Hvað er til ráða fyrir ungt duglegt fólk sem vill eignast húsnæði ?

400

 

Eitt af stærri málum samtímans hér á landi eru húsnæðismál. Staðan er enn þannig að nær ómögulegt er fyrir fólk að komast í eigið húsnæði, verðin eru einfaldlega alltof há. Ástæðurnar eru auðvitað fyrst og fremst þær að alltof lítið var byggt á árunum eftir hrun. Því jafnvel þótt menn gerðu sér grein fyrir þörfinni þá höfðu engir fjármagn eða lánstraust til að hefjast handa við að byggja.

Og enn er staðan sú að um algeran seljendamarkað er að ræða, margir bítast um sömu eignina og hæstbjóðandi er oft komin langt umfram það sem hann raunverulega getur staðið undir. En viðmiðið er gjarnan alltof hátt leiguverð á markaði þar sem sömu frumskógarlögmál gilda og öryggið er enn minna.

Nú er það svo að allir sem tilheyra byggingabransanum eru á fullu og fréttir berast af því að erfitt sé að fá menn úr þeim stéttum í hefðbundin verk. Þannig að innan tíðar mun rætast úr þessum málum eins og öðrum.

Til að svara eftirspurninni þarf að byggja á höfuðborgarsvæðinu 1600 til 2000 íbúðir á ári næstu fjögur til fimm árinn. Eftir það er eðlileg íbúðar þörf áætluð um 1400 íbúðir á ári. Vonandi er það rétt sem talað er um að jafnvægi verði náð í húsnæðismálum innan fjögurra til fimm ára og hér ríki eðlilegt ástand milli seljenda og kaupenda.

Núna virðist mesta eftirspurnin vera eftir litlum íbúðum, bæði er það vegna þess að verð eru há á hverjum fermetra og fólk verður að sætta sig við að kaupa minna húsnæði, en einnig hafa fjölskyldur minnkað. Þetta þýðir auðvitað að enn fleiri einingar þarf fyrir sama fjölda.

Þessu til viðbótar hefur koma erlendra ferðamanna hingað aukist töluvert og þar af leiðandi eftirspurn eftir húsnæði. Mikið af iðnaðarmönnum er á fullu við að byggja hótel og annað tengt ferðaþjónustu, sem er auðvitað jákvætt en hefur vissulega áhrif á markaðinn.

Með einhverjum leiðum þarf að tryggja að það íbúðarhúsnæði sem byggt er komi í almenna sölu. það gengur ekki að stór leigufélög kaupi upp heilu blokkirnar og jafnvel hverfin, til að viðhalda skorti á markaði og óeðlilega háu leiguverði. Sérstaklega er það óeðlilegt ef þessháttar félög eru að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða og vinna þannig gegn eigendum sínum.

Hvað er til ráða fyrir ungt,duglegt fólk sem vill eignast húsnæði ?

Það er raunverulega ekkert nema gamla aðferðin, vinna mikið ,vinna, vinna, vinna en þá má skattkerfið ekki virka þannig að það sé letjandi fyrir duglegasta fólkið. Það verður að lækka skatta þannig að þetta unga duglega fólk geti unnið sér inn fyrir útborgun.  Samt mun meira koma í ríkiskassann og allir græða. Ef skatturinn er ekki “sanngjarn” þá leita menn einfaldlega annara leiða og taka við svörtum greiðslum fyrir aukavinnuna.

Hér í Kópavogi hafa yfirvöld reynt aðgera vel til að aðilar nái að metta þessa miklu eftirspurn, verið er að byggja þétt hverfi á fimm stöðum í bænum.  Miklar kröfur eru gerðar til byggingaaðila hvað varðar útlit og frágang húsanna sem og frágang allra hverfanna. Þessi hverfi eru mismunandi en hafa öll fjölbreytilegar stærðir íbúða. Í öllum þessum hverfum er hugsað um nærþjónustu í göngufæri sem og skóla, leikskóla, íþróttaaðstöðu og útivistarsvæði.

Það er gaman að fá að taka þátt í að móta þessi hverfi og sjá Kópavog þróast og dafna á þennan hátt. Íbúar Kópavogs eru kröfuharðir og augljóst að metnaður skipulagsyfirvalda í bænum er mikill.

Það er einnig gríðarlegur metnaður hjá öllu því vel menntaða fólki sem er að störfum í dag á vegum byggingaaðila og því hrein unun að sjá hve vel hönnuðir og þeim sem á eftir þeim koma leysa sín verk. Við erum nú að sjá í Kópavogi rísa hús og hverfi sem taka öðru fram sem áður hefur sést  hér á landi hvað varðar útlit og notagildi og eru sniðin að mismunandi þörfum íbúa.

Höfundur: Guðmundur Geirdal, bæjarfulltrúi