Hestamennska fyrir alla

426

Hestamannafélagið Sprettur hefur byggt upp glæsilega og skemmtilega aðstöðu fyrir hestamenn í Kópavogi. Sprettur er nú eitt stærsta ef ekki stærsta hestamannafélagið á landinu. Félagið býður uppá öflugt fræðslustarf og alla flóruna af reiðkennslu. Reiðmaðurinn er kenndur í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands. Töltgrúppa Röggu Sam sameinar konur sem áhuga hafa á hestmennsku og stundum mæta fleiri en 80 konur á æfingu. Þetta frumkvöðlastarf Röggu hefur vakið athygli um land allt og hún hefur verið beðin að vera með töltgrúppur í öðrum sveitarfélögum. Þá er hægt að taka knapamerkin eða skella sér á frumtamninganámskeið, sirkusnámskeið eða ýmis önnur styttri eða lengri námskeið. Æskulýðsstarfið er öflugt og nauðsynlegt er að hlúa vel að knöpum framtíðarinnar. Mikilvægt er að allir séu félagsmenn það er gott fyrir greinina og eflir félagsstarfið.

Reiðhallirnar eru þéttsetnar. Veislusalurinn er mjög vinsæll fyrir brúðkaupsveislur, afmæli og annan mannfögnuð. Áhugmannadeildin þarf sitt pláss til að æfa og keppa. Í vetur bættist síðan Meistaradeildin við, en hún var haldin í Spretti og í Víðidalnum. Auka þarf aðgengi fyrir hinn almenna reiðmann. Það er spurning hvort það þurfi að fara að huga að því að byggja aðra litla æfingahöll eða stækka stóru reiðhöllina um eitt bil.

Þá þarf að bæta lýsingu á reiðleiðum og fjölga reiðleiðum sem eru upplýstar þannig að á veturna sé mögulegt að velja um fleiri leiðir en Andvarahringinn eða “Latabæjarhringinn” eins og hann er stundum kallaður í góðlátlegu gríni. Í raun er ekkert því til fyrirstöðu að stunda þarna útreiðar allt árið um kring. Ef beitaraðstaða yrði bætt væri það hægt með góðu móti.
Tímabært er að fara að klára svæðið, snyrta það til og gera það vistlegra. Klára að malbika götur og bílaplan. Gróðursetja tré og klára að þökuleggja manir. Bæta umgengi um kerrustæðið og færa baggastæðuna á sinn stað. Huga þarf að ofanvatnslausnum og finna því vatni sem rennur niður úr hlíðunum inná keppnisvöllinn farveg þannig að svæðið allt verði hið glæsilegasta. Við getum gert þetta að flottasta reiðsvæði landsins.

Landsmót árið 2020
Landsmót hestamanna verður haldið af Spretti 2020. Mótið er uppskeruhátíð hrossaræktar á Íslandi en þar munu mörg glæsileg hross láta ljós sitt skína. Landsmót er umfangsmikið bæði hvað varðar keppnishlutann og fjölda hesta en einning sækir mikill mannsfjöldi mótið. Þetta er stærsti íþróttaviðbuður landsins enda er Landssamband hestmannafélaga þriðja stærsta sérsambandið inna ÍSÍ, með yfir 11.000 félagsmenn. Það er því mikilvægt að við verðum tilbúin og getum tekið það vel á móti öllum að þeir sjái að ,,það er snjallt að búa í Kópavogi.

Sigríður Kristjánsdóttir
Skipulagsfræðingur
Skipar 12. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi