Fréttir Hundrað loforð 09/05/2022 3005 1. Við lofum því að þessi listi verður opinber þannig að kjósendur geti fylgst með framgangi verkefna á kjörtímabilinu. Skólamál 2. Við ætlum að fjárfesta í framtíðinni og stíga næsta skref í stafrænni þróun sem eykur gæði náms nemenda og bætir vinnuumhverfi kennara. 3. Við ætlum að auka sjálfstæði grunn- og leikskóla sem helst í hendur við betra nám og vaxandi ánægju starfsfólks. 4. Við ætlum að auka sveigjanleika í skólum Kópavogs þannig að aukið rými er til að skipuleggja skólastarf og áherslur. 5. Við ætlum að treysta stjórnendum skóla til að finna hvernig hentugast er að haga deginum eftir að kennsluskyldu lýkur og afnema stimpilklukku í núverandi mynd. 6. Við viljum fjölga sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum, sem færir fjölskyldum aukið val. 7. Okkur er alvara með að afnema biðlista og að brúa bilið eftir fæðingarorlof þar til börn fá leikskólapláss. Við ætlum að fjölga dagvistunarúrræðum í hverfum þar sem þörfin er mest meðal annars með færanlegu húsnæði. 8. Við viljum að foreldrar hafi val og því tökum við upp 100.000 króna heimagreiðslur til foreldra barna frá tólf mánaða aldri sem kjósa að vera heima með barnið sitt þar til leikskólapláss fæst. 9. Við ætlum að samræma betur starfsumhverfi leik- og grunnskóla og skoða möguleika á breyttu skipulagi á skólastarfi í leikskólum Kópavogs. 10. Við ætlum að tryggja aukinn hvata til að vinna á leikskólum Kópavogs. Við viljum útvíkka og efla stuðning bæjarins til leikskólanáms og styrkja ófaglærða starfsmenn til að sækja námskeið. 11. Við styðjum þá stefnu að skólar Kópavogs nýti aðeins viðurkennd og umhverfisvottuð efni í starfi sínu. Reksturinn 12. Við ætlum að fjárfesta í stafrænum lausnum sem tryggja betri yfirsýn yfir rekstur bæjarins og sparar Kópavogsbúum tíma og peninga. 13. Við ætlum að auka gagnsæi í rekstri bæjarins með verkefninu „Hvað fáum við fyrir peningana?“ 14. Við viljum samþætta markvisst innkaup bæjarins með skýrum ramma og fastverðssamningum og spara þannig fjármagn bæjarbúa. 15. Við ætlum að lækka fasteignaskatta á íbúa og fyrirtæki Kópavogs. 16. Við ætlum að stilla öðrum gjöldum og álögum í hóf og leita leiða til að lækka þau. 17. Við ætlum að standa vörð um traustan og ábyrgan rekstur. Heilsuefling á öllum sviðum! 18. Við ætlum að hækka frístundastyrk barna og ungmenna í 70.000 krónur. 19. Við ætlum að veita starfsmönnum Kópavogsbæjar frítt í sund í sundlaugum Kópavogs. 20. Við viljum útvíkka frístundastyrkinn þannig að hann nýtist einnig á sumarnámskeiðum barna. 21. Við viljum að frístundastyrkurinn nýtist til almennrar heilsueflingar ungmenna en sé ekki takmarkaður eins og nú er. 22. Við ætlum að greina þarfir og móta stefnu næstu ára til að efla íþróttafélög bæjarins um uppbyggingu og viðhald innviða í samstarfi við félögin. 23. Við viljum að íþróttafélög bæjarins fái aukið sjálfstæði til smærri viðhaldsverkefna. 24. Við ætlum að útvíkka verkefnið Virkni og vellíðan þannig að það nái til fleiri eldri borgara. 25. Við ætlum að virkja eldri bæjarbúa með markvissum heimsóknum og fræðslu með það að markmiði að viðhalda heilbrigði, færni og sjálfstæði sem lengst. 26. Við viljum skoða möguleika á fjarþjónustu í lýðheilsumálum til að bæta líðan bæjarbúa sem standa höllum fæti. 27. Hollt mataræði stuðlar að betri líðan. Við ætlum að tryggja börnum og ungmennum ráðlagðan dagskammt af ávöxtum og grænmeti í grunnskólum Kópavogs. 28. Við ætlum að kanna möguleika á að byggja íþróttamenntaskóla í efri byggðum. 29. Við ætlum að hefja framkvæmdir á keppnisvelli HK. 30. Við ætlum að tryggja uppbyggingu á nýjum æfingavelli Breiðabliks í samræmi við fjölgun íbúa. 31. Við viljum tryggja að lýsing á Kópavogsvelli uppfylli alþjóðastaðla. 32. Við viljum samstarf við GKG um framtíðaruppbyggingu á svæðinu. 33. Við viljum stuðla að frekari uppbyggingu fyrir hestamenn í samstarfi við Sprett. 34. Við viljum skoða möguleika á að fullklára sundlaug í Kórnum. 35. Við viljum stuðla að áframhaldandi uppbyggingu í Bláfjöllum. 36. Við viljum bæta félagsaðstöðu fyrir félagsmenn Gerplu. 37. Við ætlum að búa til sérstaka áætlun sem snýr að því að efla forvarnir í geðheilbrigðismálum í grunnskólum og eftir tilvikum í annarri æskulýðsstarfsemi. 38. Við viljum að eldri íbúar sem vilja og geta búið heima hafi val um slíkt með réttum stuðningi frekar en að fara á hjúkrunarheimili. 39. Við viljum stuðla að samþættingu heimaþjónustu og heimahjúkrunar, sem skilar sér í betri þjónustu og bættri líðan hjá eldri borgurum. Hverfin okkar 40. Við ætlum að hafa skýra framtíðarsýn og tryggja að fjárfesting í innviðum haldist í hendur við fjölgun, hvort sem er í skólum, samgöngum eða öðrum innviðum. 41. Við viljum byggja upp íbúðakjarna fyrir eldri borgara að norrænni fyrirmynd. 42. Við ætlum að hlusta á sjónarmið ólíkra hagsmunaaðila þegar kemur að þéttingu byggðar. 43. Við ætlum að stuðla að skilvirkara skipulagsferli sem lækkar byggingarkostnað. 44. Við viljum að það sé hvati í stjórnsýslunni til að flýta skipulagsferlinu. 45. Við munum beita okkur fyrir greiðum samgöngum fyrir fjölbreyttan lífsstíl í takt við vaxandi bæ. 46. Við ætlum að standa vörð um hagsmuni Kópavogs í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. 47. Við boðum framsýna hugsun í skipulagsmálum. 48. Við ætlum að hefja strax þá vinnu að leggja Reykjanesbraut í stokk og skipuleggja græna byggð meðfram stokknum. 49. Við ætlum að horfa til nýrra tækifæra og efna til hugmyndasamkeppni um göng í gegnum hálsinn á Hafnarfjarðarvegi. 50. Við ætlum að klára framtíðarsýn við uppbyggingu á Hamraborgarsvæðinu. 51. Við ætlum að kanna möguleika á uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í Geirlandi. 52. Við ætlum að stuðla að sjálfbærum hverfum þannig að bæjarbúar geti mætt sem mestu af sínum daglegu þörfum í göngufæri frá heimilum sínum. 53. Við ætlum að tryggja að hverfi Kópavogs séu vistvæn með markvissu viðhaldi á götum og stígum. 54. Við ætlum að leggja fleiri upphitaða göngu- og hjólastíga í Kópavogi. 55. Við ætlum að auka öryggi gangandi og hjólandi með snjalllýsingu (gáfnaljósum) við gangbrautir. 56. Við ætlum að bæta lýsingu á göngu- og hjólastígum. 57. Við ætlum að merkja hjóla- og hlaupaleiðir í Kópavogi. 58. Við ætlum að fara í markvissa herferð við að merkja áhugaverða staði sem hafa sögu að segja. 59. Við ætlum að „rampa upp“ Kópavog til að bæta aðgengi hreyfihamlaðra. 60. Við viljum fjölga leiktækjum fyrir fötluð börn á skólalóðum og opnum svæðum. 61. Við ætlum að halda áfram uppbyggingu hjólastíga. 62. Við ætlum að vinna áfram að því markvisst að aðskilja gangandi og hjólandi á stígum Kópavogs 63. Við munum tryggja innviði sem bjóða upp á deilibíla og -hjól. 64. Við ætlum að mæla mengun og hljóðvist með nákvæmari hætti og koma með mótvægisaðgerðir í kjölfarið. 65. Við munum breyta ásýnd Kópavogshafnar og byggja upp yndishöfn. 66. Við ætlum að byggja upp sjóbaðsaðstöðu vestast á Kársnesinu. 67. Við ætlum að setja upp stökkbretti við Kópavogshöfn 68. Við ætlum að finna nýja staðsetningu fyrir Sorpu á Dalvegi. 