Kársnesið; fjölbreytt mannlíf með nýjum veitingastöðum, kaffihúsi, Sky Lagoon og Fossvogsbrú.

728

Kársnesið hefur gengið í endurnýjun lífdaga undanfarið ár. Í metnaðarfullri og vel heppnaðri uppbyggingu hafa risið fjölbýlishús, bæði í bryggjuhverfinu og vestast á Kársnesi, sem hafa glætt þetta gamalgróna og sjarmerandi hverfi fjölbreyttu mannlífi.

Í tengslum við þessa uppbyggingu er nú kominn langþráður veitingastaður vestarlega á Kársnesinu, Brasserie Kársnes og veitingastaðurinn Mossley, við Sundlaug Kópavogs sem var opnaður fyrir stuttu. Auk þess er bakaríið Brikk líka búið að opna upp dyrnar en það er vinsælt bæði hjá íbúum og einnig útivistarfólki, enda liggur það í alfaraleið bæði göngu, hjóla og hlaupafólks sem eiga leið um Kársnesið.

Það er nefnilega eins og við íbúar í Kópavogi og nágrenni vitum alveg frábært að ganga í kringum Kársnesið, njóta nálægðar við sjóinn og  fegurðar umhverfisins. Fleiri íbúar skapa svigrúm fyrir meiri þjónustu og ég efast ekki um að á næstu árum mun fjölga verslun og þjónustu á Kársnesinu.

Samhliða uppbyggingu er verið að bæta göngu- og hjólastíga, hlúa að opnum svæðum og gera útivistina í hverfinu enn betri hún er nú þegar. Sundlaug Kópavogs stendur alltaf fyrir sínu, Rútstúnið er mjög gott útivistarsvæði og þar hefur verið bætt við leiktækjum undanfarið ár.

Íbúar í Vesturbæ Kópavogs njóta einnig nálægðar við Menningarhúsin sem eru glæsileg og umhverfið þeirra ekki síður. Túnið við húsin er eftirsótt af börnum og fullorðnum þegar vel viðrar og gaman að fylgjast með mannlífinu þar.

Á síðasta ári bættist svo einn ein rós í hnappagatið í afþreyingu á Kársnesi þegar Sky Lagoon hóf starfsemi sína. Það er upplifun að fara í lónið sem er mjög vel heppnað, enda hefur það vakið heimsathygli og slegið í gegn hjá Íslendingum sem og ferðamönnum.

Framundan er svo brú yfir Fossvog, sem mun auka lífsgæðin á Kársnesi enn frekar með bættum almenningssamgöngum þar sem áherslan verður á tíðar ferðir og leiðin greikkuð á marga af stærstu vinnustöðum landsins, Landspítala, Háskólana, svo eitthvað sé talið.  Brúin verður frábær fyrir útivistarfólk, bæði þá sem ganga og hjóla og ekki efi í mínum huga að mikil ánægja verður með hana.

Þessi einstaka samsetning á Kársnesinu, þar sem náttúra, þjónusta og fjölbreytt byggð miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu mætist, hefur gert það afar eftirsótt til búsetu. Næstu svæði sem eru í skipulagi og fyrirhugaðri uppbyggingu hjá okkur á Kársnesinu eru vestast, í kringum höfnina. Það verður spennandi að fylgjast með þeirri uppbyggingu á þessum fallega stað. Við sem erum í forsvari í bænum munum að sjálfsögðu gæta þess að umhverfi nýrra bygginga sé í góðri sátt við útivistarmöguleikana sem umhverfið býður upp á, það verða stígar og opin svæði sem munu gera svæðið aðlaðandi fyrir íbúa og gesti.

Ég set þessi orð á blað til að minna ykkur, íbúa Kópavogs, á hversu vel hefur tekist til í þróun byggðarinnar hér í Kópavogi. Eftir markvissa skipulagsvinnu og uppbyggingu er Kársnesið að verða mest spennandi hverfi á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram leggja áherslu á vegferð uppbyggingar og fjölgun íbúða og íbúa í Kópavogi.