fbpx

Áherslur okkar

Íþróttir og lýðheilsa fyrir alla

Lýðheilsa er mikilvæg fyrir Kópavogsbúa á öllum aldri og við viljum stuðla að vellíðan á öllum aldursskeiðum. Við viljum vera framúrskarandi samfélag þegar horft er til aðstöðu til hreyfingar í nærumhverfi barna og eldri borgara. Kópavogsbær er heilsueflandi samfélag og verður það áfram!

Íþrótta- og æskulýðsfélög bæjarins gegna mikilvægu forvarnarhlutverki fyrir unga sem aldna í bæjarfélaginu. Við viljum standa vörð um það góða starf sem þar fer fram enda skipar það mikilvægan sess í bæjarfélaginu. Við sjáum tækifæri til að samþætta betur heimaþjónustu og heimahjúkrun eldri borgara. Slíkt skilar sér í skilvirkari og betri þjónustu til notenda. Mikil þróun er nú í fjarþjónustu í lýðheilsumálum og við ætlum að vera leiðandi á því sviði. 

 

 

  • Rannsóknir sýna að skipulagt íþrótta- og tómstundastarf er mikilvægur þáttur í forvarnastarfi barna og ungmenna. Við viljum hækka frístundastyrk barna og ungmenna í 70.000 krónur til að auka möguleika fleiri barna að stunda íþróttir og tómstundastarf í Kópavogi.
  • Greinum þarfir og mótum stefnu næstu ára til að efla íþróttafélög bæjarins við uppbyggingu og viðhald mannvirkja á sviði íþrótta og tómstunda í samstarfi við félögin. 
  • Við viljum að íþróttafélög bæjarins fái aukinn sveigjanleika í rekstri enda vita stjórnendur þeirra hvernig fjármununum er best varið. 
  • Verkefnið „Virkni og vellíðan“, sem miðar að því að styrkja líkamlega, andlega og félagslega heilsu eldri borgara, hefur reynst vel og við viljum útvíkka og efla það enn frekar.  Mikilvægt er að verkefnið nái til fleiri eldri borgara þannig að allir fái tækifæri til heilsueflingar allt árið um kring.
  • Við viljum að eldri íbúar sem vilja og geta búið heima hjá sér hafi val um slíkt með réttum stuðningi frekar en að fara á hjúkrunarheimili. 
  • Við viljum stuðla að samþættingu heimaþjónustu og heimahjúkrunar sem skilar sér í betri þjónustu og bættri líðan hjá eldri borgurum.
  • Hollt mataræði stuðlar að betri líðan. Við viljum tryggja börnum og ungmennum í Kópavogi ráðlagðan dagskammt af ávöxtum og grænmeti í öllum skólum Kópavogs. 
  • Við viljum efla forvarnir í geðheilbrigðismálum, vinna með ungu fólki og tryggja vellíðan allra bæjarbúa. Þar þurfa skólar, félagsþjónusta, æskulýðsfélög og aðrir að vinna náið saman.