekki að lífið gæti verið svona erfitt
Hvernig uppeldi fékkstu og hvernig var heimilislífið? „Ég á frábæra foreldra, karl faðir minn var frekar strangur en mamma var mýkri. Þau voru og eru hörkudugleg og lærdómurinn í uppeldinu var að maður þarf að hafa fyrir lífinu og vinna fyrir kaupinu sínu. Við systkinin vorum vel upp alin en ég á tvö systkini, Ragna Kolbrún, besta systir í heimi er átta árum eldri en ég og Sigfús bróðir er fimm árum yngri. Við bræðurnir vorum saman í herbergi fram að fermingu hjá mér en þá samdi ég við hann um að yfirgefa herbergið. Ég seldi honum hugmyndina um að hann fengi hluta af fermingarpeningum mínum ef hann myndi flytja í stofuna. Hann samþykkti það og á fermingardaginn var honum hent út, hann sér eftir því enn þann dag í dag,“ segir Hannes og hlær innilega en bætir því við að þeir bræður séu samt góðir félagar í dag. ,,Hann jafnaði sig á endanum.“ Hannes segir að það hafi verið mikil regla á æskuheimilinu. „Pabbi er múrari og sjómaður og vann mikið og þau bæði en hann vaknaði alltaf á slaginu sex og vakti okkur bræðurna allt of snemma að okkar mati. Ég fór svo að vinna með honum tvö sumur þegar ég var unglingur og ég trúði því ekki að lífið gæti verið svona erfitt, fann strax að ég vildi ekki verða múrari. Þetta var heldur betur góður skóli fyrir óharnaðan unglinginn. „Mamma passaði alltaf upp á mig og gerir enn, ég var nánast eins og
ungabarn langt fram eftir aldri,“ segir hann og hlær. „Mamma var alltaf að hringja og athuga með mig og vakti alltaf eftir mér og yfirheyrði mig þegar ég kom heim.“ Hannes rifjar upp eftirminnilegt atvik frá unglingsárunum þegar snúrusímar voru á verju heimili: ,,Pabba fannst ég tala of mikið í símann en þarna voru snúrulausir símar að koma á markað og ég bað pabba að kaupa einn slíkan. Hann hélt nú ekki, frekar ætlaði hann að stytta snúruna í símanum okkar svo ég þyrfti að standa kengboginn í símanum.“

Breytti öllu að fá ADHD greiningu
Hannes var greindur með ADHD þegar hann var þrítugur og segir að það hafi breytt miklu fyrir sig. „Að fá þessa greiningu og viðeigandi lyf breytti öllu, ég fór að sjá allt miklu skýrar, einbeitingin varð betri og ég kem þrisvar sinnum meiru í verk,“ segir hann og bætir við að það hafi ekki komið vinum hans á óvart þegar hann sagðist vera með greiningu.


En þá að allt öðru, hvað gerir þig hamingjusaman?

„Börnin mín, ég á þrjú yndisleg börn, Sara Nadía er 16 ára og hún er algjör gullmoli, róleg og yfirveguð og ótrúlega samviskusöm, alveg eins og mamma hennar. Svo er það Steindór Örn sem er 14 ára, hann er líkari mér, hann er orkumikill en ótrúlega góðhjartaður og ljúfur. Svo er það foringinn á heimilinu, Eva Nadía sem er 7 ára snillingur og mikill húmoristi og líkist móður sinni meira og meira með hverjum deginum. Ég er með þau aðra hvora viku og þegar þau eru hjá mér vinn ég minna og reyni að eyða sem mestum tíma með þeim en ég á tvær æðislegar barnsmæður sem báðar búa í Salahverfi.“

Hvers vegna bauðstu þig fram, þú hefur ekki áður verið viðriðinn pólitík?

„Ég hef búið í Kópavogi síðan ég var 12 ára og ætla að búa í Kópavogi þangað til ég verð 100 ára. Mig langaði einfaldlega að gera gagn í bænum og taka þátt í að byggja hann upp, númer eitt, tvö og þrjú. Þegar ég frétti að Ásdís Kristjánsdóttir væri bæjarstjóraefni flokksins hringdi ég í hana og sagðist vera klár í slaginn, hún er frábær leiðtogi en svo finnst mér líka spennandi að kljást við nýjar áskoranir. Ég brenn fyrir málefnum barna og það er mér hjartans mál að öll börn geti stundað íþróttir og tómstundir óháð fjárhag foreldra. Svo þarf að lyfta grettistaki í fasteignamálum í Kópavogi eins og alls staðar á landinu. Fyrst og fremst þarf að stytta alla ferla og brjóta land til að byggja meira. Það þarf að vera nægt lóðaframboð en það hefur ekki verið þrátt fyrir að Kópavogur hafi staðið sig einna best í þeim efnum. Það hefur mest verið byggt í Kópavogi undanfarin tuttugu ár en það þarf að gera betur og flýta þeim verkefnum sem hægt er að flýta. Svo vil ég leggja mitt af mörkum til að auka forvarnir og stuðla að lýðheilsu bæjarbúa,“ segir Hannes að endingu.