Jóhann Ísberg

599

Jóhann Ísberg 2-4. sæti.

Jóhann hefur verið varabæjarfulltrúi á síðasta kjörtímabili og setið í skipulagsnefnd Kópavogs. Jóhann var formaður Sjálfstæðisfélags Kópavogs 2005-2011, í stjórn fulltrúaráðs síðan 2006, hefur setið í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins síðan 2011 auk margra annarra trúnaðarstarfa.

Jóhann hefur margsháttar starfsreynslu, hóf atvinnurekstur 18 ára samhliða mennta- og háskólanámi og hefur starfað við ýmislegt, allt frá sjómennsku að framhaldsskólakennslu. Síðastliðna tvo áratugi hefur hann starfað sjálfstætt að ferðamálum,  ljósmyndun, útgáfu og netkerfum fyrir ljósmyndasöfn. Eftir hann liggja nokkrar ljósmynda- og tónlistarbækur auk aðkomu að verkum annarra. Jóhann á mjög stórt, ítarlegt ljósmyndasafn alls staðar af Íslandi sem hann hefur tekið á undanförnum áratugum.

Horft til framtíðar

Ég vil horfa til framtíðar og næstu kjörtímabila. Eftir tiltölulega fá ár verður heimaland Kópavogs fullbyggt og einnig endurbótasvæði í eldri bæjarhlutum. Þá verður Kópavogur að vera sterk sjálfbær eining því vaxtarmöguleikar verða litlir eftir það. Það er því mikilvægt að þessi tími verði notaður til að fullnýta þær fjárfestingar sem þegar eru í bænum og standa skynsamlega að þeim sem bætt verður við.

Fullbyggt heimaland Kópavogs rúmar nálægt 50.000 íbúum með góðu móti. Miðað við söguna og ásókn fólks að búa í Kópavogi grunar mig að styttri tíma taki að ná þeirri stærð en margir halda. Á þeim tímapunkti verður erfiðara að auka tekjur eða minnka útgjöld svo nauðsynlegt er að setja okkur sem fyrst þau markmið sem við viljum stefna að. Þau eru einfaldlega: Útsvar og gjöld sem eru með því lægsta sem þekkist, þjónusta við íbúa sem er með því besta sem þekkist og fallegur bær þar sem íbúum líður vel.

 Gott skipulag og hagkvæm nýting

Gott skipulag bæjarins er grundvöllurinn að því að ná slíkum markmiðum. Þétting byggðar á miðsvæði bæjarins og uppbygging endurbótasvæða eykur tekjur vegna fjölgunar íbúa. Því fylgir hlutfallslega lítilli kostnaðaraukningu vegna öflugrar innri uppbyggingar sem þegar er til staðar. Sama gildir um nýbyggingarsvæðin að nokkru. Með sölu þeirra lóða sem eftir eru í heimalandinu í eigu bæjarsjóðs ætti einnig að vera hægt að greiða allt að helming skulda Kópavogs og lækka þannig fjármagnskostnað verulega.

Þannig má fullnýta fjárfestingar í skólabyggingum, íþróttamannvirkjum, stjórnsýslunni, samgöngumannvirkjum og veitum og gera rekstur bæjarins  hagkvæmari eftir því sem hann vex. Einnig er mikilvægt að styðja við atvinnustarfsemi í bænum að því marki sem sveitafélaginu er mögulegt með góðri aðstöðu og starfsumhverfi og lágum gjöldum.

Framsýni og kraftur

Því fyrr sem við setjum kraft í málin og stöndum kröftuglega að þessum verkefnum því fyrr munum við sjálf njóta ávaxtanna. Lagnstærstur hluti útgjalda bæjarsjóðs fer í skóla- og félagsmál; uppeldi og menntun barnanna okkar, umönnun aldraðra og þeirra sem minna mega sín. Til þess að standa að þeim málum með þeim hætti sem við öll viljum þarf sterka tekjustofna og hagkvæman rekstur. Í því felast framtíðarmöguleikar Kópavogs.

Hægt er að ná í Jóhann í síma 893-8909 eða í joiisberg@gmail.com

Hægt að fá nánari upplýsingar um Jóhann á vefsíðunni:www.facebook.com/joiisberg