Íþrótta- og tómstundastyrkurinn í kr. 54.000,-

407

Til þess að styðja við barnafjölskyldur teljum við hjá Sjálfstæðisflokknum að nú sé rétti tíminn til þess að tvöfallda íþrótta- og tómstundastyrkinn. Þannig tryggjum við að öll börn geti sinnt frístundastarfi, óháð efnahag foreldra. Styrkurinn verður þannig breyttur 54.000 á ári og að einnig verði hægt að nota hann til tónlistarnáms. Auk þess teljum við rétt að hægt verði að nota styrkinn á einn stað ólíkt núverandi fyrirkomulagi þar sem nota þarf styrkinn í tvær íþróttagreinar. Fyrir fjölmargar fjölskyldur er því verið að fjórfalda íþróttastyrkinn þar sem mörg börn stunda eina íþrótt. Þessar breytingar teljum við nauðsynlegar og í raun eðlilegt framhald af því sem hingað til hefur verið gert.

Kópavogsbær er sannkallaður íþróttabær Íslands. Á síðustu árum hafa verið byggð upp íþróttamannvirki í fremstu röð. Bæjarbúum hefur fjölgað mikið og börnin sótt leik og keppni í íþróttamannvirkin. Á sama tíma hefur öflug sveit sjálfboðaliða staðið vaktina í íþróttafélögunum ásamt frábærum hóp þjálfara og annarra starfsmanna. Nú er til dæmis svo komið að ekki verður komist hjá því taka eftir fulltrúum Breiðabliks, HK eða Gerplu á íþróttaviðburðum enda oftast hlutskipti þeirra að mæta með flesta keppendur á íþróttaviðburði, hvert á sínu sviði. Árangurinn hefur heldur ekki látið á sér standa og skipum við okkur þar í fremstu röð bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi.

Öflugt íþróttastarf blómstrar ekki sjálfkrafa. Fyrst og fremst eru það jú fólkið sem kemur að starfi félaganna sjálfra eins og að framan greinir og sú aðstaða sem þeim hefur verið búin. Hins vegar má einnig nefna að í mörg ár hefur Kópavogsbær verið með sérstaka rekstrar og þjónustusamninga við stærstu íþróttafélögin og komið þannig að þeirra innra starfi. Það er hið margsannaða forvarnargildi íþrótta og tómstundastarfs sem litið hefur verið til. Með samningunum hafa félögin fengið stuðning til að halda úti enn öflugra innra starfi sem hefur leitt til þess að öll yfirsýn og stjórnun verður betri en ella.

Samhliða því að rekstur Kópavogsbæjar hefur gengið vel á undanförnu og svigrúm myndast til að auka þjónustu teljum við rétt að horfa nú enn frekar inn á við í starfi félaganna. Því sé rétt að tvöfallda íþrótta- og tómstundastyrkinn á næsta kjörtímabili. Með því að heimila einnig notkun á öllum styrknum á einn stað fjórfalldast í raun styrkurinn í mörgum tilvikum. Við erum sannfærð um að þessar breytingar munu styðja enn frekar við að öll börn geti sinnt frístundastarfi óháð efnahag foreldra. Aukum við þannig tækifæri ungra Kópavogsbúa til þess að stunda íþróttir eða tónlistarnám.

Áfram Kópavogur

Jón Finnbogason, 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins