Íþrótta og lýðheilsubærinn

512

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi hefur myndað stjórn að afloknum kosningum í vor tel ég rétt  að Kópavogur marki sér ferðamálastefnu.

Að mínu mati ætti sú stefna að byggast á styrkleikum bæjarins, sem eru m.a. nálægð við einstaka náttúru svo til í bakgarðinum hjá okkur eins og Bláfjöll, Þríhnjúkar og Heiðmörkin.  Þessar náttúruperlur er hægt að heimsækja og njóta með dagsferðum úr bænum.

En mesti styrkleiki Kópavogs að mínu mati og kannski það sem bærinn er þekktastur fyrir er hið öfluga íþróttalíf sem samstaða hefur myndast um að byggja hér upp undanfarin ár.

Árangur Íþróttafólks úr Kópavogi er einstakur á alla mælikvarða. Á það á við um flestar íþróttagreinar.

Svo mjög góður er hann að eftir er tekið um allan heim. Forsvarsmaður hjá eini íþróttarfélaginu hér í bæ sagði mér að ekki liði svo vika að hann væri ekki beðinn um viðtal frá erlendum miðlum til að svara fyrir þann góða árangur sem iðkendur hjá félaginu hefðu náð.

Þetta gerist ekki að sjálfu sér. Að baki þessa árangurs er þrotlaus vinna fólks. Þjálfara og foreldra  sem hafa trú á börnunum sínum og hvetja þau áfram og styðja í flestu sem þau taka sé fyrir hendur.

Annað lykilatriði er samt auðvitað að fólkið í bænum, Kópavogsbúar, hafa haft gæfu til að kjósa sér bæjarstjórnir sem hafa  þann metnað fyrir hönd íþróttanna að byggja mannvirki sem toppa allt sem þekkist hér á landi og jafnvel víðar.

Kópavogsbær státar af tveimur knatthöllum, tveimur fimleikahúsum, hestaíþróttaaðstöðu sem er sú besta sem völ er á, úrvals golfvelli og flottri aðstöðu fyrir flestar íþróttagreinar, ásamt auðvitað frábærum sundlaugum.

Þessu til viðbótar eru nú uppi áform um að hefja snjóframleiðslu í skíðabrekkum í Bláfjöllum ásamt endurnýjun skíðalyftana þar.

Kópavogur er sannarlega íþróttabær og þar tel ég að tækifærin liggi einna helst. Við eigum í samstarfi við íþróttafélögin að bjóða uppá æfingabúðir í hinum ýmsu greinum, fá til okkar færustu þjálfara íslenska sem erlenda og bjóða gestum að koma og taka þátt ásamt íslenskum  iðkendum.

Sumrin eru sá tími sem íþróttahúsin eru kannski hvað minnst notuð og er þá sérstaklega færi til að nýta þau enn betur. Útiaðstaðan býður að sjálfsögðu uppá endalausa möguleika.

Hugsið ykkur hvað þetta væri frábært. Með þessum iðkendum myndi koma fullt af aðstandendum og bærinn myndi iða af lífi. Fólki sem myndi gista og kaupa þjónustu. Tekjur sem af þessu hlytust mætti síðan nota til að byggja enn frekar upp, ásamt því að okkar iðkendur fengju auðvitað heimsklassa þjálfun heima.

Íþrótta og lýðheilsubærinn Kópavogur. 

Guðmundur Gísli Geirdal
Bæjarfulltrúi
Skipar 5. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi