Hvaða leið vilt þú fara?

400

Í pólitík greinir menn á um leiðir en markmiðin eru væntanlega þau sömu að búa til tækifæri  í íslensku samfélagi fyri einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki.  Í mínum huga er góð staða efnahagsmála forsenda allra annarra þátta í samfélaginu. Hún er forsenda þess að fólk hafi vinnu, hún er forsenda þess að  hægt sé að auka kaupmátt  og hún er forsenda þess að hér sé hægt að byggja upp öflugt velferðar – og menntakerfi  og viðhalda því.

Það eru ýmsar leiðir til þess  en ég vil búa í samfélagi þar sem einstaklingnum er treyst og honum tryggt frelsi til athafna.  Ég vil búa í samfélagi þar sem atvinnulífinu eru skapaðar aðstæður til að eflast  og þar sem fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins.  Þess vegna er það er bjargföst skoðun mín að grunngildi sjálfstæðisstefnunnar eigi nú sem aldrei fyrr brýnt erindi við fólkið í landinu.

Verkefnin framundan eru mörg og viðamikil en áherslu verður að leggja á lækkun skulda ríkissjóðs, fram hjá því getur enginn stjórnmálaflokkur litið. Við verðum að mynda samstöðu og hafa skýra sýn á nýjar leiðir í efnahagsmálum þar sem megin áhersla verður á stöðugleika og vöxt. Við þurfum að setja okkur sameiginlega markmið um að loka fjárlagagatinu, um raunhæfar aðgerðir fyrir heimilin, að bæta umhverfi atvinnulífsins, skapa því umhverfi sem leiðir af sér kjarabætur til launaþega, kjarabætur sem haldast í hendur við verðmætasköpun í landinu þannig munum við komast áfram.

Við erum mörg þeirrar skoðunar að öflugt atvinnulíf sé forsenda velferðar og menntunar og forsenda þess að við getum tekið á fjárhags – og lánavanda heimila í landinu. Við vitum  mæta vel að hagur heimilanna byggir á atvinnu og öryggi, hvorki skuldavandanum né hinum félagslega vanda verður eytt nema fólk hafi vinnu, hafi tekjur til að greiða niður lánin og ráðstöfunartekjur til að leyfa sér og börnum sínum að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.

Þess vegna er meginmarkmið okkar sjálfstæðismanna að fá til þess umboð í kosningunum 2013 að skapa hér samfélag þar sem allir geti fundið kröftum sínum farveg, þar sem velferð og öryggi borgaranna er tryggt, þar sem lífskjör jafnast á við það sem best gerist í heiminum og þar sem frelsi, ábyrgð og virðing fyrir einstaklingum er höfð í hávegum.

Ef þú ert mér sammála um leiðir þá eigum við samleið í kosningunum 27. apríl.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.