69. Við ætlum að ráðast í endurbætur í Kópavogsdal þannig að meiri þjónusta verði í boði fyrir þá sem dalinn sækja. 70. Við viljum sjá nýtt skólahverfi rísa í Vatnsendahlíð. 71. Við leggjum áherslu á aukna þjónustu og verslun í efri byggðum. 72. Við ætlum að hlusta á ykkar sjónarmið og skipuleggja færanlegar starfsstöðvar í hverfum Kópavogs. 73. Við ætlum að auka samtal við íbúa og halda tíðari hverfisfundi yfir árið. 74. Við viljum skoða möguleika á skautasvelli í Kópavogi í desember. Snjallar lausnir 75. Við ætlum að uppfæra stafræna þjónustu þannig að erindum íbúa sé svarað fljótt og örugglega. 76. Við ætlum að fjárfesta í Kópavogsappi þar sem bæjarbúar geta með einum smelli í símanum lesið upplýsingar eins og hvenær ruslið er tekið eða götur sópaðar, hvar finna má græn svæði eða göngu- og hjólastíga í nærumhverfi svo dæmi séu tekin. 77. Við ætlum að gera Kópavog enn betri með bæjarbúum með því að útvíkka verkefnið Okkar Kópavogur og hlusta á unga fólkið okkar og heyra hugmyndir þess. Sömuleiðis fá sýn barnafjölskyldna, eldri bæjarbúa og starfsfólks bæjarins. 78. Við viljum stuðla að lifandi bæjarfélagi sem býður upp á fjölbreytta viðburði. 79. Við ætlum að setja upp heildstætt viðburðadagatal Kópavogs sem verður aðgengilegt í síma allra bæjarbúa – í Kópavogsappinu. Listir og menning 80. Við ætlum að efla lista- og menningarlífið í bænum með markvissum hætti. 81. Við ætlum að úthluta árlega menningarávísun til Kópavogsbúa og efla og hvetja til þátttöku bæjarbúa að stunda eigin menningarhús. 82. Við viljum vinna markvisst að því að fá fleiri erlenda listamenn og þekktar listahátíðir í Kópavog. 83. Við sjáum tækifæri til að tengjast betur upprennandi listamönnum í samstarfi við fagaðila og listaskóla. 84. Við ætlum að stuðla að virkri listsköpun með því að auðvelda listafólki að skapa sína eigin viðburði í Kópavogi. 85. Við viljum efla menningarhúsin í Kópavogi með enn frekara samstarfi þeirra á milli. 86. Við viljum lystagarð við menningarhús Kópavogs. 87. Við ætlum að finna hentuga staðsetningu fyrir menningarmiðstöð í efri byggðum. Græn vegferð 88. Við ætlum að leggja áherslu á græn og sjálfbær hverfi. 89. Við ætlum að taka þátt í orkuskiptunum af krafti og gera fyrirtækjum kleift að byggja upp hleðslustöðvar við helstu stofnanir bæjarins. 90. Við ætlum að stunda umhverfisvæn innkaup og gera kröfur til birgjanna okkar. 91. Við stefnum að því að Kópavogur verði pappírslaust sveitarfélag – fyrst allra sveitarfélaga á Íslandi. 92. Við sjáum tækifæri til að stuðla að aukinni þátttöku deilihagkerfis. 93. Farsæl samfélög eru leiðandi í að efla hringrásarhagkerfið og við horfum til aukinna tækifæri á því sviði. 94. Við ætlum að laða til bæjarfélagsins fyrirtæki sem eru á umhverfisvænni vegferð. 95. Við ætlum að setja okkur loftslagsstefnu og innleiða hana með kraftmiklum hætti. 96. Við ætlum að gróðursetja markvisst á opnum svæðum í bænum. 97. Við viljum markvisst setja fræðsluáætlun í gang fyrir bæjarbúa um grænan lífsstíl og hvetja Kópavogsbúa til að taka þátt í grænu byltingunni. Sækjum fram 98. Kópavogur er í forystu á höfuðborgarsvæðinu þegar litið er til fjárhagsstöðu, samgöngumála, almennrar þjónustu, leikskóla og grunnskóla. Við ætlum að nýta tækifærið og laða til bæjarins fólk og fyrirtæki sem styrkja tekjustofna bæjarins. 99. Við ætlum að byggja upp Grósku Kópavogs með hátækniklasa í efri byggðum og nýsköpunarklasa í neðri byggðum. 100. Við ætlum að efla samstarf við Háskólann í Reykjavík, sem tengist Kópavogi með nýrri Fossvogsbrú á kjörtímabilinu.