Jákvæð teikn í Kópavogi

401

Um áramót er ánægjulegt að líta yfir farinn veg og sjá hversu vel hefur gengið hjá Kópavogsbæ að vinna úr þröngri stöðu síðustu ára. Bærinn hefur náð viðspyrnu á ný og hefur staða sveitarfélagsins styrkst til muna. Við höfum gætt aðhalds í rekstri en um leið lagt ríka áherslu á að verja grunnþjónustuna; velferðarkerfið og skólana. Nánast hvert sem litið er sjáum við jákvæð teikn um að við séum á réttri leið.

Við greiddum upp stórt erlent lán á árinu 2013 enda er stefnan sú að lækka skuldir bæjarins hratt og örugglega og að endurfjármagna óhagstæð lán á betri kjörum. Hækkun á lánshæfismati bæjarins fyrr á árinu hefur hjálpað til á þessari vegferð og eru lánakjör bæjarins orðin mjög hag- stæð. Rekstur bæjarins sýnir vaxandi styrk en í fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur verði rúmir 600 milljónir króna miðað við fyrirliggjandi forsendur. Slíkar tölur hafa ekki sést frá hruni en þetta er nálægt því að vera fimm sinnum meiri afgangur en í síðustu fjárhagsáætlun.

Nýtum ekki hámarksútsvar
Annað árið í röð lækkum við fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði og nú í desember var ákveðið að halda gjaldskrám óbreyttum um áramót í leik- og grunnskólum svo og matargjaldi og gjaldi fyrir heimilishjálp eldri borgara með það að markmiði að draga úr verðbólgu. Auk þess var ákveðið fyrir jól að bærinn myndi ekki nýta sér hámarksútsvar sem þýðir að tekjuskattsprósenta Kópavogsbúa mun lækka örlítið á nýju ári.

Tækifærin hafa verið vel nýtt og hvergi gefið eftir. Skólar í Kópavogi koma vel út úr samræmdum prófum, foreldrar gefa leikskólum góða einkunn í viðhorfskönnunum og nú nýlega bárust okkur þau ánægjulegu tíðindi að í PISA-rannsókn OECD standa grunnskólanemendur í Kópavogi jafnfætis eða jafnvel framar nemendum í sambærilegum sveitarfélögum annars staðar á Norðurlöndunum í lesskilningi og í læsi á stærðfræði. Það sem meira er um vert; Kópavogur kemur betur út úr PISA-rannsókninni nú en árið 2009 og er því á uppleið.

Kópavogsbær er allur að lifna við; framkvæmdir að glæðast, úthlutun lóða gengur vel og fyrirtæki sjá augljósan hag í því að staðsetja sig í Kópavogi, á miðju höfuðborgarsvæðisins. Víða má sjá byggingarkrana og á Rjúpnahæð er stundum talað um kranaskóg, svo öflug er uppbyggingin. Þá fer fyrir næsta bæjarstjórnarfund nýtt skipulag í Glaðheimum og má nú þegar finna fyrir eftirspurn eftir byggingarrétti á þeim stað. Tekjurnar af sölu verða notaðar til að greiða niður skuldir enn frekar. Í ljósi alls þessa sem að framan greinir er ekki annað hægt en að vera bjartsýnn fyrir hönd Kópavogsbæjar. Ég hef áður sagt og hef ekki breytt um skoðun, að Kópavogur hefur alla burði til þess að vera best rekna sveitarfélag landsins í lok næsta kjörtímabils. Ég óska Kópavogsbúum og landsmönnum öllum farsældar á nýju ári.

Höfundur er bæjarstjóri Kópavogs.
Grein birtist í Morgunblaðinu á bls. 50 þann 31. desember 2013.