Íþróttabærinn Kópavogur

349

Ólympíumeistara og heimsmeistara! Það sem meira er um vert, öll voru þessi afrek unnin á árinu 2012. Það segir líka sína sögu að í tíu efstu sætunum á lista íþróttafréttamanna yfir bestu íþróttamenn síðasta árs voru hvorki fleiri né færri en átta íþróttamenn sem búa í Kópavogi eða haft æft og keppt fyrir hönd íþróttafélaga í bænum. Ég vil því nota tækifærið og óska íþróttafólki í Kópavogi til hamingju með frábæran árangur.

Íþróttafólk, frá 13 ára aldri, var heiðrað og verðlaunað á hátíðinni, en tvö voru útnefnd sem íþróttakarl og íþróttakona ársins 2012, þau Jón Margeir Sverrisson, sundmaður úr Fjölni/Ösp og Íris Mist Magnúsdóttir, fimleikakona úr Gerplu. Þau unnu stóra sigra á síðasta ári sem kunnugt er og tíundað hefur verið í fjölmiðlum hér heima og erlendis.

Kópavogur hefur valið íþróttakarl og íþróttakonu ársins allt frá árinu 1998, fyrst sveitarfélaga, og í ár eins og undanfarin ár var hópurinn sem kom til greina stór og öflugur og íþróttagreinarnar fjölbreyttar. Íþróttafélögin komu með sínar tilnefningar og í fyrsta sinn gafst bæjarbúum kostur á að senda inn eigin tillögur. Þannig gátu þeir haft áhrif á valið og endurspeglar reyndar ágæt þátttaka þeirra hinn mikla og sívaxandi íþróttaáhuga í bænum.

Kópavogur er sannkallaður íþróttabær. Hér hefur verið lögð rík áhersla á góða íþróttaaðstöðu, hér eru glæsileg íþróttamannvirki og öflug og vel skipulögð íþróttafélög. Síðast en ekki síst er þessum góða árangri að þakka kraftmikið starf foreldra og annarra sjálfboðaliða en án þeirra væri íþróttastarfið í bænum ekki svipur hjá sjón. Allt helst þetta í hendur og sameiginlega hefur okkur öllum tekist að skapa umhverfi sem hvetur ungt fólk til að hreyfa sig og stunda heilsusamlegt líferni. Það er auðvitað höfuðmarkmiðið.

Íþróttafólkið okkar sem verðlaunað var á íþróttahátíðinni í Salnum er ekki einungis afreksfólk á sínu sviði, heldur líka góðar fyrirmyndir sem minna okkur á að með dugnaði og elju er hægt að ná þangað sem að er stefnt.